18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (3906)

108. mál, símagerð og póstgöngur í Dalasýslu og Barðastrandarsýslu

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg ætla að byrja á endanum hjá hv. flm. (H. K.) og geta þess, að jeg hefi ekki minst á þetta mál, um póstferðirnar, við neina aðra en hv. þm. Dala. (B. J.) og aðalpóstmeistara. Það kann nú að vera, að jeg hafi hreyft einhverjum mótmælum við hv. þm. Dala. (B. J.), en alls ekki við póstmeistara. Annars vil jeg biðja hv. þm. Barð. (H. K.) að misvirða það ekki við mig, þótt jeg svari honum mjög stutt. Það má nefnilega alls ekki leggja það út á þann veg, að jeg vilji taka illa í mál hans, enda var ræða hans svo hógvær og þingleg, að til þess væri síst ástæða. En mjer virðist þetta mál svo þaulrætt, bæði á fyrri þingum og nú á þessu, að ekki ætti að þurfa að fjölyrða svo mjög um það nú.

það er þá fyrri spurningin: Hvers vegna er ekki hafinn undirbúningur undir lagning marglofaðs síma frá Búðardal til Króksfjarðaraess? Það er búið að tala nokkuð um þetta atriði í sambandi við fjárlögin og fjáraukalögin, og er þar því til að svara, að það var fyrirsjáanleg tekjuþurð, sem gerði að verkum, að stjórnin varð að taka rif í seglin með útgjöldin. Og í fyrra haust var ómögulegt að fá yfirfærða peninga til efniskaupa handa símanum, eins og sjest á því, að stjórnin gat ekki staðið í skilum með póstávísanafjeð til útlanda, sem átti að greiða. Nú er svo, að í fjárlögunum er gert ráð fyrir, að þessari framkvæmd verði frestað, ef annað, sem á undan verður að ganga, er ekki komið í verk. Athugasemd sú er á þessa leið:

„Símalínurnar undir staflið c.–e. verða því aðeins lagðar, að trygging sje fyrir því, að lína, lögð fyrir lánsfje, komi jafnframt frá Reykjavík til Borðeyrar“.

Nú var hvorttveggja í haust sem leið: fjárþurð til yfirfærslu, eins og áður er sagt, og efni alt í hæsta lagi, svo að línan til Borðeyrar gat ekki komist á, og kemst ekki fyr en næsta sumar. Ársdráttur á þessari framkvæmd var því óhjákvæmilegur.

Út af því, sem hv. þm. (H. K.) sagði um þörfina á þessari símalínu, þá var stjórninni og hefir víst að undanförnu verið fullljóst um hana. Það er alls ekki vegna áhugaleysis stjórnarinnar, að þetta verk er ekki gert, heldur liggja til þess ýmsar óviðráðanlegar ástæður; flutningar til landsins, og þar með einnig ýmsar framkvæmdir, stöðvuðust vegna ófriðarins, og síðan bættist dýrtíðin og fjárkreppan ofan á alt annað. Þarna liggja orsakimar til þess, að ótalmargt, þetta og annað, hefir dregist úr hömlu.

Umsögn símastjóra, sem hv. flm. (H. K.) skírskotaði til, hefir í raun og veru ekki mikið að segja. Það hefir síst staðið á honum. Hann hefir lagt mikla áherslu bæði á þessa símalínu og aðrar, t. d. símalínu sunnanlands, austur frá Vík í Mýrdal til Hornafjarðar, þannig, að tvöfalt símasamband geti náðst milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar. En úr því hefir ekki getað orðið, og það á vafalaust langt í land, vegna þeirra erfiðleika allra, sem jeg áðan nefndi.

Ástæðan til þess, að stjórnin tók þetta ekki upp í fjárlögin í vetur, var eingöngu peningavandræðin. Úr því hefir nú þingið bætt, og er kostnaðaráætlunin nú miklu lægri en áður, vegna verðfalls á efni og vinnu. Það hefir því að minsta kosti ekki orðið að baga fyrir landið, að efnið var ekki keypt í fyrra.

Hvort þetta kemst í framkvæmd 1922 er algerlega komið undir peningamálunum. Og enn þá er ekki sjeð, hvernig úr þeim rætist, nje heldur að hve miklu haldi þær ráðstafanir muni koma, sem þingið nú kann að gera.

Jeg býst við því, að þessar símalagningar muni standa jafnfætis öðrum framkvæmdum á fjárlögunum, eða jafnvel framar sumum, sem síðar eru til komnar.

