18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í D-deild Alþingistíðinda. (3914)

108. mál, símagerð og póstgöngur í Dalasýslu og Barðastrandarsýslu

Fyrirspyrjandi (Bjarni Jónsson):

Jeg hafði búist við því, að jeg þyrfti ekki að standa upp í þessu máli, þar sem jafnskörulegur maður og hv. þm. Barð. (H. K.) hafði framsögu. En sú framsaga lenti í tómum gullhömrum til hæstv. atvrh. (P. J.), en mjer virðist sem þetta mál þurfi að kaldhamra dálítið, og því stend jeg upp.

Hæstv. atvrh. (P. J.) gerði grein fyrir því, hvers vegna símalagningunni hefði verið frestað, og taldi fram heimildir til þess. En því er lagningunni frestað svona lengi? Því eru ekki þegar keyptir staurar, sem fluttir verði til landsins í haust og síðan dregnir á ísum á vettvang á næsta vetri? Þetta er krafa mín, og þetta er krafa allra Dalamanna og Barðstrendinga.

Nú er þessi sími kominn í fjárlögin, og er því engin sanngirni í að draga framkvæmdir lengur. Því þessum síma er búið að lofa Dalamönnum þing eftir þing síðan fyrir ófriðinn.

Hæstv. atvrh. (P. J.) ber fyrir fjárskort, en hann á ekki að hamla þessum framkvæmdum. Þegar þingið skilst, þá verður fyrir hendi heimild til lántöku fyrir stjórnina. Hún getur því strax látið kaupa staurana, enda hafa þeir nú fallið í verði um einn þriðja, og veit enginn, hvort betra verður að bíða með kaup. En hitt vita allir, að nauðsyn er á skjótum framkvæmdum í málinu, ekki í orðum, heldur í verki.

Þó að landssímastjóri hafi minst á það, að nauðsyn bæri til að leggja síma einhvern tíma frá Vík í Mýrdal til Hornafjarðar, þá sýnist mjer það ekki koma mikið þessu máli við. Það verður ekki vefengt, að hyggilegra er að leggja síma þar vestra um bygðir, og öllu nauðsynlegra en ausa stórfje í síma á eyðisöndum, til þess að láta Skeiðará sópa því í sjó fram. Hefði þinginu verið nær að fallast á þær till., sem við hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) bárum fram á árunum, um að koma upp loftskeytastöð í Vestmannaeyjum og á suðurströnd landsins. Þingið vildi ekki líta við því þá, en er nú búið að bisa við að koma upp loftskeytastöðvum, þegar alt til þeirra er orðið margfalt dýrara. Hefir sú óráðþægni kostað landið að minsta kosti hálfa miljón kr.

Það fer svo, þegar rifjuð er upp saga síðari ára, að þá kemur það í ljós, hverjir hafi í raun rjettri verið eyðslusamastir á landsfjeð.

Hæstv. atvrh. (P. J.) segir, að ekkert vanti annað til þessara framkvæmda en peninga. En jeg segi, að það vanti enga peninga. (Atvrh. P. J.: Það er áþreifanlegt og verður ekki neitað). Og þó neita jeg því. Og jeg neita því vegna þess, að það er nógur afgangur af símatekjunum til þess að leggja fyrir þennan síma. Þann afgang á að nota til símalagninga, en stjórnin hefir notað hann ólöglega til annars og eytt honum. Þetta er satt, og því verður ekki neitað.

Jeg enda svo mál mitt um þennan lið með því að endurtaka rjettmæta kröfu Dalamanna um, að ráðstafanir verði gerðar strax til þess, að síminn geti orðið fullger á næsta sumri. Og mun það í einhverju sjást, ef stjórnin skorast undan þessu.

Það er hægra að halla rjetti einstaks manns, eins og t. d. stöðvarstjórans í Vestmannaeyjum, heldur en að ganga á rjett tveggja fjölmennra hjeraða. Því þó að menn virði rjettinn og rjettlætið að vettugi, þá virða menn þó altaf máttinn og skelfast hann, og hann er meiri hjá tveimur hjeruðum en einum manni.

Þá kem jeg að póstgöngunum. Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að það þyrfti þekkingu til þess að skera úr um það, hvort hagur eða bagi væri að breytingunni fyrir sýslurnar. Þetta er rjett. En jeg hygg, að kjósendurnir sjálfir í þessum hjeruðum þekki þetta best, og betur miklu en bæði póstmeistari og hæstv. atvrh. (P. J.).

