18.02.1921
Efri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þykir hlýða að rekja stuttlega sögu þessa máls, meðal annars vegna þess, að nú eiga ýmsir menn sæti á Alþingi, sem ekki áttu það 1917, er það var upp tekið, og af hinu, að svo má virðast, sem áhugi háttvirtra þm. á því, hin síðari árin, sje varla samur sem hann var við upptökin.

Á þinginu 1917 báru þáverandi 2. þm. Árn., Einar Arnórsson prófessor, og núverandi þm. V.-Sk. (G. Sv.) fram þingsályktunartillögu um endurbætur á gildandi löggjöf um hjúskaparslit og afstöðu foreldra til barna.

Aðalástæðan fyrir þessari tillögu töldu flutningsmenn vera þá, að mörgum hafi þótt ýmsir ágallar vera á löggjöfinni um afstöðu foreldra til barna, einkum afstöðu óskilgetinna barna til föður og föðurættar.

Hefir verið hreyfing um þetta mál á hinum síðari árum meðal kvenna og kvenfjelaga, og konur, líklega af hálfu kvenfjelags eða kvenfjelaga hjer, höfðu snúið sjer til annars flutningsmannsins, háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Af hvötum kvenna var þessu því hreyft á þingi 1918. En eins og getið var fekk málið meira umfang hjá flutningsmönnunum þegar í byrjun, og við meðferðina á þinginu enn frekara. Þingsályktun sú, er samþykt var, skorar á stjórnina að leggja fyrir þingið, svo fljótt sem auðið sje, frumvarp til laga um stofnun og slit hjúskapar og afstöðu foreldra til barna.

Um sama leyti var allmikil hreyfing um þessi efni annarsstaðar á Norðurlöndum. Nefndir störfuðu þar að undirbúningi nýrrar löggjafar, er væri að miklu leyti samkvæm fyrir öll löndin, og sumpart voru að koma út ný lög um þetta efni. Það var gert ráð fyrir því á þinginu 1917, að þessi löggjafarstarfsemi væri höfð til hliðsjónar, og að leitað yrði til lagadeildar Háskólans um undirbúning þessarar nýju lagasetningar hjer.

Í byrjun ársins 1918 var svo leitað aðstoðar lagadeildarinnar um þessa lagasetningu, og ljet deildin hana í tje. Aðalstarfið hafði kennari sá, er þessi efni heyrði undir, núverandi hæstarjettardómari L. H. Bjarnason, en hinir kennararnir voru með í verki, líkt eins og átti sjer stað um lögræðislagafrumvarpið á sínum tíma.

Frumvörp þessi eru yfirleitt samkvæm nýrri lagasmíð annara Norðurlanda, og eru hjer um bil óbreytt að efni og búningi, eins og lagadeild Háskólans hefir gengið frá þeim. Í aths. stjórnarinnar við frumvörpin er getið breytinganna.

Frumvörpin voru lögð fyrir þingið 1919. Þau eru öll saman allmikill lagabálkur, svo að ekki var að furða, þótt þingið það ár gæti ekki lokið við þau. Aftur lagði ráðuneytið frv. óbreytt fyrir þingið 1920, en það þing var svo stutt, að ekki voru tiltök að athuga þau til fullnustu og fá þau samþ. Nú eru þau hjer fram borin í þriðja sinn.

Eins og jeg hefi tekið fram, er það eftir beinni kröfu Alþingis sjálfs, að frv. eru fram borin, og þau eru til orðin á þann hátt, sem Alþingi ætlaðist til, sniðin eftir hinni nýju löggjöf Norðurlanda og Þýska lands, eins og Alþingi ætlaðist til 1917. Það virðist því ekki nema sjálfsagt, að hið háa Alþingi nú í ár, er frumvörpin eru lögð fyrir í þriðja skifti, reki nú síðasta smiðshöggið á þau. Fyrir utan það, að skoða mætti það gabb af þinginu, ef það væri að heimta frv. lögð fyrir, um ákveðin efni, og vildi svo ekki sinna þeim, þegar til kæmi. Slíkt samir ekki löggjafarþingi, því að það er allmikill kostnaður við prentun á frv., sem ekki er vert að vera að leika sjer að. Að vísu hefir verið reynt að gera kostnaðinn við uppburð umgetinna frv. sem minstan, eins og þau bera með sjer, og vona jeg, að hið háa þing virði viðleitni ráðuneytisins í þá átt.

Þetta, sem jeg nú hefi sagt, snertir öll þrjú frv., en það á við um mörg önnur frv., sem borin eru hjer fram í ár, að stjórnin verður að mega krefjast þess, að hið háa þing sýni þeim alla alúð og sinni þeim á undan þingmannafrv., því að þau eru, yfirleitt, komin fram eftir beiðni og hvötum þingsins sjálfs.

Um það frv., sem hjer liggur nú fyrir til umræðu, skal jeg láta mjer nægja að taka það fram, sem hjer segir, og stuttlega drepa á aðalnýmæli frv.

