04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

6. mál, einkasala á tóbaki

Gunnar Sigurðsson:

Jeg leyfi mjer að mótmæla þeirri staðhæfingu háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að það sje fyrirfram vitað, að kjósendur sjeu með frv. að minsta kosti veit jeg það, að í mínu kjördæmi er það algerlega ósannað. Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að vel hefði mátt leggja þetta fyrir kjósendur á þingmálafundum. Þessu er nú því til að svara, að jeg hjelt fund með mínum kjósendum áður en stj.frv. kom, og sumir hafa alls enga þingmálafundi haldið. Það er að vísu rjett, að stjfrv. kom í fyrra lagi, en það fylgdi sá böggull skammrifi, að það var lagt mjög ríkt á að gæta þeirra vandlega og flíka þeim helst sem minst. Þó mun hafa verið leyfilegt að minnast þeirra lauslega á þingmálafundum.

Annars sýnist mjer, að hættulaust sje að fresta þessu máli, þar eð undirbúningur þess getur nú eigi talist góður, og dýrt að ráðast í fyrirtækið eins og sakir standa.