Eins og spurningin um ræðir, þá er hjer átt við póstleiðina, sem nú liggur um Steingrímsfjarðarheiði, en áður lá frá Króksfjarðarnesi um þorskafjarðarheiði að Ísafjarðardjúpi. Jeg þekki vel þennan fjallveg, og sömuleiðis þekki jeg vel allar leiðir í Dalasýslu, því jeg var uppalinn þar frá því jeg var 10 ára. — Eftir mínum kunnugleik get jeg ekki sjeð, að nein ástæða hafi verið til að breyta póstleiðinni, en hinu er jeg fylgjandi, að bæta póstgöngur í Strandasýslu, en án þess að taka nokkuð af öðrum. (Atvrh. P. J.: Þetta er rjett þá). Það er ekki rjett, því að póstleiðir eru ekki til að spara, heldur til að bæta samgöngur, sem menn eiga sjálfsagða heimtingu á. Hæstv. ráðherra (P. J.) mun sannfæra sig um það, að hjer er ekki um sparnað að ræða, og er því sjálfsagt að breyta þessari leið eins og hún var áður. Póstmeistari hefir gefið það upp, að það kostaði 2000 kr. á ári. (M. P.: 4000; það er prentvilla í reikningnum). Nei, 2000; það er þá prentvilla í hans eigin munni. Hann sagði sjálfur, að það hefðu sparast 2000 kr. við það, að það var lögð niður póstleiðin, sem verið hefir frá upphafi, og tel jeg það illa farið.

það líkist illa þeim mönnum, sem vilja veita 200 til 300 þús. kr. fyrir eitt skip, til að skrölta í óþarfaferðir hafna í milli, að leggja niður þær ferðir, þar sem lífi manna er hætta búin, ef þeir hafa ekki samfylgd. Þetta er tvent ólíkt, og ætti ekki að vera sama stjórnin, sem gerði þetta. Fyrir landið í heild hefir það ekki stóra þýðingu, hvort póstleiðin liggur yfir Steingrímsfjarðarheiði eða Þorskafjarðarheiði. En þeir, sem þekkja Þorskafjarðarheiði, vita, að það er ekki hættulaust að fara samfylgdarlaust yfir hana að vetrarlagi, ekki síst fyrir kvenfólk og unglinga. Og því reyna menn að hafa samfylgd póstsins, og hefir það bjargað lífi margra manna að geta notið þessarar samfylgdar, og væri ekki of mikið, þó að landið styddi það með því að láta vera að spara þessar 2000 kr.

Því var haldið rjettilega fram á þinginu 1919, að Dalamenn mundu ekki vinna neitt við breytinguna, því að þeir hafa mikils mist. En jeg verð að segja það, að mjer finst það undarlegt af hæstv. atvrh. (P. J.), þar sem hann hefir ekki sýnt Dalasýslu neinn illvilja, en heldur hitt, að hann skyldi beygja sig undir póstmeistara, í stað þess að beygja hann undir sig. Sú bót hefir líka orðið á, að póstur gengur nú frá Dalsmynni til Búðardals, og hefir það bætt mikið fyrir Dalamönnum ferðir á vetrum, því það var ilt að þurfa að fara Brekkuna að vetrarlagi, án póstfylgdar. En jeg held, að póstmeistari hafi viljað fallast á, að póstur gangi frá Búðardal að Staðarfelli, og annar frá Hnúki að Stórholti eða Ólafsdal, og er þá ein bæjarleið inn að Kleifum, og þá þar af leiðandi betra samband vestur á bóginn.

Það kann að vera, að vegunum verði haldið eins vel við þó að póstleiðin liggi ekki um þá, en jeg er þó hræddur um, að minni rækt verði lögð við þá.

Hvað póstmeistari hefir sagt, og hæstv. atvrh. (P. J.) síðan gengið inn á, getur engin áhrif haft á þá, sem hafa samúð með þessari sýslu. En jeg vil heldur bæta samgöngumar, þó að kosta þurfi til þess 2000 kr., heldur en spara það með því að gera þær verri en þær hafa verið um langan tíma áður. Það er sjálfsagt, að vegur liggi yfir í Hrútafjörð og póstleið inn með Hrútafirði, en þess vegna þurfti ekki að spara þessa leið, og vildi jeg því spyrja hæstv. atvrh. (P. J.), hvort hann vildi ekki ganga inn á að laga þetta aftur, en leggja þó ekki hinar nýju niður. Það er mikil framför að því, þar sem menn að norðan og norðvestan af landinu ferðast mikið út yfir til Vestfjarðanna; t. d. hafa margir útróðrarmenn sótt til Bolungavíkur og í ýms önnur ver. Hitt efast jeg ekki um, að þótt þetta fyrirkomulag sje búið að standa í 2–3 ár, þá sje hægt að breyta því, úr því farið var að breyta hinu, sem búið var að standa í 60–70 ár. Það er hart til þess að vita, að heil hjeruð skuli vera svift þeim samgöngum, er þau hafa búið við svo lengi, að þeim öllum forspurðum.