19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

6. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Kristjánsson:

Mjer hefði fundist vel á því fara, að umræður hefðu ekki orðið langar í þetta sinn, en jeg finn rnig þó knúðan að taka til máls, vegna þeirra fáránlegu skoðana og kenninga, sem komið hafa fram hjá háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) og liv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Mjer finst selshauslíking hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) talsvert smellin. En mjer finst hún tæplega geta átt við frv. stjórnarinnar; hún gæti miklu fremur átt við hv. 4. þm. Reykv. sjálfan. Fróðárundrin hafa gerst við síðustu kosningar hjer í Reykjavík. Selshausinn er kominn á þingið. Og hann virðist nú ekki skilja, að það sje nokkur munur á guðfræði og verslunarfræði. Ástæða hans fyrir því að vera á móti frv. er meðal annars sú, að salan geti gengið svo vel fyrir stjórninni, að hætt sje við, að hún taki þá að sjer sölu á fleiri vörutegundum. En í seinni ræðu sinni hjelt hann því fram, að ríkið mundi tapa á einkasölunni. (M. J.: Sagði hvorugt). (Jak. M.: Skilur ekkert í málinu). Háttv. þm. (Jak. M.) ætti að geta þagað þangað til hann getur fengið orðið á eftir, þótt hann sje bæði málsnjall og málgefinn. Jeg hefi þá sýnt fram á það, að hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) er kominn í beina mótsögn við sjálfan sig. Annars ætla jeg ekki að leggja málinu sjerstakt liðsyrði að þessu sinni, en að eins benda á öfgarnar.

Jeg vil og minnast á þá einokunargrýlu, sem sífelt er verið að hampa framan í þingmenn og kjósendur. Mjer finst það hreinasta oftraust á skilningsleysi almennings að rugla saman einokun fyrri alda og einkasölu nú. Á tímum einokuninnar fór allur hagur af versluninni út úr landinu, en einkasölufrv. sjórnarinnar eru beinlínis framkomin til þess að bjarga hag landsins. Jeg held, að svona grýlur hljóti að vera bornar fram gegn betri vitund. Jeg skal ekki fara út í einstök atriði frv. Slíkt er ekki leyfilegt við þessa umræðu. En vil að eins geta þess, að jeg er á sömu skoðun og hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að óþarft sje að hafa sjerstakan toll á þessum vörutegundum, tóbaki og áfengi, ef ríkið tekur sölu þeirra í sínar hendur.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) kom fram með nokkrar athugasemdir, öllu hógværari en vandi hans er. Hjelt hann því fram, að ef ríkið tæki söluna í sínar hendur, kæmi fram óþarfa milliliður. Þetta er algerlega sagt út í loftið, því að þótt sumir kaupmenn hafi keypt vörurnar frá útlöndum, þá hafa þeir gerst milliliðir, bæði sem stórsalar og smásalar. Það er því hjer ekki um fjölgun milliliða að ræða.

Loks var hv. þm. (Jak. M.), að dylgja um það, að útsölustaðir fyrir þessar vörur myndu verða víðar en hjer í höfuðstaðnum. Er það í samræmi við skoðanir þm. (Jak. M.), sem aldrei sjer annað en Reykjavík.

Að lokum vil jeg svo eindregið leggja til, að málinu verði vísað til nefndar til ítarlegrar rannsóknar.