10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (3890)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það mun best að láta ekki hv. þm. Dala. (B. J.) fúna í gröf sinni og svara honum nokkru, enda þótt hann mætti nú, í þessari ræðu sinni, teljast fremur spakur. (B. J.: Jeg er altaf spakur).

Hv. þm. (B. J.) sagði í ræðu sinni, að jeg hefði hlaupið fram fyrir skjöldu. það ætti ekki að saka hann; þess hægari ætti honum að verða atlagan.

Hv. þm. (B. J.) gat þess, að það hefðu ekki átt að vera rök hjá sjer, sem jeg sagði í síðustu ræðu minni að jeg fyrirliti, heldur hefði það verið spaug. Fyrst svo er, að honum finst viðeigandi að spauga um þýðingarmikil landsmál, þá get jeg, til að hlífa hv. þm. (B. J.), slept að minnast frekar á þetta.

Um að gera „Þór“ að skólaskipi verð jeg að segja, að mig undrar það, að hv. þm. (B. J.) skyldi ekki koma fram með tillögu í þá átt á þinginu í fyrra, þar sem lá þó fyrir tillaga um að veita 300 þús. kr. styrk til skipsins. Annars held jeg, að varla sje hægt að búast við því, að stjórnin fari að lífga fallnar tillögur og framkvæma þær.

Að stjórnin hafi brugðið heiti við Vestmannaeyinga um leigu á skipinu er sagt á móti betri vitund, eftir að hv. þm. (B. J.) hefir sjeð brjefið til Vestmannaeyinga og heyrt það lesið upp. (B. J.: Það stendur í brjefinu). Það stendur ekki í brjefinu, og hv. þm. (B. J.) hefir áður lýst yfir því, að stjórnin skilji íslensku, og hún er því bær að dæma um, hvað í því felst. (B. J.: Jeg geng frá því nú, að stjórnin geri það). Hv. þm. (B. J.) má gjarna fyrir mjer ganga frá öllu, sem hann segir.

Hv. þm. (B. J.) sagði, að stjórninni bæri skylda til að vera varkár, og hún hefir verið það og ekki bragðið heit sín við Vestmannaeyinga í neinu.

Það er ekki heldur rjett hjá hv. þm. (B. J.), að tekið hafi verið þetta eina skip, sem átti að annast strandvarnirnar, til þess að fara norður; skipin voru tvö.

Sparnaðurinn er hv. þm. (B. J.) þyrnir í augum, og er hann því reiður yfir því, hversu stutt þingið var í fyrra. Jeg rjeð því nú ekki einn, að þinginu var slitið svo fljótt sem var, en jeg var með í því að samþykkja það, og tel mjer sóma að. Annars sýnist svo, sem hv. þm. (B. J.) æski þess að hafa þing óslitið alt árið. (B. J.: Það væri best fyrir stjórnina). Þess vegna vill auðvitað hv. þm. (B. J.) það.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að umræðunum í gær, og þá fyrst að ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.). Hv. þm. talaði mikið um það, hversu miklu færri opnir bátar ætluðu nú að stunda eða stunduðu fiskiveiðar en seinni stríðsárin, og virtist mjer hann eingöngu vilja kenna það yfirgangi botnvörpunganna. Jeg skal nú ekki gera lítið úr þessum yfirgangi, vil aðeins benda honum á, að til þess liggja einnig aðrar ástæður, sem sje þær, að nú eru miklu fleiri, sem hafa atvinnu við fiskveiðar á togurum, en var síðari stríðsárin. Nú munu togarar vera 24, en voru síðari stríðsárin 5–10. Enn fremur verður á það að líta, að þegar mikið er um togaraveiðar, þótt fyrir utan landhelgi sje, er ekki hægt að búast við eins miklu bátfiski og meðan togarar alls ekki, eða að litlu leyti, stunduðu veiðar hjer við land.

Jeg hefi ekki haldið því fram, að það ætti að vera framtíðarfyrirkomulag, að Danir hefðu einir strandgæsluna, en jeg vil, eins og jeg hefi skýrt tekið fram, að við þetta ár látum okkur nægja og reynum að komast af með þau tvö skip, sem Danir nú bjóða, með tilliti til þess útlits, sem nú er, og hinna erfiðu ástæðna.

