10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í D-deild Alþingistíðinda. (3895)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Jón Auðunn Jónsson:

Það væri æskilegast, ef menn vildu halda sjer við málið sjálft, en forðuðust alt skraf um ríkisrjett og annað, sem málinu er næsta óviðkomandi.

Ástæðan til þess, að þessi fyrirspurn hefir komið fram, er vitanlega sú, að komist verði að raun um, hvað heppilegast er fyrir stjórnina að gera, til þess að taka landhelgisgæsluna í okkar hendur. Jeg álít að vísu, að ekki hafi verið nein sjerstök þörf á fyrirspurninni. En jeg harma það ekki, að hún er komin fram, því það getur vonandi skýrt nokkuð málið og brýnt fyrir þinginu þörfina á að taka gæsluna í okkar eigin hendur. Jeg álít sem sje, að hún verði aldrei fullnægjandi fyr en við höfum tekið hana í okkar hendur. Jeg segi það ekki vegna þess, að jeg haldi, að þeir Danir, sem hafa haft hana á hendi, hafi ekki viljað stunda hana sem skyldi, heldur hefir þá brostið kunnugleika að vonum, og haft þess utan öðrum störfum að gegna, svo þeir hafa ekki getað sint gæslunni sem skyldi, þar sem skipin hafa verið jafnframt skólaskip, eins og hæstv. forsrh. (J. M.) sagði.

Jeg get ekki verið samdóma þeim hv. þm., sem virðast hafa sjerstaka tilhneigingu til þess að álasa stjórninni fyrir aðgerðaleysi í þessu máli, enn sem komið er. Jeg sje ekki, að hæstv. stjórn hafi getað gert sjerstakar ráðstafanir til skipakaupa áður en þing kæmi saman, eins og ástæður voru fyrir hendi. Kolavandræði og mjög ilt að fá skip keypt eða leigð, og tíminn lítill til framkvæmda.

Jeg vil taka undir það með hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að það er sjerstök þörf á að vanda vel til undirbúnings þessa máls; sjerstaklega þarf að varast að kaupa skip eða hafast eitthvað það að, að það geti ekki fallið að lokum undir þá fullnaðarákvörðun, sem verður að gera um allar framkvæmdir og fyrirkomulag á strandgæslunni. Það þarf að gefa stjórninni fasta áætlun, sem síðan er hægt að fylgja fast eftir.

Jeg er einn af þeim þm., sem eru úr plássi, sem herjað er mjög af útlendum togurum og — þótt jeg vilji helst ekki fullyrða það — líklegast einnig innlendum. Á sumum stöðum við Ísafjarðardjúp, og þó sjerstaklega í Aðalvík, er árlega eyðilagt svo skiftir tugum þúsunda, vegna gæsluskorts. Án þess jeg ætli að gefa hv. sjávarútvegsnefnd nokkrar sjerstakar bendingar, þá vil jeg skjóta því til hennar, að enn sem komið er álít jeg heppilegra að hafa gæsluskipin fleiri og smærri. Að vísu þyrfti eitt stórt skip fyrir suðurströndinni, en fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi tel jeg hitt fyrirkomulagið (fleiri skip og smærri) vafalaust heppilegra. Annars hefi jeg góða trú á árangri af starfi sjávarútvegsnefndar, því í henni sitja kunnugir menn frá ýmsum þeim landshlutum, sem mikið þurfa á gæslu að halda. En jeg vil undirstrika það, að málið þarf góðan undirbúning. En ef hrapað yrði að málinu og það ekki nægilega undirbúið, þá mundum við, sem fulltrúar fyrir þau hjeruð, sem harðast verða úti, eiga erfitt uppdráttar hjá ýmsum þeim mönnum, sem hafa lítinn skilning á málinu, en eru því kröfuharðari og ósanngjarnari.

Jeg álít rjett að taka skip Vestmannaeyinga. Ekki vegna þess, að skipið sje vel fallið til strandgæslu, því svo mun ekki vera, og er vel hægt að fá hentugra skip fyrir minna verð. En jeg álít það rjett til að ljetta undir með Vestmannaeyingum, en það eiga þeir skilið fyrir að hafa lagt út í fyrirtækið, og byrðin hins vegar vel kleif fyrir ríkissjóð.

Jeg er sammála hv. þm. Barð. (H. K.) um það, að sem stendur er mjög óhægt um vik. Jeg álít því rjett að taka tilboði Dana um að auka strandgæsluna nú á þessu ári, en þó þannig, að landsstjórnin hafi sem mestan íhlutunarrjett um starfið. Ekki vegna þess, að jeg haldi, að gæslan yrði nægileg með því, því hún fæst aldrei með útlendum skipum, eins og jeg tók fram áður í ræðu minni. En að kaupa brúkað skip tel jeg mjög varhugavert. Ef því á að hrinda málinu fram, þá verður annaðhvort að byggja skip eða leigja. Bygging skips tekur minst tvö ár. En ef skip er tekið á leigu eða brúkað skip keypt, þá getur það orðið til þess að koma ringulreið á þá fullnaðaráætlun, sem þarf að gera. En slík aðferð er sama og að byggja vegarspotta hjer og þar, án nokkurs samhengis. Að lokum er vegurinn orðinn svo skrykkjóttur, að hann er verri en enginn.