08.03.1921
Neðri deild: 17. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í D-deild Alþingistíðinda. (3874)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Fyrirspyrjandi (Pjetur Ottesen):

Áður en jeg sný mjer að fyrirspurninni sjálfri kemst jeg ekki hjá því að minnast lítils háttar á aðdraganda þessa máls, hættu þá, sem vofir yfir þjóðinni, ef ekki er lögð meiri rækt við landhelgisgæsluna en verið hefir, og tillögur þings og þjóðar til þess að bægja þessari hættu frá og fyrirbyggja hana.

Sem vonlegt er hefir það um langt skeið staðið ljóslifandi fyrir augum manna, hver vá er fyrir dyrum af völdum botnvörpuveiðanna hjer við land. Þess var ekki lengi að bíða, skömmu eftir að botnvörpungarnir útlendu þyrptust hjer inn á fiskimiðin við strendur landsins laust fyrir aldamótin, að það kæmi upp bágindaástand víða við sjávarsíðuna. Mönnum varð aflafátt á opnu bátana, og sá útvegur gekk mjög úr sjer; þilskipaútgerðin var þá á byrjunarstigi og gat ekki tekið við öllu því fólki, er þá varð að hverfa frá róðrarbátunum. Og það er engum vafa undirorpið, að þá hefði orðið hið mesta neyðarástand og bjargarskortur, ef sjómennirnir hefðu ekki brátt komist að raun um það, að hugmyndir hinna útlendu fiskimanna um verðgildi fiskjarins voru þannig, að þeir báru ekki við að hirða eða notfæra sjer nema örfáar fisktegundir, og þá einmitt þær, sem hjer voru verðminstar og mönnum þótti minstur slægur í.

Sjómenn gengu því fljótt á það lagið að eiga kaup við þessa útlendu fiskimenn, fengu hjá þeim þann fisk, er þeir ekki hirtu, og það fyrir litla eða enga borgun. Vitanlega kyntust þessir útlendu fiskimenn fyr en ella miðunum fyrir þessi viðskifti, en auðvitað hefði það nú komið hvort sem var. þetta 39 stóð nú svona í nokkur ár, en þegar sú fisktegund, sem botnvörpungarnir sóttust mest eftir, kolinn, þvarr, þá tóku þeir smátt og smátt að hirða fleiri og fleiri fisktegundir, og það var komið svo, er það var bannað með lögum, að menn hefðu mök við útlenda sjómenn á sjó úti, sökum sýkingarhættu, er af því gæti stafað, að þeir hirtu orðið nálega allan aflafeng sinn, hvers kyns sem hann var.

Við þessa breytingu lögðust, sumstaðar að minsta kosti, niður að mestu þær leifar, sem eftir voru af róðrarbátunum, eða svo var það við innanverðan Faxaflóa, því þá þegar var ásælni botnvörpunganna og yfirgangur á landhelgissvæðinu svo mikill, að veiðarfærin voru í hers höndum, fiskgöngurnar tvístruðust og afli á róðrarbátum var mjög misbrestasamur og brást stundum algerlega.

Landhelgin freistar mjög botnvörpuveiðamanna, og það aðallega af tveimur ástæðum. Fyrst og fremst af því, að innan landhelginnar er víðast hvar fremur grunt vatn, og þar er varpan miklu ljettari í drætti, mun fljótlegra að vinda hana upp. En þetta er hvorttveggja í senn, kolasparnaður og flýtisauki. í annan stað koma á vissum tímum mjög þjettar fiskgöngur inn á miðin, og er þá ekki, þegar svo ber undir, langrar stundar verk að fá fullfermi. Hættan, sem af því stafar, að landhelgin er fótasteinn þessarar veiðiaðferðar, er einkum tvennskonar.

Í fyrsta lagi hið ómetanlega tjón, sem landsmenn bíða við það, að aflinn er rifinn upp fyrir augunum á þeim og veiðarfærum þeirra er spilt og þau eyðilögð.

Í öðru lagi hin geysimikla eyðilegging og tortíming þess mikla grúa af ungviði og uppfæðingi, sem heldur sig á þessum stöðvum sumarmánuðina og fram eftir haustinu, og þess tjóns, sem leiðir af eyðileggingu nýfiskjarins, gætir því meir, sem frá líður.

