27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

4. mál, lestagjald af skipum

Guðmundur Ólafsson:

Það ber mjög lítið á milli mín og háttv. nefndar, eða öllu heldur það eitt, að jeg vil að frumvarpið sje samþykt óbreytt, en hún leggur til að 5. gr. þess falli burtu. Að því er snertir 5. gr. frv., þá skal jeg geta þess, að jeg hallast að skoðun hæstv. fjrh. (M. G.) í því efni. Jeg tel það óþarfa vafstur, þótt annaðhvort þurfi að hækka eða lækka þetta gjald eitthvað fyrir eitt ár, að þurfa þá að fara að rjúka í lögin og breyta þeim. En sá leiði siður hefir einmitt viðgengist undanfarið, að þeim lögum, sem gefa ríkissjóði tekjur, hefir verið breytt árlega, svo að sömu lögin hafa ekki verið í gildi nema á milli næstu þinga. En ákvæði 5. gr. mundi koma í veg fyrir þetta og veita nokkra vörn gegn sífeldum breytingum á þessum lögum. Jeg tel því þetta ákvæði kost á lögunum, því annars er viðbúið, að þau yrðu undirorpin einhverjum breytingum á hverju þingi.