09.03.1921
Neðri deild: 18. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í D-deild Alþingistíðinda. (3887)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Jón Þorláksson:

Ástæðan til þess, að jeg stend upp, eru nokkur ummæli hæstv. forsrh. (J. M.) og hv. þm. Dala. (B. J.) í gær.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að Dönum bæri ekki skylda til að senda nema eitt skip hingað til strandgæslu 10 mánuði ársins. Þetta kom mjer mjög á óvart, því 8. gr. sambandslaganna hefi jeg álitið að væri ótvíræð. Þar segir:

„Danmörk hefir á hendi gæslu fiskveiða í íslenskri landhelgi undir dönskum fána, þar til Ísland kynni að ákveða að taka hana í sínar hendur, að öllu eða nokkru leyti, á sinn kostnað“.

Eftir því, sem jeg hygg að sje sjálfsögð venja í milliríkjasamningum, þá mun verða að skilja þetta svo, að Danir eigi að inna af hendi sæmilega og nægilega strandgæslu. Hæstv. forsrh. (J. M.) grundvallaði skoðun sína á því, að svo hefði talast til við undirbúning sambandslagagerðarinnar, að skylda Dana til strandvarna ætti ekki að vera víðtækari en þetta, en jeg verð að mótmæla þeirri skýringu. Þegar sambandslögin voru borin undir atkvæði þjóðarinnar, áttu menn ekki kost á að vita um það, sem fram hafði farið í samninganefndinni, undirbúning laganna nje nein undirmál, heldur greiddu menn atkvæði um lögin sjálf.

Jeg verð því að halda fast fram þeim skilningi, að Danmörk hafi skyldu til að hafa hjer landhelgisgæslu eftir því, sem felst í 8. gr. sambandslaganna.

Mjer hefir aldrei fundist, að jeg eða aðrir Íslendingar þyrftum að fyrirverða okkur fyrir það ákvæði, af því jeg lít svo á, að sambandslögin sjeu að miklu leyti afsalsbjef íslenskra rjettinda, og gæti jeg fært marga staði því til sönnunar. En þetta er eitt atriðið í þeim, sem gerði það, að jeg sem kjósandi gat greitt atkvæði með þeim. Jeg álít því, eins og jeg sagði áðan, að við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir að ganga eftir því, að þessu lagaákvæði verði fullnægt.

Svo jeg víki máli mínu að umræðunum, þá verð jeg að segja það, að mjer finst það leiðinlegt, að inn í umræðurnar um jafnvandasamt og þýðingarmikið mál hafa blandast ýms óviðkomandi atriði hjá sumum hv. þingmönnum. Hjá sumum þeirra hefir borið miklu meira á tilhneigingu til að áfellast stjórnina en umhyggju fyrir málinu sjálfu. Jeg undanskil þó algerlega frsm., hv. þm. Borgf. (P. O.); jeg varð ekki var við annað hjá honum en umhyggju fyrir strandvörnunum.

Hv. þm. Dala. (B. J.) talaði um, að Danir væru svo góðir fjedrengir, að þeir mundu hjálpa okkur í þessu máli, ef við færum bónarveg að þeim. Jeg get ekki annað en talið það ósæmilegt að viðhafa slík ummæli um þetta mál. Jeg hefi þann skilning, eins og jeg hefi sagt, að við þurfum ekki að biðja þá um það, sem við höfum fullan rjett til að krefjast. En jeg verð að telja það mjög óheppilegt, að sú nefnd, sem á að standa á verði fyrir þeim rjettindum, sem sambandslögin hafa áskilið okkur, virðist hafa gengið slælega fram í málinu. Að strandvarnirnar hafi ekki fullnægt tilgangi sínum hefir ljóslega komið fram í umræðunum um þetta mál hjer í deildinni, en slíkt er engin sönnun fyrir því, að svona hljóti einnig að verða framvegis. Það gátu verið eðlilegar ástæður fyrir því, að ekki yrði af aukningu strandvarnanna árið 1919, fyrsta árið eftir að sambandslögin gengu í gildi. Árið 1920 átti að auka hana, en fórst fyrir af ófyrirsjáanlegum og óviðráðanlegum ástæðum, annars vegar nauðsyn Grænlendinga, vegna hafnarverkfallsins í Kaupmannahöfn, og hins vegar að stjórnin neyddist til að taka kolabirgðirnar, sem skipinu voru ætlaðar.