Það var ekki álit sjávarútvegsnefndar þessarar hv. deildar um björgunarskipið „Þór“, sem jeg óskaði, heldur álits hv. þm. Borgf. (P. O.). En jeg skil, að hv. þm. (P. O.) vill ekki láta það uppi, og mun jeg því ekki ganga eftir því frekar.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Hann talaði langt mál og hneykslaðist á því, að jeg hjelt því fram, að þingið í fyrra hefði viljað láta sjer nægja strandgæslu Dana, eftir því, sem þá stóð á. En þetta verður ekki hrakið.

Jeg fullyrði, að það sjáist ekki eitt orð um það í þingtíðindunum, að tilætlunin hafi verið að leigja „Þór“ til strandvarna. Þvert á móti hefi jeg sýnt fram á, að hið mótsetta má leiða út af gerðum þingsins, og það hefir ekki einu sinni verið gerð tilraun til að hrekja það.

Það er eins og ýmsir hv. þm., sem hafa talað, álíti, að ef við fáum eitt strandgæsluskip íslenskt, þá muni enginn togari nokkru sinni komast í landhelgi. En þetta mun reynast á annan veg, og það þarf áreiðanlega mörg skip til öruggrar varnar. Annars hirði jeg ekki um að rekja og hrekja allar hinar prestslegu líkingar hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), hvorki um mykjuna við fíkjutrjeð nje annað. En þegar hann vildi líkja strandgæslu þeirri, er við nú eigum við að búa, við það ástand hjá bónda, að hann þyrfti að sækja hunda til nábúa síns í hvert skifti, sem hann þyrfti að reka úr túninu, þá verð jeg að benda honum á, að dæmið er rangt. En vilji hann hafa það rjett, þá væri það þannig, að bóndi fengi lánaðan hund hjá öðrum til vörslu, ekki í hvert skifti, heldur um lengri tíma, samkvæmt þar um gerðum samningi. Og jeg sje ekki, að það væri það vitlausasta, sem hægt væri að gera.

Háttv. sami þm. (M. J.) sagði, að jeg hefði sagt, að jeg fyrirliti röksemdir andstæðinganna. En þetta er rangt með farið. Jeg sagði, að jeg fyrirliti þá röksemd hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að stjórnin vildi helst ekki sjá íslenskan fána kringum landið, og hv. þm. Dala. (B. J.) hefir nú viðurkent það, að þetta hafi ekki verið neinar röksemdir hjá sjer.

Spádóm hv. þm. (M. J.) um það, að þjóðin muni fyrirlíta fjármálastjórn mína, læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja. Hann mun ekki eiga að dæma einn um það.

Þá sný jeg mjer að hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Hann kvartaði yfir því, að jeg hefði misskilið sig og rangfært orð sín, en ekki er það mín sök, þótt hann vilji ekki við þau kannast, þegar hann er krafinn reikningsskapar fyrir þau. Má hann mín vegna eta þau ofan í sig aftur, og vona jeg, að honum verði ekki bumbult af.

Hann lofaði, að jeg skyldi falla á þessu máli, en þá er bara eftir að efna loforðið, og mun jeg ekki harma það.

Jeg endurtek það, að engir samningar hafa verið gerðir um leigu á „Þór“, og duga engar Gróusögur úr Vestmannaeyjum til að hnekkja því.

Jeg sje ekki, að utanför mín í haust komi þessu máli við, og skal því ekki fara út í hana. En það skil jeg vel, að hv. þm. (Gunn. S.) hafi þótt það ilt, að ríkissjóður tók ekki lán handa honum, til þess að hann gæti haldið áfram hinum þjóðholla atvinnuvegi sínum, sem mjer er sagt að nú gangi heldur tregt.

Það er rjett, að sala afurða vorra hefir gengið miklu tregar og ver en bæði jeg og aðrir gerðu ráð fyrir í haust. En síst er ástæða að hælast um yfir slíku, og því valda ófyrirsjáanleg atvik, sem tilgangslaust er að fara út í hjer.

Jeg er alveg samdóma hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) um, að strandgæsla Dana hjer sje engin gjöf, og jeg tók þetta fram í fyrri ræðu minni. Er jeg honum þakklátur fyrir þann stuðning, sem hann hefir veitt í þessu máli.