11.04.1921
Neðri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

4. mál, lestagjald af skipum

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Jeg hefi ekki mikið um þetta mál að segja, umfram það, sem fram er tekið í nál. í nál. átti að vera brtt., en hún fjell niður, og kemur hjer fram á þskj. 285.

Eins og sjá má af nál., þá leggur nefndin það einhuga til, að frv. nái fram að ganga, þó með þeim breytingum, að skattskyldan verði færð úr 12 tonnum niður í 5 tonn, en að jafnframt færist skattgjaldið niður úr 2 kr. í kr. 1,50. Leit nefndin svo á, að þetta væri í samræmi við þær breytingar, sem hún hafði áður gert á frv. til laga um fasteignaskatt.

Niðurfærslan á lestagjaldinu nemur auðvitað mestu af stóru skipunum, og gengur nefndin þess ekki dulin, að sú breyting hennar muni rýra tekjur ríkissjóðs dálítið. En með því að færa skattskyldumarkið úr 12 tonnum niður í 5, hefir nefndin viljað draga úr þessari rýrnun. En skýrslur þær, sem nefndin hefir haft í höndum, eru ekki svo ábyggilegar, að af þeim sje hægt að segja fyrir víst, hvað tekjuaukningin verði mikil af þessari niðurfærslu. En nefndin sá sjer ekki fært að fara lengra en niður í 5 tonn.

Fyrir hönd nefndarinnar, finn jeg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv., eða brtt. nefndarinnar.