17.02.1921
Neðri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

Kosning fastanefnda

Eiríkur Einarsson:

Áður en leitað er atkvæða vildi jeg fara nokkrum orðum um þessi þingskapaafbrigði, sem fram eru komin á 11. stundu.

Jeg er mótfallinn afbrigðum frá þingsköpunum, nema nauðsyn krefji, og álít að þetta þing ætti að byrja varlega í því efni. Hvort ástæða sje til afbrigða nú, er eigi gott að segja, þar sem mörg atriði eru enn óupplýst. Jeg fyrir mitt leyti veit ekki hvort þessari nefnd muni ætlað að hafa til meðferðar jöfnum höndum skatta-, peninga- og bankamálafrumvörpin, eða lausanefnd verði kosin til að fara með eitthvað þeirra, sem er sanni nær. Verði svo, er enn síður ástæða til þessara afbrigða. Einnig má á það líta, að ef menn ekki láta sjer nægja 5 menn í fjárhagsnefnd, svo sem þingsköp mæla fyrir, þá má fylla út nefndina eftir á með 2 mönnum. án afbrigða frá þingsköpum. Þurfi að ljetta nefndarmönnum starf þeirra, sem vel getur orðið, þótt sú nefnd hafi ekki til meðferðar banka og peningamálin, þá tel jeg þetta fyrirkomulag heppilegra, að láta nægja að hafa 5 menn í nefndinni fyrst í stað, samkv. þingsköpunum, og bæta 2 við síðar, ef nauðsyn krefur.

Af þessum ástæðum þykir mjer óþarft að leita hjer þingskapaafbrigða.