04.04.1921
Neðri deild: 34. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Má vera, að mjer hafi gleymst að geta um þetta, en háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gleymdi líka ráðinu gegn þessu. — Það eru, guði sje lof, kaupfjelögin. Þeirra er verkefnið að taka hjer í taumana og standa á móti þessum samtökum.

Hæstv. fjrh. (M. G.) stóð held jeg nokkuð höllum fæti, þegar hann var að tala um, hver bæri kostnaðinn af rýrnuninni á spíritusnum, og hjelt því fram, að hann lenti á seljanda. Jeg vil benda honum a, til þess að hann fái óvilhallan aðilja, að fara til steinolíufjelagsins og grenslast um þetta hjá því. Það hefir einmitt orðið, eða að minsta kosti mun hæstv. stjórn hafa látið því haldast uppi að selja olíuna svo dýrt sem það hefir gert, einmitt sökum rýrnunar, sem það hefir orðið að bera — eða að minsta kosti borið við. Sama mundi gilda um spíritusinn. Rýrnunin lenti á kaupanda, ef ílátið væri óbrotið.

Af því að hæstv. fjrh. (M. G.) þóttist hafa fundið þrjár skekkjur hjá mjer, þá verð jeg að benda honum á það, að í útreikningum hans er raunar tæplega hægt að tala um skekkjur, og liggur nær að segja, að þeir sjeu hringlandi vitlausir, og er það líka viðurkent af samnefndarmönnum mínum, að minsta kosti að nokkru leyti, þar sem þeir einmitt hafa hækkað álagninguna á tóbak, til að vinna upp hallann, en gera þó ráð fyrir helmingi minni tekjum af einkasölunni en hæstv. fjrh. (M. G.). — Jeg hefi haldið því fram, að þótt suðuspritt væri talið með, þá yrði spíritusinnflutningurinn ekki nándar nærri eins mikill og gert er ráð fyrir í útreikningum stjórnarinnar. Og jeg efast heldur ekki um, að hæstv. fjrh. (M. G.) hefði búið sig þannig undir þessar umræður, að hann hefði getað sannað það með tölum, ef það yfirleitt næði nokkurri átt. En hann hefir í þess stað látið nægja ágiskanir út í loftið.

Þó að spíritusinnflutningur 1919 hafi verið 116 þús. lítrar, en að eins 53 þús. næsta ár á undan, þá er ekkert hægt að ráða af því um innflutninginn á brensluspíritus, og það nær auðvitað engri átt, að aukningin hafi stafað af brensluspíritus, svo neinu nemi. Árið 1919 var t. d. flutt inn 14 þús. lítrar af portvíni og þess háttar, en árið á undan að eins 3 þús. lítrar, og stafar sú aukning væntanlega ekki af brensluspíritus. — Árið 1917 voru fluttir inn 15 þús. lítrar af suðuspritti, og tel jeg vel í lagt, að það hafi verið helmingi meira næstu árin, og styðst þar við skýrslur um tvo fyrstu ársfjórðungana 1920. Það er rangt, að innflutningshöftin hafi nokkur áhrif getað haft á innflutning þá ársfjórðunga. Fyrst og fremst var um engin innflutningshöft að ræða fyrsta ársfjórðunginn, og því hefir að minsta kosti verið haldið fram, bæði af hæstv. fjrh. (M. G.) og öðrum, að þess væri ekki að vænta, að innflutningshöftin gætu verkað á innflutning fyrstu mánuðina eftir að þau voru lögleidd.

Hæstv. fjrh. (M. G.) þykist hafa hrakið tvö atriði fyrir mjer, en það er helber misskilningur. Hann hefir ekkert hrakið af því, sem jeg hefi sagt. Jeg get bent á enn fleiri skekkjur hjá honum en jeg hefi þegar gert. Hann reiknar t. d. með því verði, sem hæst hefir verið á spíritus, og byggir á því til frambúðar. Það nær auðvitað engri átt. En við það, að verðið lækkar, minka tekjurnar. Um útsöluverðið vil jeg líka taka það fram, að í frv. er það of hátt reiknað á meðalaspíritus. Útsöluverð lyfsala er ákveðið eftir þunga, þetta 15–16 kr. kílóið, og verður það um 13–14 kr. líterinn. Hæstv. fjrh. (M. G.) reiknar verðið á lítra 15–16 kr. Það er reyndar hærra verð, þegar selt er í smæstu smáskömtum, en það kemur ekki til greina hjer, þar sem að eins er um heildsölu að ræða. Jeg held því fram, að alt, sem jeg hefi sagt hjer, standi enn óhrakið.