27.04.1921
Efri deild: 53. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

46. mál, vörutollur

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Eins og háttv. deild sjer, hefir nefndin komið með nokkrar brtt. við vörutollslögin.

1. brtt. er að færa upp í 1. fl. hverfisteina, kvarnarsteina, hefilspæni og sag, með því að þessar vörur eru svo verðlausar, en sumar þungar í vigt. Ennfremur gólf- og veggjaplötur, sem eru vara, sem er nýlega farið að flytja að landinu. Er hún þung í sjer, en verðmætari en tígulsteinar, sem eru undanþegnir vörutolli. Loks leggur nefndin til, að tunnuhlutar og girði sje flutt upp í þennan flokk, í því skyni að hlynna að tunnugerð hjer á landi. Svo leggur nefndin til, að blikki sje bætt við í 2. fl. — það hefir áður verið undir tolltaxta síðasta fl. —, með því að útlit er fyrir að farið verði að sjóða niður kjöt til útflutnings, og hefir Sláturfjelag Suðurlands keypt áhöld í því skyni. Rafmagnsvjelar og rafmagnsáhöld eru svo dýr vara, að nefndinni þykir ótækt að þær vörur standi í 2. fl., og vill að þær heyri undir síðasta fl., eins og verið hefir.

En svo leggur nefndin til, að tollurinn fyrir 2. fl. sje hækkaður úr 75 aurum upp í 1 kr., með því þær breytingar, sem gerðar hafa verið, rýra svo mikið vörutollinn. Þá leggur nefndin til, að tolleiningin í 6. flokki sje færð úr 10 kg. niður í 1 kg., því að samkvæmt síðustu málsgrein 7. gr. mundi hálfur þessi tollur tapast. ef tolleining væri 10 kg. Þá kann nefndin eigi við, að gull og silfur sje undanþegið vörutolli, sem nota á sem tryggingu fyrir bankaseðlana. Þegar slík vara er innflutt, getur innheimtuiðnaður ekki vitað, til hvers silfrið og gullið á að nota. Þess vegna leggur nefndin til, að „ósmíðað gull og silfur“ sje undanþegið vörutolli, eins og hráefni yfirleitt. Orðin „til beitu“, í 7. gr. í aths., eru óviðkunnanleg og óþörf, því að tollinuheimtumaðurinn getur heldur ekki vitað, til hvers síld á að notast, sem inn er flutt, og eigi er hætta á, að óþarfa síld sje aðflutt.

Brtt. undir 4. lið c. er að eins orðabreyting, til þess að færa málsgreinina til betra máls.

Við 5. lið, 2. gr., vill nefndin athuga, að hún getur alls ekki fallist á svo háan vörutoll af póstbögglum, eins og Nd. leggur til, en vill, að móttakandi greiði venjulegan vörutoll af þeim vörum, sem í póstbögglunum flytjast, ef viðtakandi sannar fyrir póstafgreiðslumanni, hvert sje innihald póstbögglanna..

Loks er síðasta breytingin við 2. gr., 2. málsgr. Nefndinni virðist sjálfsagt, að viðtakandi vörupakka eigi frímerkin, sem búið er að stimpla, og ætlast til, að póst húsið eyðileggi þau ekki meir við stimplunina en nauðsynlegt er til að tryggja, að þau sjeu ekki notuð aftur sem óbrúkuð frímerki.

Að öðru leyti vísar nefndin til nál. á þskj. 381, og sjerstaklega til þess, sem þar er sagt um röskunina á grundvelli vörutollslaganna.