Þó að landhelgissvæðið sje lítið, sorglega lítið, en það minnir okkur með öðru fleiru ósjálfrátt á dönsk yfirráð hjer á landi, framsýni og umhyggjusemi ráðandi manna í Danmörku á þeim tíma fyrir framtíð þessa lands, — þá blandast mönnum þó naumast hugur um það, hversu óendanlega mikilsvert það er, að lagt sje kapp á að verja landhelgina.

Um landhelgisgæslu þá, er Danir hafa haft á hendi hjer við land, er þarflaust að fjölyrða mjög. Það hefir lengi þótt við brenna, og að orðtaki haft, að hag þess manns væri miður vel borgið, er yrði að sjá alt með annara augum, og saga landhelgisgæslu Dana hjer við land er óneitanlega skýr vottur og staðfesting þess sorglega sannleika.

Jeg hefi það sem sje fyrir satt, og það er alls ekki gripið úr lausu lofti, að sú hafi verið venjan, að ákvarða varðskipunum tiltekinn kolaforða yfir þann tíma, er þau dveldu hjer við land, og hafi foringjar skipanna orðið að miða starf sitt hjer við það, að þeir gætu treint þennan forða. En þess ber að gæta vel og vandlega, að það er alt annað en takmarkaður og fyrirfram ákveðinn smálestafjöldi af kolum, sem leggja verður til grundvallar fyrir landhelgisgæslunni.

Það er þörfin, það er nauðsynin á að tryggja hag, viðgang, velmegun og sjálfstæði þeirra mörgu þúsunda manna, sem eiga líf sitt og framtíð undir því, að sjávarútvegurinn geti veitt þeim daglegt brauð, að þessi atvinnuvegur, sem er annar aðalatvinnuvegur landsins, geti verið þeim tryggur.

Það er knýjandi þörf og hagsmunir þjóðfjelagsheildarinnar, sem þetta mikilvæga starf á að grundvallast á. Mönnum er það fyrir löngu ljóst, hver nauðsyn er á því að hervæðast gegn þessum yfirgangi af eigin ramleik og láta ekki sitja við orðin tóm.

Árið 1913 var landhelgissjóður Íslands stofnaður, og er lagt til sjóðsins ?000 kr. á ári úr landssjóði, og auk þess að renna í hann meginhluti sektarfjárins, er inn kemur fyrir landhelgisbrot og andvirði upptæks afla og veiðarfæra. Tilgangi sjóðsins er lýst í 4. gr. laganna, en hún hljóðar svo:

„Sjóðnum skal á sínum tíma varið til eflingar landhelgisvörnum Íslands fyrir ólöglegum veiðum, og ákveður löggjafarvaldið, hve nær hann tekur til starfa og hve miklu af fje hans skal til þessara varna varið.“

Þó að hjer sje að vísu ekki frekt í farið með fjárframlag, sýnir þó þessi sjóðstofnun ákveðinn vilja og sjálfstæða viðleitni í þessa átt. Sjóður þessi nemur nú í ársbyrjun 1920 um 164 þús. krónum.

Það herrans ár 1914 skall Norðurálfusyrjöldin á. Það hafði þau áhrif, að erlendir botnvörpungar lögðust hjer frá, og nokkur hluti hins íslenska botnvörpungaflota var seldur úr landi, og botnvörpungaveiðar lögðust að mestu niður er um nokkur ár. Og það leið ekki á löngu, að þess sæust ljós merki, að er var breyting á orðin.

Þegar á fyrstu styrjaldarárunum fylltust flóar og firðir af fiski, og menn gátu óhindraðir og óáreittir stundað veiðarnar, og ungviði fiskjarins þróaðist og dafnaði í ró og næði.

Það færðist brátt nýtt líf í bátaútveginn. Allir gamlir bátar voru gerðir upp og bátasmiðir höfðu ekki undan að fullnægja óskum manna um byggingu nýrra báta.

