04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

6. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg sje það af nál. meiri og minni hl. fjhn., að nefndin hefir haft allmikið við þetta frv. að athuga. En þótt svo sje, verð jeg að vera hv. nefnd þakklátur fyrir, að svo mikill meiri hluti hennar, sem raun er á orðin, hefir haldið saman um frv.

Jeg skal fyrst snúa mjer að áliti háttv. meiri hl., og verða þá fyrst fyrir mjer ummæli hans um, að eigi sæmi í bannlandi að gera sölu áfengis að tekjulind fyrir ríkissjóð. Þetta get jeg nú alls eigi skilið, svo lengi sem áfengi er tollað, því að jeg er svo heimskur, að jeg skil eigi, að það sje ósæmilegra að taka við ágóða af sölu ákveðinnar vöru en taka við tolli af sömu vöru.

Og nefndin fylgir heldur ekki þessari kenningu sinni nema aðeins um lyfjaáfengi, því að hún er samþykk því að selja með ágóða áfengi til brenslu og iðnaðar, þótt hún fari þar nokkru skemra en frv. Hin raunverulega ástæðu til, að lyfjaáfengi er undantekið hjá nefndinni, hlýtur því að vera önnur en sú, að ósæmilegt sje að hafa ágóða af áfengissölu, og jeg get ekki fundið aðra ástæðu en þá, að vilja ljetta undir með þeim, sem þurfa lyfjaáfengis með, og þessa ástæðu skil jeg og virði, því að það er að sjálfsögðu mannúðlegt að vilja ekki íþyngja sjúklingum. En þetta mun nú vera meira í orði en á borði, því að hjer er um svo örlitla upphæð að ræða, að hún er alveg hverfandi í samanburði við aðrar byrðar, er sjúkdómar valda, t. d. legukostnað og læknishjálp. Jeg held t. d. að 3–4 kr. á ári á sjúkling hafi í þessu efni svo örlitla þýðingu, að alls engin ástæða sje til að gera neinn úlfalda úr því. Jeg veit ekki betur en að áfengi sje í ýmsum hinna algengustu lyfja, svo sem joðáburði, brjóstdropum og kínadropum, og jeg verð að segja það, þótt það þyki kannske goðgá, að yfirleitt get jeg ekki vorkent þeim, sem sker sig í fingur og fær sjer joðáburð, eða þeim, sem fær kvef og kaupir brjóstdropa, eða þeim, sem fær magaverk og tekur inn kínadropa, þótt þeir borgi t. d. 10 au. meira fyrir glasið en ella mundi. Þetta tek jeg fram til að verja frv. mitt, en ekki af því, að jeg ætli að berjast á móti brtt. meiri hl. nefndarinnar, enda mun þar vera við svo mikið ofurefli að etja, að mjer sje það ekki fært.

Brtt. nefndarinnar eru 11 talsins, en þar af eru 5 um að breyta orðinu „landsstjórn“ í „ríkisstjórn“, og er það breyting, sem jeg sje ekkert á móti, þótt mjer reyndar sýnist hún lítilfjörleg, og liggur við, að jeg undrist það, að nefndin skuli þá vilja halda orðinu „landsreikningur“ og hafi ekki stungið upp á að kalla það „ríkisreikning“.

B.-liður 2. brtt. sje jeg ekki að sje til bóta, því að eftir honum lítur út fyrir, að landlæknir eigi að gera tillögur um tóbakssöluna, en það er væntanlega að eins tilætlunin, að hann geri till. um áfengissöluna. Þessa brtt. sje jeg því ekki ástæðu til að samþykkja.

Aðalbrtt. er vitaskuld 7. brtt., en um hana hefi jeg í raun og veru talað áður, að því er áfengið snertir, og sleppi því, en um tóbakið er það að segja, að jeg er dálítið ragur við að hækka það svona mikið, þótt jeg reyndar slái ekki hendinni á móti tekjuaukanum.

Hinar brtt. sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um, en vil að eins geta þess, að jeg sje ekki ástæðu til breytinga á sektaákvæðum frv.

Þá sný jeg mjer að áliti háttv. minni hl., sem vill fella frv., eins og við var að búast, eftir undirtektum hans við 1. umr. Jeg get slept að tala um það, hvort rjett sje, að landsstjórn taki að sjer slíka verslun sem þessa. Um það atriði voru svo miklar umræður við 1. umr.

Eftir því, sem jeg skil nál. háttv. minni hl., virðast mjer ástæður hans einkum tvær. Fyrst og fremst, að ríkið eigi alls ekki að taka að sjer einkasölu, eða einokun, eins og háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) kallar það. Jeg skal taka það fram, að það er mikill munur á þessum tveimur orðum, og má alls ekki blanda þeim saman. Einokunin gamla bygðist á valdboði útlendrar stjórnar, en hjer tekur þjóðin sjálf einkasölu á þessum tilteknu vörum. Það er sá mikli munur, sem er milli þess, að fara sjálfir einir með verslun sína eða láta aðra fara eina með hana.

