06.04.1921
Efri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

23. mál, stofnun og slit hjúskapar

Halldór Steinsson:

Jeg hefi, því miður, ekki haft nægan tíma til þess að athuga frv. gaumgæfilega, nje breytingar þær, sem nefndin hefir gert á því. Þó varð jeg fljótt var við, að nefndin hefir gert breytingar á því, í því augnamiði að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu ýmsra hættulegra sjúkdóma. í 10. gr. frv. er það ákveðið, að leyfð skuli undanþága, með ráði læknaráðs Háskólans, þar sem er að ræða um bann gegn því, að geðveikur maður eða hálfviti megi giftast. Jeg er í fylsta máta sammála háttv. nefnd í því, að fella þessa undanþágu niður. Jeg álít, að í slíkum efnum sje það hrein og bein fjarstæða, að nokkur undantekning eigi sjer stað. Jeg er annars ekki sammála hæstv. forsrh. (J. M.) í því, að það sje nokkur ástæða að leggja svo mjög mikla áherslu á það, að þessi lög verði í fullu samræmi við erlenda löggjöf, þar sem mörgu í þessum efnum er öðruvísi farið hjer hjá oss.

Í 11. gr. er það ákveðið, að ekki megi vígja mann, sem haldinn sje af næmum kynsjúkdómi, flogaveiki eða holdsveiki, nema hinu hjónaefna sje það kunnugt, og læknir hafi lýst sjúkdómshættunni fyrir báðum. í þessari gr. tel jeg fyrra ákvæðið sjálfsagt, en síðari hluti greinarinnar gerir hana, að mínu áliti, að mestu þýðingarlausa. Sökin er nefnilega sú, að hjer er auðsæilega lögð öll áhersla á hjónaefnin, en ekkert tillit tekið til afkvæma þeirra. En þetta tel jeg hreinustu kórvillu. Þegar ræða er um hjónabandið frá heilbrigðislegu sjónarmiði, þá verður, að mínu áliti, að taka fyrst og fremst tillit til afkomendanna. Hjer verður að vera „absolut“ bann en ekki „relativt“. Ef því þessi grein á að verða annað en bókstafirnir tómir, þá verður að fella burtu síðara ákvæði hennar.

En nú koma hjer fleiri sjúkdómar til greina en þessir þrír, sem hjer hefir verið minst á, og sem er all-óárennilegt að ganga með í hjónabandið. Einn þeirra sjúkdóma er berklaveikin illræmda. Jeg álít, að maður, sem ber opna smitandi berkla í sjer, drýgi hreint og beint glæp gegn þjóðfjelaginu með því að giftast. Hann kæmi til að vera daglega samvistum við óvita börn, sem ekki geta varið sig, en eru hins vegar mjög smitnæm. Í þeim efnum verður að krefjast þess af þeim fullorðnu og heilvita, að þeir sjái ungu óvitunum borgið. Þessari skæðu sýki verður aldrei útrýmt í þessu landi, nema lögð sje sjerstök áhersla á að vernda börnin gegn henni. En þá er vitanlega mest undir því komið, að foreldrarnir sjeu hraustir. Það er varla hægt að hugsa sjer haganlegri gróðrarstöð fyrir þennan fjanda mannkynsins en sjúka móður í hóp ungra barna sinna. — Það væri sannarlega full nauðsyn, að það væri fastákveðið í löggjöf hvers lands, að slíkt fólk mætti alls ekki gifta sig. Jeg veit annars ekki, hvort háttv. nefnd er á sömu skoðun og jeg í þessu efni, og því slæ jeg þessu hjer fram, sem minni persónulegu skoðun, nefndinni til leiðbeiningar.

Í 16. gr. frv. er það ákveðið, að kona, sem er manni gefin, megi ekki giftast aftur fyr en liðnir sjeu 10 mánuðir frá slitum fyrri hjúskapar og samvista, nema óþunguð sje af völdum bónda síns. Jeg held, að það væri rjettast að sleppa þessum enda og láta 10 mánaða ákvæðið duga.

Í fyrstu málsgr. 38. gr. frv. á að verða sú orðabreyting, að í staðinn fyrir „landssjóð“ komi „ríkissjóð“.

Í 40. gr. er talað um, að ef hjónaband ríði í bág við fyrirmæli 12., 14. og 15. gr. um of náinn skyldleika, þá skuli ógilda það með dómi. Aftur á móti stendur í 42. gr., að krefjast megi ógildingar á hjónabandi, ef þau fyrirmæli hafi verið brotin, sem þar eru talin upp. Jeg vil að sú breyting verði þar á, að sama ákvæði gildi um þessa bresti og í 40. gr., nefnilega að þá skuli ógilda hjónabandið með dómi.