10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í D-deild Alþingistíðinda. (3900)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Forsætisráðherra (J. M.):

Hv. frsm. (P. O.) sagði, að hann áliti, að stjórnin gæti nú lofað að kaupa skip. En jeg sagði, að stjórnin gæti ekki skilyrðislaust lofað að kaupa skip. Enn fremur sagði jeg, að ef þingið endilega vildi kaupa skip, þá gæti hún leitað upplýsinga um, hvað það mundi kosta.

Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að jeg hefði sagt, að jeg vildi ekki fara að neins manns ráðum. En jeg sagði, að jeg færi ekki að hans ráðum, nema þau fjellu saman við mína skoðun.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) þarf jeg alls ekki að svara. Það var ekki nokkur skapaður hlutur í þessari löngu ræðu hans svaravert, og hún var yfir höfuð ógnar tilkomulítil. Mjer þótti leitt, að hann skyldi ekki hafa haft neitt gott af því, sem jeg sagði um sambandslögin. En það verður að heimta það af hverjum þingmanni, að hann þekki sambandslögin út í æsar. Það er ekki sama, hvaða orð eru brúkuð í þessu sambandi, og það er vorkunnarlaust, jafngreindum manni, að greina hjer rjett frá.

Hv. þm. (M. J.) sagðist ekki hafa viðhaft orðið „þjóðarsmán“, en hann mintist eitthvað á spegilmynd sjálfstæðisins og fleira í sömu átt. En það mun hafa verið hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), sem mintist á þjóðarsómann.

Þar sem hann segir, að hann hafi ekki tekið þátt í ráðagerðum um að steypa stjórninni, þá var ekki hægt að hugsa annað, því að mjer vitanlega hefir ekki heyrst, að hann hafi haft annað til brunns að bera, eða haft aðra verðleika til þingmensku, en það eitt, að lofa því að vera á móti núverandi stjórn.