07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

46. mál, vörutollur

Sveinn Ólafsson:

Jeg þarf raunar ekki miklu hjer að svara.

Það er áreiðanlega misskilningur hjá hv. flutningsm. brtt. á þskj. 203 (J. S.), að fjárhagsnefnd hafi gert sig seka um hlutdrægni í meðferð þessa máls, eða skort þekkingu til að skipa því. Í nefndinni sitja menn, sem vel eru kunnugir hvorutveggja, sjávarútvegi og landbúnaði, og ætti því ekki að kenna þar vilhylli til annarshvors atvinnuvegarins. Jeg get tekið það fram um sjálfan mig, að jeg bý á sjávarbakka, og hefi lengst um búið. Mjer er hvortveggja þessara atvinnuvega jafnkær og kunnur, og hefir aldrei dottið í hug að gera upp á milli þeirra.

Jeg veit, að nefndin mun þess albúin að taka til greina flest af því, sem brtt. á þskj. 203 stendur. En brtt. er þannig orðuð, að hún fellur illa inn í 2. lið 1. gr. frv., og því óhjákvæmilegt að breyta greininni enn, ef till. verður samþ. En hins vegar má, með því að bæta örfáum orðum inn í greinina, fullkomlega ná öllu því, sem brtt. fer fram á, og þætti mjer æskilegast, að háttv. flm. tækju aftur brtt., eða ljetu fresta atkvgr. um hana til næstu umr. Gæti nefndin þá breytt greininni í samræmi við óskir flm., svo eigi þyrfti brtt. að koma undir atkv.

Út af þeim ummælum hæstv. fjrh. (M. G.), að brtt. og flutningur margra vörutegunda undir sama flokk dragi úr tekjum ríkisins, þá er því að svara, að tekjuauki mikill kemur aftur á öðrum liðum, t. d. á 6. lið 1. gr., og á hækkun póstbögglagjalda.

En sem sagt, jeg stóð einkum upp til þess að vekja athygli hv. flm. á því, að nefndin mun fúslega taka hana til greina, og jafnframt til að hvetja þá til að reka ekki að óþörfu eftir henni við þessa umr.