09.03.1921
Neðri deild: 18. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í D-deild Alþingistíðinda. (3916)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Gunnar Sigurðsson:

Jeg býst við, að þingmenn hafi tekið eftir, að hæstv. fjrh. (M. G.) getur ekki tekið svo til máls, að hann ekki rangfæri orð þingmanna. Það ber nauðsyn til að ráða bót á þessu, en hvaða ráð til þess eru er ekki gott að segja, nema ef það væri nægilegt að hafa æfðan hraðritara til að taka upp hvert orð, er hann talar.

Ef þetta er af vitsmunaskorti eða minnisleysi, þá er það fyrirgefanlegt, en ef það er vísvitandi, þá er það vítavert. Nema ef það skyldi vera skýringin, að hann hafi svo slæma samvisku, að hann geti ekki þess vegna endurtekið rjett hjer í deildinni þau orð, er þm. tala.

Vilji þingsins 1919, sem þingið 1920 endurtók ótvírætt, var að útvega skip, og því samþykt heimild fyrir stjórnina að kaupa eða leigja skip. Þetta er svo ljóst, að um það þýðir ekki að deila. Hæstv. fjrh. (M. G.) segir, að stjórnin hafi farið eftir vilja þingsins. Þetta er fjarstæða, því að þótt hæstv. fjrh. (M. G.) haldi, að hann hafi rjett fyrir sjer, þá er ekki að vita, nema þjóðin sje á annari skoðun.

Það hefir víst engu fyrirtæki verið tekið með jafnmiklum fögnuði um alt land og því, er Vestmannaeyingar höfðu keypt skip, sem átti að verða björgunarskip og jafnframt varðskip.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að jeg hefði sagt, að ekki dygði að horfa í peningana. Þetta er ekki rjett hermt. Jeg sagði, að svo framarlega sem hægt hefði verið að afla fjár til þess, þá hefði átt að gera það. Það er líka sannanlegt, að það var hægt. Má þar benda á það undarlega fyrirbrigði hjá stjórninni í sumar, þegar allir voru sammála um að taka dollaralán í Ameríku, meðan gengið stóð sem hæst, að hæstv. fjrh.

(M. G.) skyldi ekki gera það. Það var vítavert.

Jeg var ekki kröfuharðari en það, að heimta, að stjórnin hefði gert eitthvað í þessu máli. Hún hefði að minsta kosti getað tekið Vestmannaeyjaskipið á leigu um síldveiðitímann og aukið þannig strandvarnirnar, auk þess sem það hefði orðið mikil hjálp fyrir skipið. Jeg vissi líka til, að stjórnin stóð í samningum um það, og eftir því, sem skilorður maður sagði mjer, þá mátti telja þetta mál mjög nærri því að vera afgert. Ástæðan fyrir því, að stjórnin lagði mál þetta á hilluna, mun vera sú sparnaðarnáttúra, eða rjettara sagt ónáttúra, að spara eyrinn, en kasta krónunni.

Mjer er kunnugt um það, af þessari fáu mánaða reynslu, að ekki hefir annað varðskip reynst betur en þetta skip, að minsta kosti að því er suðurströndina snertir. (Fjrh. M. G.: Þingmaðurinn veit ekkert um það). Jeg veit vel um það. Það var almæli, að í fyrra fór að fiskast fyrir sunnan land, þar sem um langan aldur hefir ekki orðið vart fiskjar, eins og undan Rangár- og Landeyjasandi, af því að þá voru engin botnvörpuskip þar að sópa fiskinum burtu. Það dugir því ekki fyrir hæstv. fjrh. (M. G.) að segja, að jeg viti þetta ekki; það er staðreynd.

Hæstv. fjrh. (M. G.) taldi það fjarstæðu að leigja skipið, vegna þess, að því fylgdi mikill kostnaður, en enginn gróði. En þótt ekki hefði orðið beinn gróði að því, þá er vert að athuga, hvort það gæti ekki orðið óbeinn hagnaður að hafa sjerstakt varðskip við Vestmannaeyjar og fyrir suðurströndinni.

Eins og kunnugt er, þá er þetta helsta hrygningarsvæðið fyrir sunnan land, og allir sjá, að það ekki hægt að meta það til peninga, að fiskurinn fái að vera sæmilega í friði um hrygningartímann, en sje ekki stygður burtu af svæðinu eða klakið eyðilagt.

Hæstv. fjrh. (M. G.) fann mjer það til saka, að jeg hefði farið geyst og rasandi í gær. En er það ekki eðlilegt, að mönnum renni til rifja aðgerðaleysi stjórnarinnar í þessu áhugamáli þjóðarinnar?

Þetta aðgerðaleysi verður raunar skiljanlegt, þegar það er borið saman við framkvæmdaleysi hæstv. fjrh. (M. G.) í fjármálastjórninni yfirleitt, síðan hann tók við í fyrra vetur.

Vil jeg þá minnast dálítið á síðustu utanför hæstv. fjrh. (M. G.). Það bjuggust allir við, að hann færi til að afla landinu lántöku til bjargráða. En hvað gerir hann svo? Hann byrjar á því að lýsa hátíðlega yfir því við stórblöð í Danmörku, að landið þyrfti ekki að fá lán, og síst af öllu kæmi til mála að leita neinna fjársambanda annarsstaðar en í Danmörku. Svo þegar heim kemur aftur, slyppur og snauður, lýsir hann yfir því, að ástandið sje að batna, og eftir hans áætlun mundi verða um 25 miljóna tekjuafgangur hjá landinu um áramót.

Mjer finst enginn þurfa að taka það illa upp, þótt ekki sje farið vægum orðum um slíka fjármálastjórn.

Til þess að komast út úr ógöngunum er sparnaður ekki einhlítur; það hlýtur hæstv. fjrh. (M. G.) að vera mjer sammála um.

Jeg skal benda á, í sambandi við strandvarnarmálið, að jafneindreginn sparsemdarmaður og hv. þm. Borgf. (P. O.) telur ekki vera hægt að meta strandvarnirnar til peninga, að því er snertir hinn óbeina hagnað af þeim, auk þess sem hjer er um okkar þjóðarsóma og þjóðarmetnað að ræða. En hæstv. fjrh. (M. G.) mun ekki geta skilið slík verðmæti.