Það er hið fyrsta nýmæli, að athöfn sú, er venjulega er kölluð trúlofun, en frv. nefnir festar, sje ein út af fyrir sig rjettgæf. Festar voru hjer til forna, en í nokkuð annari merkingu. Trúlofun gefur að vísu rjettarþýðing samkvæmt konungsbrjefi 14. júlí 1740, ef kona verður þunguð af völdum unnusta síns, en ekki þekkjast dæmi til þess, að nokkur kona hafi notað þetta lagaákvæði. Það virðist vera í samræmi við rjettarmeðvitund nútímans, að samningurinn, festar, sje rjettgæfur, eins og eru yfirleitt samningar þeir, sem ekki eru á móti siðsemi og lögum.

Dálítil breyting er gerð á hjónabandsskilyrðunum. Giftingaraldur karlmanns er nú 20 ár, en konu 16. Aldursmarkið er í frv. hækkað upp í 21 og 18 ár, og þykir það, að öllu athuguðu, rjettara, með því að menn þroskast seinna í köldu löndunum en í hinum heitari. Þá eru sjúkdómar, sem ekki var áður hjónabandshindrun, gerðir að vígsluskilyrði, og eflaust með fullum rökum. Þá er breytt lýsingu til hjónabands. Það nýmæli er tekið upp, að prestur megi, með samþykki biskups, neita að vígja hjónaefni, sem heimting eiga á kirkjuvígslu. Þetta er að vísu miður frjálslegt í garð hjónaefna, en varla mun þetta koma oft fyrir hjer, og svo er hitt, að líklegt er að hjónaefni mundu fyrir því geta fengið kirkjuvígslu, að borgaralegri vígslu ótalinni.

Í frumvarpinu er gerður greinarmunur á ógildisástæðum og ógildingarástæðum og skilnaðarástæðum. Ógildingarástæðurnar og ógildisástæðurnar eiga sammerkt í því, að þær hafa verið fyrir hendi áður en vígslan fór fram, en skilnaðarástæðurnar koma yfirleitt á eftir. V. kaflinn er um ógilding hjónabandsins. Eftir gildandi lögum veldur ógilding hjónabands því, að litið verður svo á, sem ekkert hjónaband hafi stofnað verið, en eftir þessu frv. er litið svo á, að hjónabandið sje ógallað þangað til það er ógilt, og hafi sömu þýðingu fyrir börn og þriðja mann. eins og ógallað væri, frá vígslu til ógildingardóms. Það liggur í augum uppi, hversu miklu mannúðlegri og rjettari þessi regla er, einkum fyrir börnin og það hjóna, sem saklaust er. Ákvæðin um skilnað að borði og sæng eru svipuð því, sem nú viðgengst, en aðalmunurinn er sá, að tími sá, er hjónin þurfa að vera skilin að borði og sæng, áður en þau, eða annað þeirra. geta krafist lögskilnaðar, er styttur um 2 ár, eða í frv. heimtað aðeins 1 ár, í stað þess, að nú eru það 3 ár. Ákvæðin um lögskilnað eru annars svipuð því, sem nú viðgengst í framkvæmd.

Um meðferð hjúskaparmála, svo sem yfirleitt er gert um hvatvetna, eru greinilegar reglur. Jeg skal láta þess getið, að jeg hefi að vísu veitt því eftirtekt, að allsherjarnefnd Ed. 1919 var ekki ánægð með búning þessa frv. og hinna tveggja, er samferða urðu, og óskaði að búningurinn yrði bættur. Jeg hefi ekki þóst þurfa að taka þessa ósk til greina, vegna þess, að mjer finst með öllu forsvaranlegt af stjórninni að leggja frv. fyrir þingið í þeim búningi, er lagadeild Háskóla Íslands hefir sniðið og saumað. Jeg geri ráð fyrir því, að það, sem þáverandi allsherjarnefnd hafi helst þótt miður viðkunnanlegt í orðavali frv., það sjeu nöfnin á ýmsum hugtökum, er þar koma fyrir. Það er nú einu sinni svo, að þingið hefir einatt þóst þurfa að laga málið á frv., ekki síst stjórnarinnar, stundum sjálfsagt með góðum ástæðum, stundum máske ástæðulítið, eða ástæðulaust. Jeg minnist þess, að einn þm. fann mjög að tveimur orðatiltækjum í frv., sem jeg bar fram sem þingmaður fyrir nokkrum árum, og gerði jeg það að gamni mínu að bera þetta undir þáverandi íslenskukennara mentaskólans, og taldi hann það gott mál. Jeg minnist þess og, að mjer hafði orðið á að setja í stjfrv. nýlega „að eiga rjett á“, en þessi háttv. deild þurfti að leiðrjetta þetta og setja: „eiga rjett til“. Þar með vil jeg alls ekki segja, að ekki sje ástæða til að bæta í einhverju um búning frv. þessari. Viðleitni þingsins, að vanda sem best lagamál. er mjög virðingarverð, og efast jeg ekki um, að þeirri háttv. nefnd, er um þetta mál fjallar, takist að orða það svo, að hinu háa Alþingi líki. Að eins vona jeg það, að þær breytingar, sem gerðar verða, verði til bóta.

Og hvað sem öðru líður, vona jeg, að það komi ekki fyrir, að oftar þurfi að bera fram á Alþingi þau þrjú frumvörp, sem hjer um ræðir.