07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

46. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg þarf í sjálfu sjer ekki að blanda mjer inn í þann reipdrátt, sem hjer hefir að sumu leyti komið fram milli sjávar og sveita, um flokkun ýmsra vörutegunda, en vil að eins benda á það, að sú tilfærsla milli flokka, sem farið hefir verið fram á, mun hafa í för með sjer um 100 þús. króna tekjurýrnun á ári fyrir ríkissjóð. Jeg vildi því leyfa mjer að skjóta því til háttv. nefndar, hvort ekki mætti hækka eitthvað gjaldið í 2. flokki, og mætti það þá sennilega ekki vera minna en upp í 1 krónu.

Jeg veit tæplega, hvað nefndin á við með orðinu „járngirði“, undir staflið d, (Margir: Það er gjarðajárn). Nú, jæja, en jeg hefi aldrei fyr heyrt það orð um gjarðajárn. Jeg hjelt að gjarðajárn heyrði undir smíðajárn, því að úr því eru aðallega smíðaðar gjarðir. Jeg man ekki betur en að jeg teldi svo, meðan jeg var sýslumaður og hafði vörutollsinnheimtu með höndum. Þó skal jeg ekki um það þrátta.

Þá eru það brtt. þeirra háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) og háttv. þm. Borgf. P. O.), sem mjer þykir vera með nokkuð almennum orðum. Og vildi jeg skjóta því til háttv. fjhn., ef brtt. þessar verða samþyktar, hvort hún sjái sjer ekki fært að draga úr þessari upptalning og fella sumt af því niður, t. d. „sleðar“. Það getur valdið misskilningi. því mjer vitanlega er mjög lítið flutt inn af sleðum, nema þá barnasleðum, og ættu þeir að vera í öðrum fl. Sömuleiðis ætti orðið „strengingartækjum“ að falla burt. Það er altof óákveðið. Einnig skilst mjer, að 2. liður brtt. á sama þskj. megi falla burt, því að í nál. eru einmitt jarðyrkjuáhöld nefnd, svo að þessa þarf eigi.