Jeg get því ekki fallist á þá staðhæfingu, að við getum ekki haft not gæslu Dana. Jeg álít ekki saman berandi, hvernig þetta eina skip starfaði áður en sambandslögin gengu í gildi, við það, sem verða mætti, ef ákvæði sambandslaganna væri fullnægt. Þess vegna verð jeg að álíta það fyrstu skyldu þings og stjórnar að ganga eftir því, að Danmörk uppfylli skyldur sínar samkvæmt 8. gr. sambandslaganna, og þótti mjer það óþarfa varúð af hæstv. forsrh. (J. M.), er hann gat þess, að tilboð flotamálastjórnarinnar um að leggja til tvö skip hefði komið fram án tilmæla af sinni hálfu. Því miður virðist mjer íslenski hluti dansk-íslensku nefndarinnar vera illa skipaður, því að vitanlegt er, að þar er til sú skoðun, að Íslendingar eigi ekki að nota sjer þennan rjett sinn, og mun það draga úr hinum málsaðiljanum að uppfylla skyldur sínar.

Jeg vil þá minnast á það, að skilja má 8. gr. sambandssamningsins á þá leið, að skylda Dana til strandgæslu falli niður frá þeim tíma, er Ísland ákveður að taka strandgæsluna í sínar hendur, og leyfi mjer að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvort það hafi verið meiningin með þingsályktuninni frá 1919 að ákveða, að Ísland þannig tæki strandgæsluna í sínar hendur. Jeg geri þó ekki ráð fyrir, að unt sje að leggja þennan skilning í þingsályktunina, heldur sje skylda Danmerkur samkvæmt greininni enn þá óskert.

Jeg skal nú ekki hafa á móti því, að Íslendingar verji fje til strandgæslu, þegar gerlegt þykir. En það verður að byrja á því að taka málið upp til undirbúnings. Öll mál, sem eru jafnmikilsverð og þetta, þurfa að fá rækilegan undirbúning áður en þau eru lögð fyrir Alþingi til úrslita. Jeg veit ekki til, að þetta mál sje nokkuð undirbúið, engin kostnaðaráætlun liggur fyrir, nje heldur tillögur um tilhögun starfsins. (P. O.: Það var gert 1919). það mun vera satt hjá hv. þm. (P. O.), að einhver kostnaðaráætlun hafi verið gerð 1919, en í því sambandi er vert að minnast á ástandið þá. Svo stóð á, að verðfall hafði orðið á flestum vörum frá ófriðarslitum, og sjerstaklega hafði skipasmíðaefni fallið í verði. Menn gerðu sjer alment bjartar vonir um, að verðfallið hjeldi áfram, eða stæði í stað að minsta kosti, en þær vonir reyndust tálvonir. Árið 1919 var verð á skipasmíðaefni orðið svo lágt, að það hafði aldrei komist eins langt niður síðan í byrjun ófriðarins. En ekki leið á löngu áður en það fór aftur upp úr öllu valdi, og árið 1920 var það og annað komið í hærra verð en nokkum tíma fyr. Það verður að teljast happ, að stjórnin gerði ekki samninga um skipasmíði þá, því allir, sem til þess urðu, brendu sig á því, og það tilfinnanlega. það er kunnugt, að við slíka samninga var ekki hægt að ákveða fast verð fyrirfram; það varð að fara eftir öllum tilkostnaði á smíði skipsins. Og þessi kostnaður hefir farið fram úr öllu því, sem menn gerðu sjer í hugarlund. Jeg veit um eitt fjelag hjer í bænum, sem greiddi 11/2 miljón kr. til þess að losna við samning um skip, sem það hafði gert, og það er áreiðanlegt, að líkt hefir fleirum farið. Allir þeir, sem taka nokkurt tillit til fjárhags ríkisins, hljóta að fagna því, að stjórnin lagði ekki út í þær ógöngur, þó að þær væru ekki sýnilegar á Alþingi 1919. Það getur verið, að hægt hafi verið að kaupa gömul skip með sæmilegu verði, en jeg dreg það ekki í efa, að sú aðferð er óheppileg og óhagkvæm, enda hefir það stöðugt komið á daginn, þegar gömul skip hafa verið keypt, að á þau hefir lagst óvæntur kostnaður, og hafa þau oft orðið eins dýr og ný skip að lokum, en vitanlega mun ljelegri.

