27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

4. mál, lestagjald af skipum

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Nefndin leggur til, að frv. þetta verði samþ. eins og það kom frá Nd., þó með þeirri breytingu, að fella burtu 5. gr., en þar er ákvæði um, að skattinn megi hækka og lækka í fjárlögum. Með þessu ákvæði virðist nefndinni, sem of mikið los mundi koma á skattalöggjöfina, og trygging borgaranna fyrir því, að sköttum yrði ekki hlaðið á þá, að lítt yfirveguðu máli, væri þá mjög rýrð. Sannleikurinn er, að ef þetta ákvæði stæði yfirleitt í skattalöggjöfinni, þá mætti við seinustu umræðu fjárlaganna í Ed. koma inn stórvægilegum breytingum á skattalöggjöfinni með einni breytingartillögu, og ef svo háttv. Nd. samþykti fjárlögin í lokaflaustrinu, sem vant er að vera hjer á þinginu, þá mætti koma stórverulegum skattabreytingum í kring á tveim sólarhringum, ef alt gengi með fjörugum afbrigðum, eins og oft vill verða.

Jeg skal taka það fram, að þær breytingar, sem gerðar hafa verið á stjórnarfrv. í Nd., eru, að skatturinn er færður niður í kr. 1,50, úr 2 kr., en hins vegar tekin undir skattinn skip, sem eru ekki undir 5 smálestum. Að því leyti nær skatturinn til fleiri skipa. Jeg leyfi mjer svo að mæla með því, að frv. nái fram að ganga, með þeirri breytingu, sem nefndin leggur til, að gerð sje á því. Jeg skal taka það fram, að það var af vangá, að háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) skrifaði undir með fyrirvara.