09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

35. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Þorsteinn M. Jónsson:

Jeg þarf eiginlega ekki að svara hæstv. fjrh. (M. G.) neinu. Það var að eins eitt atriði, sem jeg vildi minnast á. Hann taldi það ástæðu fyrir því, að stjórnin hefði ekki farið lengra, að kennarar fengju 1/2 eða 1/3 af föstum launum sínum úr ríkissjóði, hitt fengju þeir úr öðrum sjóðum. En þeir fá þó meira úr ríkissjóði, því að úr honum fá þeir greidda alla aldursuppbót og dýrtíðaruppbót. Hvað því viðvíkur, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að ríkissjóður gæti ekki borgað, þá má það vel vera, en það verður þá að skera víðar niður en þar, sem barnakennarar eiga hlut að máli.