Ef menn vilja líta á málið með skynsemi, verður aðalatriðið þetta: Á hvern hátt er hægt að koma málinu í framkvæmd, og hver verður kostnaður við það? Þetta verður að liggja skýrt og ákveðið fyrir þinginu, til þess að það gangi að málinu sjáandi, en ani ekki í ógöngur í blindni. Undirbúningur og nákvæm kostnaðaráætlun er nauðsynleg. Áætlunin frá 1919 er nú orðin einskis virði, vegna þess, hve verðlag hefir breyst. Önnur ný verður að koma í hennar stað.

Jeg get ekki fallist á, að rjett sje að gefa stjórninni óbundnar hendur um jafnmikilvægt mál og þetta. Það er í alla staði óheppilegt, að hún ráði málinu til lykta upp á eindæmi sitt og leggi það fyrst fyrir þingið, þegar alt er klappað og klárt og engu hægt að breyta. En hitt getum við gert, og er sjálfsagt að gera, að fela stjórninni málið til undirbúnings, og þegar málið hefir fengið þann undirbúning, ræður þingið því til lykta eftir því, sem best þykir henta.

Hv. þm. Borgf. (P. O.) hefir bent á sjerstaka ástæðu fyrir því, að við tækjum landhelgisgæsluna í okkar hendur og legðum í þann kostnað, sem af því hlyti að leiða. Hann taldi gæsluna betur komna hjá okkur, því við hefðum hagsmuna að gæta og mundum því rækja starfið betur en Danir. Jeg hefi tilhneigingu til að vera þessu sammála, því sjálfs er höndin hollust. Og ef við tökum að okkur landhelgisgæsluna eða forustu hennar, er sjálfsagt að gera það með þessari hugsun að baki, en ekki hinni, að metnaður okkar banni það, að Danir ræki þær skyldur, sem þeir hafa skýlaust viðurkent. En ef við tökum að okkur forustuna, verðum við að gæta þess, að byrjunin fari vel úr hendi, en jeg verð að halda því fram, án þess að jeg vilji blanda mjer í þær deilur, sem orðið hafa í dag, að það væri ekki heppileg byrjun til forustu að kaupa eða leigja gamalt skip, sem er í alla staði ófært til að annast þetta starf. Jeg á við björgunarskipið Þór, sem er gamall togari og hefir ekki hraða nálægt því á við nýtískutogara. Það eru náttúrlega engin rök, sem færð hafa verið fram fyrir nothæfi þessa skips til strandvarna, af hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að skipið eigi ekki að eltast við togara, heldur liggja innan við landhelgislínuna og vara togarana við lögbrotum með nærveru sinni. Þessi hugsun er falleg og presti sæmandi, en mörg skip mættu það vera, sem gætu varið alt landhelgissvæðið á þennan hátt.

Að endingu vil jeg endurtaka það, að eins og nú standa sakir sje hyggilegast fyrir þá, sem hugsa vilja um málið sjálft, að sjá um, að gengið verði eftir því, að Danir ræki skyldu sína í þessu máli þangað til það hefir fengið þann undirbúning og ríkið þær fjárhagsástæður, að við getum sjálfir tekið landhelgisgæsluna í okkar hendur.