05.04.1921
Efri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Það er mikið og merkilegt mál, sem hjer liggur fyrir háttv. deild, enda hefir málið fengið mikinn og góðan undirbúning. Þó hefir sá undirbúningur eigi farið fram hjer á landi að mestu leyti, heldur úti á Norðurlöndum með frændþjóðum vorum. Þar hafa milliþinga- og milliríkjanefndir unnið að málinu árum saman. í athugasemdunum við frv., þegar það var lagt fyrir Alþingi 1919, er getið um þann undirbúning, sem málið hefir fengið hjer á landi, og sömuleiðis er getið um það í nál. á þskj. 211, sem jeg vona að háttv. þdm. hafi kynt sjer.

Eins og tekið er fram í nál., hefir nefndin ekki gert margar nje miklar efnisbreytingar á frv. En aftur á móti hefir hún fundið sig knúða til að bera fram allmargar orðabreytingar, sem hún vitanlega telur til bóta, en gerir þó eigi að kappsmáli, að þær gangi allar fram. Því er svo farið um þetta frv., að í því er ýmislegt, sem erfitt er að koma orðum að. Þar eru mörg hugtök, sem áður voru varla til orð yfir í íslensku lagamáli, og hefir þeirri reglu verið fylgt við samningu frv. að reyna að nota jafnan eitt og sama orð yfir sama hugtak. Sum af þessum orðum, svo sem t. d. orðið „gjörgengur“, „ógengi“ o. fl., hafa nefndinni eigi líkað allskostar, og kosið fremur að segja sömu hugsun með fleiri orðum. En þetta er auðvitað ávalt nokkurt álitamál. Annars sje jeg ekki ástæðu til að ganga gegn um brtt., því að efnisbreytingarnar eru skýrðar í nál., en um orðabreytingarnar tel jeg varla þörf að ræða.