19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

6. mál, einkasala á tóbaki

Jakob Möller:

Því er nú einusinni þannig farið, að ef maður á annað borð tekur til máls, til að eiga orðastað við hæstv. fjrh. (M. G.), þá verður maður altaf að taka til máls í annað sinn, til þess að leiðrjetta einhvern misskilning hans. Jeg sagði aldrei, að meining stjórnarinnar með þessu frv. væri sú, að stuðla að auknum innflutningi áfengis, heldur hitt, að ríkisverslun með áfengi, í gróða skyni, mundi verka „demoraliserandi“ á hvaða stjórn sem væri. Ekki einmitt hæstv. núverandi stjórn, sem enginn veit hve lengi kann að „lifa“, heldur miklu fremur eftirkomendur hennar. — En úr því, að jeg er nú staðinn upp aftur, þá skal jeg geta þess, að líkur eru til, að stjórnin geri sjer of glæsilegar vonir um tekjur af þessari verslun. Mjer er sagt, að stjórnin hafi í útreikningum sínum ekki tekið tillit til hlutfallanna milli máls og þunga vínanda, og ætti áætlun hennar því að vera skökk, að því er snertir verðið og væntanlegan hagnað á sölunni.

Að því er tóbakið snertir, þá hygg jeg betra að ná inn tekjuaukanum með tollum en með einkasölu. Landsverslun með tóbak verður aldrei annað en milliliður. Tóbaks salar, sem nú selja tóbak í smásölu, kaupa af verksmiðjum og heildsölum erlendis, sem ríkisverslunin mundi líka verða að kaupa af. Landsverslunin mundi aldrei fá tóbak mun lægra frá verksmiðjum en kaupmenn fá það nú. Sá ágóði, sem kaupmenn nú hafa af verslun þessari, mundi því mestallur, ef ekki allur, fara í kostnað við ríkisverslunina, eða sem því svarar, og sá ágóði, sem ríkið hygst að hafa af sölunni. hlyti því að verða viðbótarálagning á vöruverðið frá því, sem nú er. Jeg tel því betra að láta kaupmenn halda allri tóbaksversluninni framvegis, og hækka þá heldur tollana, í stað þess að skjóta þarna inn ríkisheildsölu sem millilið, sem verða mundi all-„umsvifamikil“ stofnun, þó að ekki sje gert ráð fyrir því í frv., því að útibúum mundi sennilega komið upp víðsvegar um land, og þannig leggjast óþarfur kostnaður á vörurnar.

Að lokum þætti mjer þó fróðlegt að heyra, hversu mikið kapp stjórnin hygst að leggja á, að þetta frv. nái fram að ganga, enda ekki ósennilegt, að það kynni að hafa einhver áhrif á atkvæðagreiðslu um það, ef hæstv. stjórn þætti það mjög miklu skifta.