Þá sný jeg mjer að síðari lið fyrirspurnarinnar: Hvers vegna hefir aðalpóstleiðin um Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu verið lögð niður?

Hv. þm. (H. K.) gat þess, að þessu máli hefði verið vikið til stjórnarinnar á þingi 1919. Þingið vildi þá ekki blanda sjer í málið, en vísaði því til stjórnarinnar. Þetta er heldur ekkert stórmál, og best, að hjeraðsbúar eigi um það við póstmeistara.

Jeg játa það, að mig skortir kunnugleika til þess að tala um þetta mál af eigin sannfæringu. En hv. þm. Str. (M. P.) talaði í þessu máli á þinginu 1919. Er hann kunnugur staðháttum þar, og get jeg skírskotað til ræðu hans þá.

Þá er það ekki rjett, sem hv. frsm. (H. K.) gat til, að stjórnin hafi ekkert skift sjer af þessu máli. Þegar póstmeistari kom með póstáætlanirnar til þess að bera þær undir stjórnina, þá átti jeg við hann tal um þetta, og sannfærði hann mig um, að hjer væri um að ræða svo mikinn sparnað í aðra hönd, að önnur ráð yrði að finna til þess að kippa póstferðum í lag á þessu svæði en að færa þær í samt lag og áður. Taldi jeg engan færari um þetta að dæma en póstmeistara sjálfan. Varð jeg þess fullviss, að fyrir heildina er að þessari tilhögun ferðanna talsverður hagur, tiltölulega lítill bagi fyrir einstök bygðarlög, en álíka hagur fyrir Strandamenn. (B. J.: Rjettlætið er þá í því fólgið að hengja bakara fyrir smið). Jeg hugsa hjer um hag heildarinnar. Hrepparnir hafa ávalt sína málsvara. En heildin hefir aðeins að forsvarsmanni veika stjórn, sem allir gera sjer að skyldu að hnýta í. — Jeg átti um leið tal við póstmeistara um, hvort ekki mætti bæta póstsambandið milli Búðardals og Borgarness, og varð að samkomulagi að gera það eins og kunnugt er, að nú fer póstur eins og áður á milli Borgarness og Búðardals í hverri ferð. í Dalasýslu er baginn aðeins fyrir nokkra bæi norðan Búðardals, meðfram póstleið, og sá baginn, að þeir hafa ekki beint póstsamband við Ísafjörð. það er því alls ekki rjett hjá hv. frsm. (H. K.), að stjórnin hafi ekkert látið til sín taka í þessu máli. Í Barðastrandarsýslu mun það vera svipað um fáeina bæi.

Mjer skildist á ræðu hv. frsm. (H. K.), að hann legði ekki síður áherslu á, að þetta yrði tap fyrir gömlu aðalpóstleiðina vegna veganna, heldur en vegna póstsins sjálfs. Sagði hann, að betur væri sjeð um póstvegi en aðra vegi. Jeg held, að þetta hafi lítið til síns máls, og að lítill arður sje að því fyrir vegi landsins að heita póstleiðir. Jeg held, að ekki hafi um aðra vegi verið ver sjeð en t. d. á póstleiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Og svipuð dæmi mætti nefna úr öðrum hjeruðum, og þá ekki síst úr mínu eigin kjördæmi. Jeg fæ því ekki sjeð, að þetta sje bagi fyrir vegina vestur þar.

Hv. frsm. (H. K.) sagði, að beina póstsambandið hefði verið slitið sundur með þessari ráðstöfun. Jeg er þessu að vísu ekki vel kunnugur, en eftir því, sem jeg hefi komist næst, þá munar þetta tveimur bæjarleiðum, og getur þá naumast kallast sambandið mikið slitið, enda ætti og að vera hægt að bæta úr því með fremur ljettu móti.

Mjer hefir nú heyrst á hv. frsm. (H. K.), að hann væri vonbetri eftir að hafa átt tal við póstmeistara um þetta mál, og sjer hann þá líklega einhver ráð til umbóta. Mun jeg og verða hlyntur þeim umbótum, sem hann leggur til, og ekki spilla þar neinu um.

En jeg býst ekki við, að til mála geti komið að færa póstgöngurnar alveg í sama horfið, enda telur póstmeistari það svo verulegan skaða. Sem sagt, jeg mun verða hlyntur umbótum eftir till. póstmeistara, enda hefi jeg aldrei mælt á móti þessu máli, nema í prívatsamtali við hv. þm. Dala. (B. J.).