Önnur ástæðan er sú, að þetta muni gefa svo litlar tekjur, nema verðið sje sett gífurlega upp. Jeg get vísað til þess, sem háttv. frsm. meiri hl. (Sv. Ó.) sagði. Eftir hans útreikningi mundu tekjurnar nema 300 þús. kr. Mótbára háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) byggist annars aðallega á því, að útreikningur minn í aths. við frv. sje rangur, bæði um innkaupsverð, útsöluverð og innflutning á vínanda. Jeg skal nú strax játa það, að eitt þessara atriða er að því leyti rjett, að innflutningur er talinn í 8°, en tekjuáætlunin bygð á 10° spíritus, en þannig stendur á þessu, að burtu fjell við prentun frv., í fjarveru minni í haust, athugasemd um það að gera mætti ráð fyrir, að þessi munur jafnaðist, með hagnaði á sölu suðuspritts og iðnaðarspírituss, því að ekkert af því er talið meðal hins innflutta vínanda 1917 og 1918, og á árinu 1919 að eins frá 12. ágúst til ársloka. vegna þess, að tollur var enginn á þessum vörum til þess tíma. Innflutningur á suðu- og iðnaðarspíritus á þessum 41/2 mán. 1919 eru um 50,000 lítrar. Ef því mætti dæma eftir líkum, mætti gera innflutninginn 120,000 lítra á ári. Mjer dettur þó ekki í hug að ganga svo langt. Jeg geri innflutninginn að eins 60,000 lítra af suðuspritti og 40,000 af spir. conc. Með 4 kr. verði á suðuspritti og 6 kr. verði á meðalaspíritus, hvorttveggja að meðtöldum tolli, kostar þetta 480 þús. kr., og ágóðinn yrði þá jafnhár með 100% álagningu. Þessi innflutningur er mjög lágt áætlaður, og þó er upphæðin meiri en jeg hefi ráðgert, en mismuninn setti jeg á móti rýrnun og ef til vill minkuðum innflutningi eða minni álagningu. Skýrsla mín um innkaupsverð og útsöluverð er hárrjett, og tjóar ekkert fyrir háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) að andmæla henni, því að jeg get sannað hana hvenær sem er með reikningum frá verksmiðjunum. Háttv. minni hluti (Jak. M.) segir, að brensluspíritus sje einkum notaður til eldsneytis af efnalitlu fólki; en þetta er rangt, því að það er einkum efnaðra fólkið, sem notar hann hlutfallslega meira, því að hann er dýrt eldsneyti. Með þessum athugasemdum er í raun og veru öll bygging minni hlutans hrunin, og þarf ekki að fara meira út í ástæður hans. Þó skal jeg geta þess, að jeg hygg, að í verslun þessari þurfi alls ekki að festa mikið fje, og að rekstur hennar þurfi ekki að verða dýr. Jeg held, að ekki mundi betra að hækka toll á tóbaki og vínanda en taka að sjer þessa sölu. Því að verði tollur hækkaður frá því, sem nú er ráðgert, er hætt við tollsvikum, og sennilega kveður nokkuð að þeim nú. En t. d. með merkjum á vindlum og umbúðum um tóbak er líklegt, að hægt væri að koma töluvert í veg fyrir tollsvik, ef ríkiseinkasala væri tekin. Jeg skal að sönnu játa það, að þetta mál lítur ekki eins vel út í mínum augum með brtt. nefndarinnar og það gerði eftir frv. eins og það kom frá minni hendi, því að það var einmitt mjög lokkandi að ná álitlegum upphæðum í ríkissjóð, án þess að landsmenn þyrftu að greiða verulega meira fyrir umræddar vörur. Þessi fríða útsýn myrkvast nokkuð við það, að verðlag á tóbaki hækkar töluvert við tillögur nefndarinnar, en aftur á móti hlýtur meðalaspíritus að lækka í verði, þar sem á að selja hann ágóðalaust til lyfjabúða, og svo hámarksverð að koma. Það verður þá ekki sagt, að þetta frv. hafi ekkert gott gert, og sennilega rennur þá upp sú tíð, að spíritus, cognac og portvín verði ódýrara hjer á Íslandi, í sjálfu bannlandinu, heldur en nokkursstaðar annarsstaðar, og þá minkar víst hættan á misbrúkun þess, og sjálfsagt lækkar þá verð á öllum lyfjum, sem vínandi er í!! En við sjáum nú til, og ef til vill verður tækifæri til að minna á þessi orð mín einhverntíma síðar.

Háttv. minni hluti (Jak. M.) segir, að einkasala á tóbaki hafi gefist illa alstaðar þar sem hún hafi verið reynd, en „fabrikation“ gefist vel. Það er mjög erfitt að aðgreina tilbúninginn og söluna í þeim löndum, sem hvorttveggja er haft um hönd. En vill háttv. þm. (Jak. M.) með þessum orðum sínum leggja til, að bannaður verði innflutningur á tilbúnu tóbaki og tilbúningur lögskipaður hjer? Því að ekki getur hann ætlað sjer að fara að rækta hjer tóbak.