19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

6. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

Jeg tek hjer til máls vegna þess, að mjer þykir ekki hæfa, að svo merkilegt mál komi fram, án þess að um það sje rætt. Á yfirborðinu sýnist þetta frv. að eins sauðmeinlaus og lofsverð tilraun til að afla landinu tekna — milj. kr. tekna. Allir geta orðið á einu máli um það, að þess er ekki vanþörf. En hjer er annað, sem er aðalatriðið. Hjer stingur ný stefna upp höfðinu. Þetta er fyrsti selshausinn, sem kemur hjer upp úr gólfinu, og á hann á að berja. Ef það verður ekki gert, getur verið, að hjer fari fram slík Fróðárundur, að þetta þing verði lengi í minnum haft. Og þess verður þá ekki getið að góðu, því að nýja stefnan er ill stefna. Þetta frv. er komið fram til þess að afla landssjóði tekna með einkasölu, og einskis annars. Það er að vísu ekki eins dæmi, að stjórnin hafi haft einkasöluheimild, en það hefir verið gert í öðrum tilgangi. Einkasala verður ekki rjettlætt með öðru móti en því, að byrgja þurfi landið að nauðsynjavörum, eða losa þurfi verslun einhverrar vörutegundar úr heljargreipum. Þau skilyrði eru ekki fyrir hendi. Jeg veit ekki til, að tóbaksverslun sje í höndum neinna hringa hjer á landi, og jeg býst við því, að nóg sje af þeirri vöru hjer og verði nóg í framtíðinni, en hinsvegar er þjóðin ekki í voða, þótt hana vanti. Þá er vínið, og mjer verður á að spyrja: Er nauðsynlegt að byrgja bannlandið að áfengi? Skrítið væri það.

Jeg ætla ekki að fara frekar út í þessa sálma að sinni. Jeg fæ eflaust tækifæri til þess síðar. En jeg vildi víkja nokkrum orðum að útfærslunni. Mjer þykir það einkennilegt, að landið, sem ætlar að reka tóbaksverslun og hafa ágóða af henni, skuli þar að auki leggja toll á tóbak. Jeg sje ekki, hvað við það er unnið að taka úr einum vasanum og láta í hinn, eða leggja toll á sjálfan sig. Þetta eru vafningar, óþarfa fyrirhöfn. En vafningar og óþarfa fyrirhöfn einkenna þetta mál, og þess vegna á tollurinn á verslun landsins ef til vill ekki illa við. Hjer er verið, að óþörfu, að hrinda af stað umsvifamiklu verslunarbákni. Hjer er verið að binda fje landsins í óþarft fyrirtæki. Hjer er verið að íþyngja landssjóði að óþörfu, með skrifstofukostnaði, mannahaldi og fleiru. En með þessu er ekki alt sagt. Alvarlegri hætta er á ferðum. Það er ætlast til þess, að verslunin beri sig. Það er sennilegt, en ekki víst. Ef hún tapar, er það tap þjóðarinnar, en ef hún græðir, er hætta á því, að fleiri og fleiri vörutegundir verði látnar sæta sömu meðferð, að sá, sem tók litla fingurinn, taki alla hendina. Frjáls verslun. heilbrigð viðskifti eru í veði.

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) talaði mikið gegn „spekulationslánum“ þegar hann skýrði frá fjárhag landsins. En nú ber sami hæstv. ráðherra (M. G.) fram frv. um, að landið „spekuleri“ og taki lán í því skyni. Hann heldur því fram að vísu, að þessi verslun sje viss verslun, en hvenær er verslun alveg viss, hæfilegur ágóði fyrirfram öruggur’ Aldrei, verslun verður altaf „spekulation“ að einhverju leyti.

Jeg hefi sýnt fram á, að frv. er óþarft, jeg hefi sýnt fram á, að stefna frv. er skaðleg, og jeg hefi bent á það, að einkenni þess eru vafningar og krókaleiðir. Landssjóður þarf 1/2 miljón kr. tekjuauka, og stjórnin vill fá hann af tóbaki og áfengi. En hvers vegna ekki að hækka tollinn. í stað einkasölu? Það er óbrotnara. einfaldara og í alla staði óhætt. Um þetta atriði vona jeg að ræða nánar síðar. Og jeg vona, að háttv. deild slái svo á selshausinn, að honum skjóti ekki upp aftur.

Þá er eitt atriði, sem athuga þarf í þessu sambandi, og á það hefir háttv. þm. Borgf. (P. O.) bent. Það er, hvernig hæstv. stjórn hefir hjer sett á einn bekk tóbakið og vínið. Mig hefði ekki undrað það, þó að stjórnin bæri fram eitthvert frv. um áfengi. Jeg hafði jafnvel búist við því, að hún mundi fara fram á umbætur á bannlögunum eða framkvæmd þeirra. En nú hefir það komið í ljós, að jeg hefi borið of mikið traust til stjórnarinnar í þessu efni. Hún hefir að vísu flutt frv. um áfengi, en það frv. er um, að landið taki kaupmannsgróða af sölu þess.

Með þessu, að setja vínið hjer á bekk með tóbaki. verður ekki annað sjeð en hæstv. stjórn komi að þeirri hugsun, að vínið skuli skoðast sem nautnavara. Hver maður úti um land, sem les þetta frv., hlýtur að spyrja: Er búið að afnema bannlögin? Því að þar sem búið er að setja vínið á bekk með nautnavöru, þá hlýtur það að rugla skilning manna í þessu efni. Þetta minnir á gömlu orðin, sem Lúther voru eignuð: „Wein, Weib und Gesang“. Hjer er bara, upp á íslenska vísu, orðið „tóbak og brennivín“. Það er sagt, að til sjeu þeir menn, sem hafa haft ágóða af því að selja vín, síðan aðflutningsbannið komst á. Þessir menn hafa hingað til ekki haft neinn heiður af því. Nú þykir mjer hið opinbera vera sett „óhuggnlega“ nærri á bekk með þessum mönnum, svo að það er ekki ófyrirsynju, að tekið er fram í aths., sem fylgja þessu frv., að tilgangur þess sje alls ekki sá, að spilla bannlögunum. Þetta, að setja vínið á bekk með tóbaki, er því athugaverðara, sem hjer liggur fyrir þinginu frv. til laga um einkasölu á lyfjum, og þar á þetta frv. heima. Hæstv. fjrh. (M. G.) gat þess, að hann hafi ekki vitað, að það frv. væri á ferðinni, er þetta frv. var samið. Það bætir alls ekki úr skák. Mjer finst full ástæða til, eftir sem áður, að fá þessu breytt, úr því komið er fram frv. um einkasölu á lyfjum. Þar á þetta frumvarp heima.

Mjer lýst svo gæfuleysislega á þetta barn, að líklega væri rjett að binda ekki fyrir naflastrenginn á því, en af því að það er eitthvað harðýðgislegt og heiðinglegt við það að láta börnin deyja svona úti á hjarninu, og kurteisi þykir að láta einhverja nefnd fá svona frv. til meðferðar, þá vil jeg ekki leggja á móti því, að nefnd verði látin athuga það, enda treysti jeg því, að meingallar þess komi æ því skýrar fram, sem það er gerr athugað.

Jeg vildi skora á háttv. fjárhagsnefnd, ef þetta frv. kæmi til hennar, og ef hún ætlar að leiða þennan grip inn í höllina, að hún leiði hann að minsta kosti á rjettanbás.