Á Akranesi gengu til fiskjar, þegar flestir voru, þessi árin milli 40 og 50 róðrarbátar; hjeðan úr Reykjavík og af Seltjarnarnesi sennilega jafnmargir bátar, en ef til vill ekki eins að staðaldri. Af Álftanesi, Hafnarfirði og Hraunum um 50 bátar, að minsta kosti um tíma árið 1918. Um tölu báta, sem gerðir voru út til fiskveiða hjer suður með sjónum, veit jeg ekki með vissu, en hitt veit jeg, að útgerðin óx mjög mikið. Og yfirleitt held jeg, að það hafi verið svo nálega alstaðar á landinu, að nýtt líf færðist í þennan útveg. Það var enginn smáræðisafli, sem róðrarbátarnir fluttu á land hjer við Faxaflóa t. d. Á Akranesi var þessi útvegur hin besta tekjulind þessi árin, og skiftist auk þess svo jafnt á milli manna. Þar komst á gamla vöruskiftaverslunin milli sjávar- og sveitamanna, sem var mjög hagkvæm báðum málsaðiljum, eins og þá stóð á.

Jeg hefi það eftir áreiðanlegum heimildum, að í Hafnarfirði hafi tveir menn á bát aflað vorið 1918 til kaupstaðarinnleggs á bol — fyrir utan alt rask af fiskinum — alt að 3000 kr. Þetta er enginn smáræðisafli, en þó get jeg fullyrt, að hjá þessum mönnum var hann ekki neitt ýkjamikið yfir meðallag.

Hinn mikli bátaafli þessi árin var landinu til ómetanlegra hagsbóta, eins og þá var að ýmsu leyti erfitt fyrir hina stærri útgerð. En það var öllum ljóst, að þetta mundi ekki standa lengi, ef eigi væri að gert, því jafnskjótt og hinum mikla hildarleik í Norðurálfunni slotaði var þess ekki langt að bíða, að erlendir botnvörpungar þyrptust inn á fiskimiðin aftur, og landhelgin var í voða. Snemma á árinu 1919 fóru botnvörpungarnir að koma, og óx tala þeirra því meir, sem lengra leið, og sótti brátt í sama horf með yfirgang þeirra og veiðar í landhelgi. Friðurinn var úti, veiðarfærin í voða og aflanum spilt.

Á þingmálafundum, sem haldnir voru þá um vorið, voru ræddar og samþyktar tillögur, sem skoruðu á þing og stjórn að gera, svo fljótt sem kostur væri, öflugar ráðstafanir gegn hinum ofbeldisfullu aðförum botnvörpunganna. Hvaðanæfa bárust áskoranir í þessa átt.

Þingið 1919 skildi ofurvel, hver hætta var hjer á ferðum, og tók föstum tökum á málinu. Sjávarútvegsnefndir beggja deilda fluttu í sameiningu á þinginu frv. til laga, er heimilaði stjórninni að kaupa eða leigja, svo fljótt sem kostur væri á, skip til landhelgisgæslu. Og hver áhersla var á það lögð við stjórnina, að eigi yrði látið undir höfuð leggjast að framkvæma þennan vilja þings og þjóðar svo fljótt, sem frekast væri kostur á, geta menn gengið úr skugga um með því að kynna sjer umræðumar um þetta mál. Sjávarútvegsnefndir gáfu stjórninni bendingu um stærð og gerð skipsins, og jafnframt var leitað álits og umsagnar sjerfróðra manna um útgerðarkostnað slíks skips, stjórninni heimilað fje til þessara framkvæmda og yfirleitt svo vel frá málinu gengið, sem kostur var á frá hálfu þingsins.

Þessari framtakssemi þingsins var tekið með miklum fögnuði af þjóðinni. Menn biðu þess með eftirvæntingu, að eitthvað yrði úr framkvæmdunum.

