07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

46. mál, vörutollur

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Háttv. flm. brtt. á þgskj. 203, háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.), sagði eitthvað á þá leið, að meira hefði gætt hagsmuna sjávarútvegarins en landbúnaðarins í nál. fjhn. á þskj. 183, og þess vegna hefði hann gerst flutningsmaður að þessari brtt. En jeg get fullvissað hann um, að það var alls ekki meiningin að gera þar upp á milli, enda leit nefndin svo á, að með orðunum „og öðrum jarðyrkjuáhöldum“ væri fullkomið jafnræði þar á milli, og að nálega flest landbúnaðarverkfæri kæmust þar undir, eins og líka háttv. flm. (J. S.) hefir að nokkru leyti játað. Get jeg því ekki betur sjeð en að 2. lið brtt. sje algerlega ofaukið, því að „sáðvjelar“ og „áburðardreifarar“ hljóta að komast undir jarðyrkjuáhöld.

Nefndin athugaði líka, hvort skilvindur ætti að taka í 2. fl., en af þeim er nú greiddur vörutollur, þetta frá 1.50 upp í 2 kr., af þeim allra stærstu, svo að nefndin sá það ástæðulaust að taka þær í þennan flokk, með því líka, að þá hefði verið jafnmikil ástæða að taka ýmislegt fleira, t. d. saumavjelar.

Jeg býst nú við, að fjhn. taki þetta til athugunar fyrir 3. umr., og ýmsir nefndarmenn líta svo á, að ef bætt væri aftan við „jarðyrkjuáhöldum“ — „svo og heyvinslu-, smjör- og ostagerðaráhöldum“, þá sje þar með öllum landbúnaðaráhöldum náð.

Þá var það hæstv. fjrh. (M. G.). Honum fanst kenna nokkurs reipdráttar milli sjávarútvegarins og landbúnaðarins, en þetta hlýtur að vera misskilningur, eins og jeg hefi áður tekið fram. Hann sagði, að haga yrði svo orðavali frv., að það gæti fallið saman við vöruskrárnar. Þetta hefir nefndin einmitt athugað og fanst óþarfi t. d. að taka gaddavír sjerstaklega, þar sem sljettur vír er líka notaður til girðinga. Þess vegna valdi hún „girðingavír“, og taldi, að undir þá skilgreining gætu báðar þessar vírtegundir fallið. Nefndin sá líka, að hún yrði að taka fleiri vírtegundir í 2. flokk, en þeir hafa flestir sjernefni, eins og t. d. ýmsir vírar tilheyrandi skipum og útgerð.

„Járngirði“ er það sama og á farmskrám er nefnt „Baandjern“ = efni í gjörð, og ætti þessi skilgreining ekki að valda neinum misskilningi.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði brtt. á þskj. 203 með nokkuð almennum orðum. Fjhn. mun nú reyna fyrir 3. umr. að samræma þetta betur, reyna að fella saman það, sem saman á, og reyna að gera lögin svo úr garði, að allir megi við una. Og jeg vil taka það fram aftur, áður en jeg sest niður, að frá nefndarinnar hálfu er alls ekki um neinn reipdrátt að ræða milli atvinnuvega landsmanna.