18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í D-deild Alþingistíðinda. (3907)

108. mál, símagerð og póstgöngur í Dalasýslu og Barðastrandarsýslu

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vildi aðeins undirstrika það, sem hv. fyrirspyrjandi (B. J.) hefir tekið fram, og álít það óverjandi, að Barðastrandarsýsla og Dalasýsla skuli vera símasambandslausar, og að póstgöngunum skuli vera hagað eins og nú er. Það verður ekki viðunandi símasamband við Vestfirði fyr en lögð verður símalína um Dalasýslu og suðurleiðina um Barðastrandarsýslu. Jeg vil taka það fram, að þótt eitthvað megi spara með þessu fyrirkomulagi, sem nú er, þá er sá hagnaður vafasamur. Það er ekki einasta, að hjeruð þessi hafa ófullnægjandi samband við Ísafjörð, sem þau hafa mikil viðskifti við og þurfa að hafa, heldur þarf einnig að athuga það, að fyr eða síðar þarf að leggja veginn um suðurleiðina. En að fara að leggja fje til vegar á nýrri póstleið yfir Steingrímsfjarðarheiði að nauðsynjalitlu, álít jeg ekki rjett. En eins og nú er komið ferðum, þá held jeg því fram, að það sje bráðnauðsynlegt, að veginum um Þorskafjarðarheiði sje haldið vel við. Það er eina samgönguleiðin, er Barðstrendingar og Dalamenn hafa við Vestfirði, því að varla er að tala um samgöngur á sjó. Mjer er sjerstaklega kunnugt um þörfina á þessu vegna bankaviðskifta, sem þessi hjeruð hafa við Ísafjörð. En síðan breytingin komst á er mönnum nærri ómögulegt að hafa peningaviðskifti við Ísafjörð. Jeg skal að vísu játa það, að það mun nokkuð stafa af því, að póstferðirnar eru ekki eins vel ræktar og skyldi, og þá helst póstferðirnar frá Hólmavík að Króksfjarðarnesi. En það verður aldrei eins gott samband með þessum nýju, og ekki fyr en sú gamla verður tekin upp.

Jeg vil undirstrika það, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að það sje nauðsynlegt öllum íbúum í þessum hjeruðum, að póstleiðin liggi um Þorskafjarðarheiði.