15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. meiri hl. 1. kjörbrjefadeildar (Sigurður Stefánsson):

1. kjörbrjefadeild hefir borist kæra frá einum kjósanda í Reykjavík. Hann kærir út af kosningunni yfirleitt, og er kæran í 4 atriðum. Fyrsta atriðið er um kosningu þingmanns í stað Sveins Björnssonar. Kærandi heldur því fram, að hún hafi dregist of lengi og farið fram með ólöglegu móti. Það hefði átt að vera óhlutbundin kosning, ekki hlutbundin, og hafi þetta getað haft mikil áhrif á úrslit kosninganna. Það er að vísu satt, að bókstafur laganna virðist benda í þá átt, að þingmann í stað Sveins Björnssonar hefði átt að kjósa á undan hinum og með öðru móti. Á þessu byggir kærandi, en færir ekki frekari rök fyrir máli sínu en þau, að þetta sje sinn skilningur. Í þeirri grein laganna, sem þetta atriði fellur undir, er svo kveðið að orði, að þegar autt verður sæti þingmanns, skuli kosning fara eins fljótt fram og henta þykir. Þetta er rúmt lagaákvæði. Það er skiljanlegt, að stjórnin hafi notfært sjer það, þegar svo stóð á sem hjer. Kosning tveggja nýrra þingmanna stóð fyrir dyrum, og þá var eðlilegt að láta kosningu þriðja mannsins fylgjast með. Það verður ekki sagt, að slíkt sje á móti anda laganna, heldur gagnstætt. En það, sem aðallega mælir með þessari aðferð, er hagkvæmi hennar. Hjer Reykjavík kostar hver kosning kjósendur og þingmannaefni mikið. Kosningabáknið er orðið stórt og kostnaðarsamt, og það er ekki vert að setja það oftar á hreyfingu en brýn nauðsyn krefur. Stjórnin hefir steypt saman þessum kosningum, til þess að firra Reykvíkinga of miklum kostnaði og fyrirhöfn. Og þetta er mikilsvert atriði. Þegar hjer við bætist, að þessi aðferð er í anda laganna og að öllu hagkvæmari, þá má þingið vel við una. þó ekki sje hún í strangasta skilningi eftir lagabókstafnum.

Þá er annað atriði kærunnar, að aukakjörskrá hafi verið ólögleg. Kjörbrjefadeildin var hjer á einu máli. Aukakjörskráin var ekki lögleg. Á hana voru teknir nýir kjósendur, rjett á undan kosningunum, en löglegra hefði verið að þeir hefðu fylgt sömu reglu og aðrir, verið teknir á kjörskrá í maímánuði. En hjer er þó á það að líta, að úr því sem komið var, voru aðeins tvær leiðir færar, að svifta fjölda manna kosningarrjetti, eða taka þá á ólöglega aukakjörskrá. Og þá leiðina verð jeg að álíta heppilegri, þótt ekki geti jeg mælt henni bót að öðru leyti.

Þá er komið að þriðja atriði kærunnar, að kosningu hafi verið lokið meðan óslitinn straumur kjósenda gekk að kjörborði og kaus. Um þetta atriði verður ekkert sagt með vissu. Upplýsingar vantar. Ef þetta atriði ætti að rannsakast til hlítar, yrði að fresta úrskurði um gildi kosningarinnar. Oss þingmönnum er ókunnugt um, hve margir kjósendur hafi mist atkvæði sitt á þennan hátt, en þar sem hvorki kjósendur nje þingmannaefni eiga hjer sök á máli, sje jeg ekki ástæðu til að fresta úrskurði þess vegna.

Um fjórða atriðið, að marga hafi vantað á kjörskrá, og þar hafi verið menn, sem ekki höfðu atkvæðisrjett, er sama að segja og um þriðja atriðið. Upplýsingar vantar.

Það er áreiðanlegt, að þessi kosning hefir marga og mikla galla. Það verður að víta. En hitt er annað mál, hvort þessir gallar sjeu þess eðlis, að kosningu eigi að ógilda þeirra vegna.

Engir þessara galla hafa haft áhrif á úrslit kosninganna, nema fyrsta kæruat riðið. Það getur hafa haft áhrif, en jeg lít svo á, að þar hafi stjórnin haft rjeit fyrir sjer, því það á að leggja meiri áherslu á anda laganna en bókstaf þeirra. Þess vegna er ekki ástæða til að ógilda kosninguna. Annað er það, að kjósendur og þingmannaefni eiga hjer enga sök á máli. Það væri hart að hegna þeim fyrir yfirsjónir bæjarstjórnar og landsstjórnar, og þessvegna er ekki rjett að ógilda kosninguna.

Það er enginn efi á því, að bæjarstjórn hefir kastað mjög höndum að samningu kjörskrár; hundruð kjósenda vantaði þar. Að vísu eru kærur teknar til greina, en það er aðgætandi, að kjósendur hjer í Reykjavík standa þar ver að vígi en aðrir. Þeir eru margir ekki í bænum til þess að gæta rjettar síns og heimta nafn sitt á kjörskrá. Þeir eru út og austur, á sjó og landi, að leita sjer atvinnu, eða stunda atvinnu. En þegar svo í skömmina er komið fyrir bæjarstjórn, þá er von að hún verði „liberal“ og setji á kjörskrá, með ólöglegu móti, þá, sem eiga þar heima að lögum. Það væri ef til vill ekkert á móti því, að þingið beindi áskorun til landsstjórnarinnar um að víta aðferð bæjarstjórnarinnar. Jeg ber það ekki upp hjer, jeg er málinu of ókunnugur. Jeg vona, að málið skýrist hjer við umræðurnar, og þá er hægt að taka afstöðu eftir því, sem rjettast þykir.