19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

6. mál, einkasala á tóbaki

Sigurður Stefánsson:

Jeg tel það helgustu skyldu þingsins að auka tekjur ríkissjóðs. Því er það, að þau frumvörp, sem að þessu miða, mega vera gölluð — já meingölluð — til þess að þingið megi hafna þeim athugunarlítið, eða án þess að laga þau. Aldrei er meiri þörf fyrir tekjuaukningu en einmitt nú á þessum hörmungarárum. Og hlýt jeg því að telja það virðingarvert, af hvaða stjórn sem er, að leita tekjuauka í ríkissjóð á allan heiðarlegan hátt. Mjer finst þetta frv. stjórnarinnar í alla staði heiðarlegt, og því tel jeg nokkuð hart að orði kveðið að kalla það óhæfu. (Jak. M.: Jeg stend við það). Jeg tel stjórnina hafa fundið þá leið, sem beinast lá fyrir til tekjuaukningar, og mun þess vegna greiða frv. atkvæði mitt með glöðu geði, enda þótt jeg vilji ekki fylgja stjórninni beinlínis út á einokunarbrautir. Bann vinir hafa haldið því fram, að ófært sje, að ríkissjóður græði á áfengissölu í bannlandi. En Ísland er alls ekki bannland í þeim skilningi. Það er og hefir verið opið fyrir öllu því áfengi, sem frv. ræðir um. Það er enn fremur nokkur freisting fyrir stjórnina að taka í sínar hendur áfengissöluna, því að innflutningur þeirrar vöru hefir stórum aukist á síðustu árum. Hann hefir aukist úr 7000 lítrum, fyrsta árið eftir að bannlögin gengu í gildi, upp í ca. 100.000 lítra 1920. Það er í anda bannlaganna að leitast við að takmarka þennan innflutning, en ekki hitt, að berjast gegn einkasölu á honum.

Því er haldið fram, að kostnaðurinn við ríkiseinkasöluna verði mikill. Það getur vel verið. En þó eru slíkt tómir spádómar og getgátur, því að enginn getur um það fullyrt strax. Jeg hygg, að verslunarágóðinn geti orðið allmikill, þótt ekki sje lagt á vörur þessar nándarnærri eins mikið og nú er gert, eftir því sem stjórnin upplýsir, þar sem hún segir, að vínandi, sem kostar í innkaupi kr. 6.00 pr. lítra, sje hjer seldur á kr. 16.00.

Um það atriði, að tekjuaukanum mætti ná með hækkuðum tollum á þessum vörum, er það að segja, að þeir eru nú þegar ærið háir, og ef þeir væru hækkaðir að mun, gæti slíkt haft það í för með sjer, að minna væri keypt af þessum vörum, en við það rýrnuðu tekjurnar. Jeg tel því ekki rjett af þinginu að hafna þessu frv., enda eru þetta ekki lög, sem þurfa að standa um aldur og æfi. Það má breyta þeim og jafnvel afnema þau síðar, ef illa gefast. (Jak. M.: Þá er víst betur farið en heima setið!). Maðurinn er nú eitt sinn þannig gerður, að hann getur sjeð sig um hönd, og það getur þingið líka.

Jeg legg því til, að málið sje rækilega athugað í nefnd, því að þetta er þjóðþrifa mál. Og jeg fæ alls ekki sjeð, að það snerti bannlögin, og kemur það því undarlega fyrir, að bannvinir skuli hjer sjá draug um hábjartan dag.