Þegar menn komu á aukaþingið fyr í febrúar fyrra, urðu víst flestir fyr allmiklum vonbrigðum, því það kom í ljós, að stjórnin hafði lítið eða ekkert gert til framkvæmda í þessu máli, eða að minsta kosti ekki á þeim grundvelli sem þingið 1919 hafði ætlast til. Það eina, sem stjórnin gat bent á að hún hefði gert, var, að hún hafði eitthvað leitað fyrir sjer um verð á skipum, sem þó ekki leiddi til neinnar úrlausnar málinu. En aftur á móti ljet stjórnin þess getið, að Danir mundu vilja eða vera fáanlegir til þess að auka landhelgisgæsluna á því ári þannig, að þeir sendu hingað annað skip með Fálkanum, sem yrði hjer einhvern part úr árinu, og að danska stjórnin mundi vil, leggja alt kapp á það, að landhelgi gæslan yrði vel rækt.

Svona stóð málið þá. Þá var liðin fullur mánuður af vetrarvertíð vjelbáta hjer á Suðurlandi, og nú voru góð ráð dýr. Úr því, sem komið var, varð að líta svo á, að nokkur bót væri í því, að skip yrði fengið til aðstoðar Fálkanum Þessu boði var því tekið, og jafnframt skorað á stjórnina að reyna að fá þar tíma lengdan, sem skipin yrðu hjer við land, eða að úr því yrði bætt á einhvern annan hátt í bráðina. En til þess að halda í rjettu horfi með málið og fyrirbyggja það, að stjórnin hefði nokkra átyllu til að líta svo á, að þingið áliti þetta nokkra framtíðarúrlausn á málinu, þá flutti sjávarútvegsnefndin í N þál.till., sem, auk þess sem skorað var á stjórnina að sjá um, að tvö skip yrðu að staðaldri við landhelgisgæslu hjer því ári, heimilaði stjórninni nægilegt fje til undirbúnings landhelgisgæslumálinu. Var þar meðal annars átt við að að afla mönnum, ef nauðsyn væri því, frekari mentunar og undirbúnings til að takast á hendur landhelgisgæslustarfið.

Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr ræðu um þetta á síðasta þingi:

„En jafnframt þessu á þingsályktunartill. Þessi — og ekki hvað síst — að vera til þess að leggja áherslu, eindregna á herslu, á það við stjórnina að leita fyrir sjer um kaup á skipi eða skipum, sem hentug eru til landhelgisgæslu, og undirbúa það að öðru leyti, að við getum sem fyrst á eigin spýtur tekið þátt í landhelgisgæslunni og aukið hana, og svo vitanlega tekið hana að öllu leyti í okkar hendur með tímanum.“ En þennan undirbúning hafði stjórnin þá, að því er virtist, gersamlega vanrækt, og þó var till. samþykt með shlj. atkv. í báðum deildum. Að vísu mátti eð fullum rjetti segja, að stjórnin hefði í lögunum frá 1919 fulla heimild fjárframlaga í þessu skyni, en þetta var gert til þess að veita málinu meiri kraft, að sýna stjórninni svart á hvítu, að þinginu væri bláber alvara með þetta mál, og það svo, að stjórnin gæti alls ekki um það vilst.

Það var nú hvorttveggja, að menn gerðu sjer, að jeg held, alls ekki háar vonir um sjerlega mikinn árangur af þessari aukningu á landhelgisgæslu bátana. Og ef svo hefði nú verið, þá held jeg, að menn hafi yfirleitt orðið fyrir vonbrigðum.

Yfirgangur botnvörpunga í landhelgi og skemdir á veiðarfærum hygg jeg að naumast hafi nokkurn tíma verið svo hagnaður sem á þessu ári. Skip það, sem hingað átti að koma til aðstoðar Fálkanum, og einkum átti að vera við gæslu á Faxaflóa, varð þar aldrei að neinu liði, kom þangað alls ekki að öðru leyti en því, að það sigldi sem leið liggur beint til Reykjavíkur, og þar lá það að sögn bundið í báða enda við hafnargarðinn svo vikum skifti. Og það einmitt á þeim sama tíma, sem botnvörpungarnir gerðu mestan usla og spjöll á veiðarfærum utan og innan landhelginnar hjer úti á miðunum. Og þeir voru svo nærgöngulir við opnu bátana, þar sem þeir sátu á handfæraveiðum, að þeir urðu að taka sig upp úr sátrinu til þess að forða sjer undan þeim, þar sem þeir voru að trolla. Oftar en einu sinni lá jafnvel við, að slys hlytist af.

