10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í D-deild Alþingistíðinda. (3899)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki vera mjög langorður; tel það þó skylda kurteisi að svara þeim nokkru, er að mjer hafa sjerstaklega beinst.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) fór ekki alveg rjett með orð mín í ræðu sinni. Hann sagði, að jeg hefði haldið því fram, að ekkert gerði til, hvort strandvarnaskip væru hraðskreið eða ekki. Þetta hefi jeg aldrei sagt. Jeg benti aðeins á það, að ekki væri alt undir hraðanum komið, og að oft væri meira komið undir smið en verkfæri. Auðvitað kann jeg fyllilega að meta það, að skip sjeu hraðskreið, en þar með er bara ekki alt fengið.

Sami hv. þm. (J. Þ.) var mikið að tala um það, hve heppilegt það hefði verið af stjórninni, að hún gerði ekki samning um byggingu á skipi 1919. Jeg er þm. (J. Þ.) alveg sammála um það. En mjer finst það samt lýsa fulleindregnum vilja á því að verja stjórnina, að telja henni það til hróss, að hún hafi þó ekki valið alverstu leiðina af þeim þremur, er fyrir hendi voru. Því þrjár leiðir voru fyrir stjórnina, að kaupa, byggja eða leigja skip.

Hæstv. fjrh. (M. G.) þarf jeg varla að svara. Hann sagði satt um það, að ekkert stæði um það í þingtíðindunum, að stjórnin ætti að leigja skip Vestmannaeyinga, Þór. Jeg hefi aldrei sagt, að þetta stæði í þingtíðindunum, og jeg veit vel, að slíkt stendur þar hvergi. Því þótt jeg sje haldinn ófróður um landsmál, þá las jeg þó í þingtíðindunum allar umræður um þetta mál. Jeg benti aðeins á þetta, að gott hefði verið fyrir stjórnina að leigja „Þór“ og sýna með því þó örlítinn lit á því, að hún vildi framkvæma vilja þingsins 1919. En þetta hefir stjórnin ekki gert.

Jeg get ekki gengið inn á það hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að betra sje að fela túnvörslu öðrum en að framkvæma hana sjálfur.

Hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) var á þeirri skoðun, eins og sumir þm. aðrir, að þingsályktunartill. 1920 hafi dregið úr lögunum frá 1919. Mjer finst þetta vera vottur um undanhald, eins og menn þori nú illa að standa við einurð þingsins 1919. Jeg held fast við minn skilning á till., þann sem jeg hjelt fram í gær, að sú þingsályktun væri árjetting á vilja þingsins 1919, en drægi ekki úr honum á nokkurn hátt. Og skal jeg rökstyðja það.

Þinginu 1920 þótti stjórnin lítið hafa aðhafst í strandgæslumálinu. Því samþykti það þingsályktunartill. þess efnis, að strandvarnirnar skuli auknar. En till. tekur ekki fram, hvernig varnirnar skuli aukna, af þeirri einföldu ástæðu, að þingið næsta á undan hafði tekið það fram, og það hefir ekki talið þörf á að stagla þessu inn í stjórnina, eins og barnakennari, sem verður að margtyggja það sama í skólabörnin.

Mjer finst, að þetta hljóti að vera hverjum manni ljóst. Og þó ekki yrðu miklar umræður um þingsályktunartill. 1920, þá sannar það engan veginn, að áhuginn hafi verið lítill fyrir málinu og skoðanir skiftar, heldur þvert á móti. Því það er alkunna, að miklar umræður stafa ekki af eindrægni um málefnið, heldur af sundurþykkju og skiftum vilja. Hefir þetta og greinilega sýnt sig hjer á þinginu nú. Þau frv., er flestir eða allir hafa verið sammála um, hafa gengið í gegnum deildina umræðulítið eða umræðulaust. En þar sem fylgi hefir verið skift um eitthvert frv., þar hafa og umræður orðið langar.

Þá kem jeg að ræðu hæstv. forsrh. (J. M.). Hann mintist á, að mörgu hefði verið blandað hjer inn í umræðurnar, sem ekki kæmi málinu við. Vítti hann slíkt, og það rjettilega. En því undarlegar kom mjer það fyrir, er hann tók sjálfur að blanda inn í strandvarnarmálin dómum um gáfnafar mitt og þekkingu. Jeg hjelt, satt að segja, að slíkir dómar kæmu ekki strandgæslumálinu við, og því væri hæstv. forsrh. (J. M.) hjer að gera sjálfan sig sekan í því, sem hann vítti svo mjög hjá öðrum.

