10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í D-deild Alþingistíðinda. (3893)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Hákon Kristófersson:

Umræðurnar eru nú þegar orðnar nokkuð langar og hafa snúist um nokkuð annað en til var stofnað af okkur flm. þessarar tillögu. En sökum þess, að jeg er annar flutningsmanna, vil jeg segja nokkur orð.

Hv. þm. Borgf. (P. O.), meðflytjandi tillögunnar, hefir nú talað svo rækilega um þetta mál, að jeg hefi þar litlu við að bæta. Þó get jeg ekki stilt mig um að minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið. Það er þá fyrst, að jeg verð að láta undrun mína í ljós yfir því, að tillagan skuli hafa getað orðið orsök í því, að sumir af ágætustu þm. hafa staðið upp til að lýsa yfir því, að samningarnir við Dani 1918 hafi haft rjettindaafsal í för með sjer.

Hæstv. forsrh. (J. M.) gat þess í ræðu sinni, að flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Borgf. (P. O.), hefði í raun og veru svarað sjálfur fyrirspurninni, svo að hann hefði engu að svara. Jeg veit nú ekki, hvernig á að skilja þetta, nema ef svo er, að hæstv. forsrh. (J. M.) telji fyrirspurnina óþarfa. Fyrir okkur flm. vakti ekki annað með fyrirspurninni en það, að alþjóð fengi að vita, hvað gert hefði verið í málinu, og hvað hyggilegast væri að gera, og það stoðar ekki, þó að einstakir menn hafi ef til vill einhverja hugmynd um það; almenningi er það jafnókunnugt fyrir því. En úr þessu átti fyrirspurnin að bæta.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að stjórnin hefði fullnægt heimildarlögunum frá 1919. Jeg er honum nú sammála í þessu. Þar sem einungis um heimildarlög var að ræða, er ekki hægt að saka stjórnina um framkvæmdaleysi á þeim. En svo kom þingsályktunin á þinginu 1920, og hún var árjetting á gerðum þingsins 1919 og til þess gerð að herða á stjórninni. Og það er einmitt hennar vegna, sem jeg lít svo á, að stjórnin hafi vanrækt skyldu sína í þessu máli. Jeg hygg nú, að þetta framkvæmdaleysi stjórnarinnar stafi mestmegnis frá skilningsleysi hennar á nauðsyn málsins, og byggi jeg þessa ætlun núna á því, að helst er svo að sjá, sem stjórnin, jafnvitur, víðsýn og ágæt, sem hún annars er, haldi það, að nægilegt sje að hafa skip til strandgæslu einhvern vissan tíma, frá febrúar til maíloka, og um síldveiðatímann, en hafi enga hugmynd um það, að til eru haustvertíðir.

Mjer dettur ekki í hug að lá stjórninni það, að hún ljet ekki byggja skip eða keypti, eins og þingið ætlaðist til að hún gerði. En þrátt fyrir það hefir stjórnin ekki gert það, sem hægt var að gera í landhelgisgæslumálinu, að leigja skipið af Vestmannaeyingum, sem bæði hefði orðið til styrktar gæslunni og jafnframt verið hlynt með því að góðu fyrirtæki.

Það er nú í ráði, sem kunnugt er, að Danir auki landhelgisgæsluna næsta ár, og skal jeg taka fram í sambandi við það, að mjer finst heimska að hafna því tilboði eins og nú standa sakir, og hirði jeg eigi um, þótt einhverjir vilji bera mjer á brýn, að jeg sje lítill sjálfstæðismaður, sökum skoðana minna á þessu máli. Jeg hata eigi Dani, og mjer sýnist það engin minkun að þiggja liðveislu þeirra hjer um, og það enda þótt þeir bjóði meiri strandgæslu fram en þeim ber skylda til.

En á það verð jeg að leggja áherslu, að stjórnin hafi yfirráð skipanna, því að eigi Danir að hafa þau áfram, þá álít jeg vörslu þeirra einskis virði, án þess þó að jeg vilji nokkuð blanda mjer inn í ummæli þau, sem fallið hafa hjer um foringjana, að þeir væru betur fallnir til þess að dansa í landi en hafa forustu á hendi, heldur aðeins það, sem öllum er skiljanlegt, að íslenskir foringjar hljóta að hafa meiri áhuga og þekkingu á starfi sínu en hinir dönsku. Jeg er því sammála hæstv. fjrh. (M. G.) um þetta atriði, þótt jeg sje honum annars ósammála, að sjálfsagt sje að reyna þetta næsta ár, því ella verði hjer engin landhelgisgæsla, en slíkt er algert banatilræði við bátaútveg okkar.

En þó að þetta sje að mínu áliti rjett, eins og sakir nú standa, þá vil jeg þar fyrir, að stefnt sje að því með atorku, að við tökum strandgæsluna í okkar hendur síðar meir. Og jeg fæ ekki sjeð, þó að horfið verði að þessu ráði, að við verðum neinir bónbjargamenn Dana þar fyrir, nje skerðum í nokkru þjóðarsómann, og eigi hræðist jeg það, þó að hjer sjáist danskur fáni í landhelgi, einungis að skipin gerðu eitthvert gagn.

Þó að jeg hafi nú látið þetta um mælt, þá þykist jeg í engu hafa farið þar í bága við vilja þinganna 1919 og 1920, því að orð mín miðast eingöngu við það vandræðaástand, sem nú ríkir, og úrræði til að bæta úr því, en dregur á engan hátt úr því, að við tökum strandvörsluna, þegar við þykjumst færir til.

Hvað hv. sjávarútvegsnefnd kann að leggja til málanna er mjer ókunnugt um. Hitt hefði mjer fundist viðeigandi, að álit hennar hefði verið þingmönnum kunnugt, þegar málið var tekið til umr.

Að síðustu vil jeg enn leggja áherslu á það, að bak við flutning tillögu okkar lá ekkert annað en það, sem jeg hefi áður getið. Kunni svo að fara, að ástæður þyki til að hrófla eitthvað við stjórninni, þá mun verða hægt að finna aðrar ástæður veigameiri en þessa. Hún hefir að vísu gert lítið í málinu, en það mun, sem jeg hefi áður minst á, meir stafa af skilningsleysi hennar en viljaleysi, að hún hefir ekki framkvæmt vilja þingsins.

Hvað orðum hv. þm. Dala. (B. J.) viðvíkur, þá snerta þau mig ekki. Mig langar eigi til að vera bónbjargamaður Dana í nokkru, vil einskis bónbjargamaður vera, ekki einu sinni hv. þm. Dala. (B. J.).