09.03.1921
Neðri deild: 18. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (3881)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Ólafur Proppé:

Herra forseti! Það er nú búið að ræða mikið um þetta mál, svo ef til vill hafa einhverjir tekið það fram, sem jeg vildi sagt hafa, og að því leyti kann ske óþarft af mjer að bæta við það. En þar sem jeg fer hjer með umboð einnar þeirrar sýslu, sem ef til vill einna mest hefir orðið fyrir barðinu af ágangi erlendra og kann ske innlendra fiskiskipa, vona jeg, að enginn taki það illa upp, þótt jeg leggi hjer nokkur orð í belg. Jeg hefði sennilega verið einn af fyrirspyrjendunum, hefði jeg ekki verið veikur þegar fyrirspurn þessi var afgreidd til þingsins.

Eins og hv. þm. Borgf. (P. O.) rjettilega tók fram í gær, má vel vera, að nokkuð hafi verið skiftar skoðanir manna um, hve skaðleg landhelgisveiðin í raun og veru hafi verið, og var á sínum tíma nokkuð rætt hjer um. En hafi skiftar skoðanir nokkru sinni verið um það atriði, mun undanfarið ófriðartímabil, sem mjög svo takmarkaði alla togaraveiði hjer við land, jafnt utan landhelgi sem innan, hafa fært landsmönnum heim sanninn um það, að hjer er ekki um neitt efamál að ræða. Fiskisæld sú, er var á grunn- og djúpmiðum síðari hluta ófriðaráranna og fyrsta friðarárið, áður en byrjað var að skafa á ný, er sú sönnun í máli þessu, sem enginn treystist til að hrekja.

Að fiskimið vor sjeu einhver dýrmætustu rjettindi og eign þjóðarinnar mun heldur enginn geta á móti mælt.

Það er því sorglegra að vita til þess, að undir eins að ófriðnum loknum, og það óslitið til þessa dags, hefir verið hafin sú grimmilegasta árás á þessi dýrmætu rjettindi vor, svo efasamt er, hvort nokkru sinni áður hefir verið meira að gert.

Erlend skip með hinum besta útbúnaði ösla nú í hundraðatali um bestu fiskimið landsins, jafnt utan landhelgi sem innan, og virðist svo, sem þegnar þeirrar þjóðar, sem undanfarið — í orði að minsta kosti — hafa barist fyrir frelsi og rjetti hinna smærri þjóða, gangi nú hjer best fram að verki, og er þó ekki svo að skilja, að aðrir eigi hjer ekki sök að máli og það jafnvel landsmenn sjálfir. En þeir, sem að fiskimiðunum búa og þaðan eiga að hafa lífsuppeldi sitt, standa uppi ráðalausir og varnarlausir og geta ekki rönd við reist.

Jeg ætla ekki hjer að telja upp nein einstök dæmi, enda hefir þegar verið minst á sum þeirra hjer í hv. deild, og er þó eigi svo að skilja, að fleira mætti ekki upp telja en gert hefir verið. En jeg læt mjer að þessu sinni nægja að vísa til nýútkominnar blaðagreinar eftir nafnkunnan prest á Vesturlandi, og efast jeg ekki um, að allir þingmenn hafi sjeð hana.

Við þessum ágangi og ránum, sem partur þjóðarinnar nú á við að búa, eru engin önnur ráð en öflug strandgæsla. En hvernig hefir henni verið hagað undanfarið? Ja, því er fljótsvarað. Hún hefir verið svo kraftlaus og aðgerðalaus, sem frekast hefir hægt verið, enda tæpast við öðru að búast, þar sem við í þessu efni höfum orðið að lifa á bónbjörgum annara og engin veruleg umráð haft yfir vörninni. Það er að vísu svo, að Danir hafa um undanfarin 25–30 ár í orði kveðnu gætt landhelginnar, en án þess nú eftir á að vanþakka það, er ekki of djúpt tekið í árinni að segja, að gæsla þessi hafi verið allsendis ófullnægjandi, og liggja þar eflaust til ýmsar ástæður, sem, frá þeirra sjónarmiði sjeð, eflaust hafa verið þrándur í götu fyrir ósleitilegri starfrækslu gæslunnar. Jeg minnist hjer á, í þessu sambandi, sögusögn þá, sem algeng hefir verið á landi hjer, sem sje þá, að Bretar hafi látið dönsku stjórnina á sjer skilja, að ef gripin væru árlega fleiri skip en þeim sýndist hæfilegt, skyldu þeir eiga þá á fæti. Eins og gefur að skilja, er hjer einungis um sögusögn að ræða, sem eins getur verið röng sem rjett, en rjettmæti hennar styðst þó við þá staðreynd, að forusta þeirra foringja varðskipanna, sem árvakrastir hafa verið, hefir á stundum verið endaslepp.

Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að það er ekki lengra síðan en síðasta haust, að jeg heyrði, eftir enskum togaraskipstjóra, sem í samræðu við annan mann, út af strandgæslunni, sagði, að oft hefði hún verið ljeleg, en aldrei sem nú, því hann hefði þá sjálfur nýlega verið innan landhelgi, er varðskipið bar óvörum að, og bjóst að sjálfsögðu við hinu versta, en varð heldur en ekki glaður yfir því að sleppa með að taka þegar upp vörpuna og fara út fyrir línuna, og fá „áminningu um að gera slíkt aldrei oftar, eins og góðu börnin.“ öll reynsla undanfarinna ára í strandgæslunni bendir því í þá átt, að hún muni aldrei ná fyllilega tilgangi sínum fyr en hún er komin í okkar eigin hendur, og að því verður að vinna með alúð og fyrirhyggju og einskis láta ófreistað, sem hægt kann að vera að gera.

Á hinn bóginn er nú svo í pottinn búið, að sitja verður við það, sem er eða í boði kann að vera. En jeg get ekki — áður en jeg lýk máli mínu — annað en snúið máli mínu til hæstv. stjórnar, með tilmælum um, að hún láti nú þegar skríða til skarar um undirbúning þessa mikla þjóðþrifamáls, samkvæmt þeim heimildum, sem hún þegar hefir frá þinginu.

En með tilliti til núverandi strandvarna vildi jeg beina því til hæstv. stjórnar, að tilboð það frá flotamálastjórninni dönsku, sem nú liggur fyrir, er því aðeins nokkurs verulegs virði, að athafnir skipanna stjórnist að miklu leyti hjeðan, eða með öðrum orðum, að stjórn Íslands hafi mestan íhlutunarrjett um siglingar skipanna hjer við land.