Annars þakka jeg honum fyrir þá föðurlegu umhyggju, sem hann virtist bera fyrir mjer. Væri æskilegt, að hans nyti lengi við hjer í þinginu til þess að fræða fávísa þm. En þó verð jeg að segja það, að í þessari kenslustund lærði jeg fremur lítið. Getur verið, að það hafi stafað af því, að þetta var fyrsta kenslustundin.

Jeg vissi það ofurvel, að þegar byrjað var á samningunum við Dani, þá þótti Íslendingum rjettast að hafa ekki samninginn allan í einu lagi, heldur væri sjerstakt skjal, þar sem því væri lýst yfir, að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki, en því næst væri gerður samningur um ýms mál, er sameiginleg yrðu fyrst um sinn í meðferðinni, þó að hitt yrði nú að samkomulagi.

Hafi jeg notað orðið „heimild“, –jeg man það ekki fyrir víst, — þá hefir það verið til þess, að jeg gæti gert mig betur skiljanlegan, en slíkt stafaði alls ekki af fáfræði frá minni hlið. Bæði í 8. og 10. gr. sambandslaganna er og svipað orðalag því, sem jeg notaði. Þar er sagt, að Íslendingar geti tekið málin, þegar þeir vilji. Jeg býst því við, að enginn lái mjer, þótt jeg hafi hjer lagt meiri áherslu á að gera mig skiljanlegan heldur en hitt, að hengja mig í ákveðið orðalag, og hart, að hæstv. stjórn skuli nú bjóða hártoganir á einstökum orðum í ræðum manna, í stað þess að standa skil á því, sem Alþingi hafði heimtað að hún framkvæmdi.

Um það, hvað sjálfstæðismenn gerðu á þingi 1909, þá kemur mjer það ekkert við. Jeg mun þá hafa verið unglingur norður í landi.

Jeg hefi aldrei talað um, að það væri þjóðarósómi, að Danir hefðu hjer á hendi strandgæslu. En hitt kalla jeg ósóma, þó að jeg viðhefði ekki svo óþinglegt orð í ræðu minni um daginn, að stjórnin skyldi ekki hafa farið eftir vilja þings og þjóðar í strandgæslumálinu.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að jeg gæti verið ánægður með skýrslu sína um þetta mál. Það er nú svo. En jeg tel ekki mest undir því komið, hvað stjórnin hefir sagt í málinu, heldur hinu, hvað hún hefir gert til þess að framkvæma vilja þingsins.

Þá get jeg ekki verið hæstv. forsrh. (J. M.) sammála um það, að það hefði verið ófært og óverjandi að byrja strandgæsluna með „Þór“. Jeg hefi áður bent á það, að heppilegasta aðferðin til að verja landhelgina væri sú, að varðskipið væri á sveimi, þannig, að togararnir sæju það stöðugt og þyrðu því ekki að koma í landhelgina. Og til þesskonar varna þarf ekki hraðskreitt skip. Hitt get jeg gengið inn á, að gott væri að hafa líka hraðskreitt skip, er færi vítt um þau svæði, er ekki væru skip á til varna að staðaldri.

Að lokum var svo hæstv. forsrh. (J. M.) að tala um það, að nef þm. hefðu verið límd saman nú upp á síðkastið. Jeg veit auðvitað ekki, hvar nef hv. þingmanna hafa verið, en mjer þykir rjett að geta þess, að mitt nef hefir alls ekki verið í þeirri nefjakássu.

Yfirleitt benti ræða hæstv. forsrh. (J. M.) í þá átt að reyna að leggja sem allra minst inn í þær skyldur, sem þingið hefir lagt stjórninni á herðar. Þetta sannfærir mig enn betur en áður um það, hve óheppilegt og háskalegt það er að fela þeim að fara með þau mál, er varða heill þjóðarinnar, sem sjálfir hafa ekki áhuga á þeim. Svo eru lög, sem hafa tog. Og víst er það, að sú stjórn, sem sjálf hefði haft áhuga á því, að Íslendingar kæmu góðu lagi á landhelgisvarnirnar, og viljað vel gera, hún hefði getað fengið alt annað og miklu meira út úr lögunum frá 1919 og þingsályktunartill. 1920.