07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

46. mál, vörutollur

Jón Þorláksson:

Ef það er rjett, sem einhver sagði áðan, að allar brtt. sjeu samþyktar hjer í hv. deild, þá gefur að skilja, að til lítils er að malda í móinn. Þó get jeg ekki látið þessar brtt. fram hjá mjer fara án þess jeg minnist nokkrum orðum á 6. flokk og póstbögglana. Í 6. flokki er um svo mikla hækkun að ræða, frá því sem er í stj. frv., að jeg get ekki látið það óumtalað. Jeg skal að vísu játa, að 3 kr. gjald stj.-frv. var full lágt, en hitt er líka harðneskja hjá nefndinni, að hækka það upp í 10 kr., eða meira en þrefalda gjaldið, og ýmsar þær vörur eru þó í 6. fl., sem tæplega verðskulda þetta. Jeg myndi þó ekki hafa gert þetta að umtalsefni, ef jeg sæi ekki, að það myndi draga þann dilk á eftir sjer að hækka toll á póstbögglum fram úr allri sanngirni. Það hlýtur að vekja óánægju manna í milli, að þurfa að leysa út með 5 kr. böggul, sem vegur ekki nema 5 kg. og hefir lítið verðmæti að geyma. (Bjarni Jónsson: T. d. dagblöð). Þetta á t. d. við um muni, sem hafa verið sendir utan til aðgerðar, og verður ekki sjeð annað af frv. en að greiða eigi toll þennan, þótt í bögglunum sje ekki sú vara, sem tollskyld er samkv. 1. gr. frv.

Þess vegna vildi jeg spyrja hæstv. fjrh. (M. G.), hvort það sje meiningin að greiða þennan toll, án tillits til þess, hvað bögglarnir hafa að geyma, því ef svo er, þá kemur þetta sjerstaklega illa niður á dagblöðum, en versnar þó svo við nál., að við það er ekki hægt að una, og væri þá vitanlega rjettara að samþ. þetta eins og stj.frv. hefir það.