Lýsingarnar á aðförum trollaranna, sem oss berast til eyrna, eru þá ekki heldur fagrar. Og það vill nú svo vel til, að hjer fyrir sjálfu þinginu liggja slíkar lýsingar á framferði þeirra í Arnarfirði. Það eru umsagnir ýmsra manna, er trollararnir hafa leikið grátt. Og eftirlitið hefir ekki verið beysið þar. Jeg tek hjer af handa hófi eina lýsinguna og vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp:

„Yfirgangur togara í landhelgi hjer á firðinum í haust og seinni part sumarsins keyrði svo fram úr hófi, að sjaldan hefir hann jafnmikill verið. Í haust var ekki hægt að róa hjeðan með kastlóð fram á fjörðinn, því togarar toguðu inn og út fjörðinn, án tillits til þess, þótt róðrarmenn hefðu nýlega lagt veiðarfæri sín þar. Af þessum yfirgangi togaranna urðu róðrarmenn að leggja veiðarfæri sín með landi, upp við netalög, þar sem lítil eða engin veiði var, en útlendir, og ef til vill innlendir, togarar sópuðu burtu allri veiði af okkar bestu fiskimiðum. Sem dæmi upp á það, hvað togarar fóru nærri landi þegar þeir voru að veiðum, vil jeg geta þess, að þeir fóru svo grunt hjer fyrir framan Kirkjubólstangana, að brimið braut til grunns við þá, rjett hjá skipinu, og þó var þá ekki mikið brim.“

Með leyfi hæst. forseta vildi jeg enn fremur lesa upp niðurlag á öðru brjefi, þar sem svo segir:

„Verði ekki bætt úr yfirgangi togara, eins og hann hefir verið undanfarið, með auknum strandvörnum að miklum mun, þá verður lítt mögulegt fyrir fólk hjer að draga fram lífið, því að mestar tekjur manna, eða það, sem þeir hafa sjer til lífsframfæris, byggist á afla þeim, sem úr firðinum fæst.“ Það er mjög eðlilegt, að menn kvarti undan slíkum aðförum. Það er ofurskiljanlegt, að mönnum renni til rifja, þegar öll bjargræðisviðleitni þeirra verður að engu. Þegar menn geta altaf átt það á hættu, að þegar þeir eru búnir að leggja veiðarfæri sín, er þeir oft og tíðum hafa keypt fyrir sinn síðasta pening, eða keypt í skuld, þá sjeu þau tekin á sömu stundu, rifin og slitin út úr höndunum á þeim.

Og það eru sannarlega ömurlegar kringumstæður og þung spor að koma svo tómhentur heim að kvöldi og vera þess ef til vill ómegnugur að seðja hungur eða hylja nekt konu og barna.

Það er ósköp skiljanlegt, að menn finni sárt til þess og þyki það hart, að lítið eða ekkert skuli vera gert til þess að vernda eignir og bjargræðisviðleitni þeirra að þessu leyti.

Nú hafa þessu þingi borist enn á ný mjög margar áskoranir um framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu. Frá fjórðungsþingum í Austfirðinga-, Vestfirðinga- og Sunnlendingafjórðungi hafa komið áskoranir. Enn fremur frá hjeraðsfundi Vestur-Ísafjarðarsýslu og frá sameiginlegum fundi Vestur-Ísafjarða og Barðastrandarsýslu. Einnig áskoranir frá 10 þingmálafundum, og er ástandinu hörmulega lýst.

Jeg veit nú ekki, hvað stjórnin kann að hafa aðhafst til undirbúnings þessu máli, til framkvæmda á því, er fyrir hana var lagt á undanförnum þingum og af því er fyrirspurnin fram komin.

Reyndar hefir mjer nú borist í hendur, síðan fyrirspurnin kom fram, úrdráttur úr gerðabók hinnar svonefndu dansk-íslensku ráðgjafarnefndar, og sjest á því, að landhelgisgæslumál hefir verið til umræðu á þessum fundi. Það er bersýnilegt, að nefndarmennirnir dönsku hafa viljað skygnast inn í hugskot nefndarmannanna íslensku og stjórnarinnar í þessu máli.

