10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í D-deild Alþingistíðinda. (3894)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Gunnar Sigurðsson:

Hæstv. fjrh. (M. G.) er svo heppinn í þessum umræðum, að hafa jafnan sólarhrings millibil til þess að rangfæra og misskilja umræður þm. það er ekki jeg einn, sem hefi undan þessum rangfærslum að kvarta; allir hv. þm., sem eiga orðasennur við hæstv. ráðherra (M. G.), kvarta undan þeim.

Hæstv. fjrh. (M. G.) mintist á atvinnuveg minn. Mjer er ekki ljóst, hvað hann átti einkanlega við. Jeg er lögfræðingur, eins og hann, og hefi haft á hendi lögfræðisstörf. Þar að auki hefi jeg rekið fasteignasölu, en einkanlega hefi jeg fengist við að reisa hús. Hefir mjer tekist að reisa 4 hús hjer í bænum í húsnæðisleysinu á stríðsárunum. Jeg skil ekki, að það geti talist óþarft. Annars hefir hæstv. fjrh. (M.G.) líka verslað með hús hjer í bænum. Jeg þori að fullyrða, að óþarfari hefir hæstv. fjrh. (M. G.) verið landinu. Árangurinn af fjármálastjórn hans er ekki betri en það, að það er á allra vitorði, að erlendis er landið alment álitið gjaldþrota og lánstraust þess nær því horfið. Tjónið af ráðsmensku hans verður því alls ekki metið til peninga. Hann hefir látið alt danka og ekkert hafst að, en það var það hættulegasta á þeim tímum, sem voru. En nú vill hann sitja áfram í trássi við meiri hluta þingsins, sem vitanlegt er að er andstæður stjórninni í öllum aðalmálunum. En þegar svo er, er stjórninni áreiðanlega hentast að segja af sjer. Nema ef hún hefir skoðanaskifti í öllum helstu málunum og reynir að lafa á því.