07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

46. mál, vörutollur

Þórarinn Jónsson:

Jeg stend upp til þess að undirstrika það, sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði um brtt. á þskj. 203. Jeg er samþykkur efni þeirrar brtt., og mun nefndin taka hana til greina fyrir 3. umr., ef háttv. flm. vilja nú taka hana aftur. Þá vil jeg örfáum orðum minnast á póstbögglafarganið, sem geisilega hefir farið í vöxt nú hin síðari árin. Tel jeg ekkert happ að því, og er því algerlega samþykkur ákvæði 2. gr. um póstbögglagjaldið, ekki síst ef það gæti dálítið vanið menn af því að panta þannig heila og hálfa hestburði af skrani og óþarfa frá útlöndum. Veit jeg þess dæmi, að póstbögglar, sem einn unglingur fekk í einu með pósti, voru hátt upp í klyfjar á hest. Veldur þetta ekki litlum töfum við póstafgreiðsluna, og því sannarlega þörf á að venja menn af þessu.