Mjer virðist, að forsætisráðherra (J. M.) hafi markað þar nokkurn vegin skýrt og greinilega stefnu stjórnarinnar í þessu máli, og eru ummæli hans þar, sjeu þau rjett höfð eftir honum, að nokkru leyti svar við fyrirspurninni. Vildi jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessi ummæli hæstv. forsætisrá herra (J. M.), sem eru tilfærð í gerðabók nefndarinnar á þessa leið:

„Hann hafði haft samningsumleitanir við hið danska flotamálaráðuneyti um, að Danir ykju eftirlit með fiskiveiðum hjer við land þannig, að tvö skip önnuðust gæsluna, að minsta kosti um vertíðir frá febrúar til miðs maímánaðar og um síldveiðitímann. Þessi samningur kom þó ekki til framkvæmda í ár, sumpart vegna þess, að land varð að fá að láni mikið af kolabirgðum Dana hjer, og sumpart vegna þess, að senda þurfti Islands Falk til Grænlands vegna sjómannaverkfallsins.

Árið 1919 hafði Alþingi samþykt lög, sem gáfu heimild til, að Ísland tæki að sjer fiskiveiðaeftirlitið, að nokkru eða öllu leyti, en eftir því, sem ráða mátti af Alþingi 1920, lagði það ríkari áherslu á það, að eftirlitið væri aukið og kæmi að fullum notum, en hitt, að Ísland tæki eftirlitið í sínar hendur, og að vjer gjarna vildum komast hjá hinum mikla kostnaði, sem landhelgisgæslan hefði í för með sjer. Afstaða íslensku stjórnarinnar til málsins væri sú, að ef landhelgisgæsla Dana yrði fullnægjandi, mundi stjórnin láta sjer það vel líka og þá leggja það til við næsta Alþingi, að heimildin í lögunum frá 1919 yrði ekki notuð.

Íslensku stjórninni væri það ljóst, að hún gæti eigi krafist, að Danir ljetu meira í tje en þeir væru skyldir til samkvæmt sambandslögunum, og tilboðið um aukið eftirlit væri komið frá flotamálaráðuneytinu. Það, sem íslend getur krafist, er, að eitt skip sje hjer til eftirlits með fiskiveiðum meginhluta ársins, um 10 mánuði, en „Islands Falk“ kemur ekki lengur að fullu haldi til eftirlits með þeim hraðskreiðu botnvörpuskipum, sem nú tíðkast. Íslenska stjórnin hyggur, að Alþingi muni fallast á skoðun stjórnarinnar, en um þetta fæst fyrst vissa, þegar Alþingi kemur saman í febrúar 1921. Þá hefir og ríkisþingið setu, svo það gæti athugað málið með hliðsjón af afstöðu Alþingis. Íslenska stjórnin er öldungis einhuga um þessa afstöðu til málsins.“

Jeg verð að segja, að eftir því, sem á undan er gengið í þessu máli, þá hafa þessi ummæli hæstv. forsætisráðherra (J. M.) ónotaleg áhrif á mig að minsta kosti, og jeg hygg, að svo sje um fleiri. Einnig er það eftirtektarvert, hvernig hinum íslensku nefndarmönnum hafa farist orð. Það er haft eftir hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), að ekki mætti leggja meira inn í lögin frá 1919 en að landhelgisgæslan væri ófullnægjandi. Þessi ummæli koma mjer undarlega fyrir sjónir. Aftur á móti er að sjá af gerðabók nefndarinnar, að þm. Dala. (B. J.) og Einar prófessor Arnórsson hafi haldið fram hinum rjetta skilningi, sem sje þeim, að alls ekki mætti dragast að framkvæma lögin á þeim grundvelli, að vjer tækjum landhelgisgæsluna að einhverju eða öllu leyti í okkar hendur. Þessum mönnum er jeg þakklátur, því þeir hafa haldið fram hinum rjetta skilningi á lögunum frá 1919.

Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en vænti þess, að hæstv. forsrh. (J. M.) svari fyrirspurninni að því leyti, sem ummæli hans í dansk-íslensku ráðgjafarnefndinni, þau er jeg las upp, eru það ekki.