06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Eins og jeg hefi vikið að í nál. mínu, þá verð jeg að líta svo á, — jafnvel þó að háttv. deild fallist á að það geti verið álitlegt til að afla ríkissjóði tekna, að ríkið hafi einkasölu á tóbaki — að það verði þó að hinu leytinu að teljast mjög varhugavert, eftir því sem sakir standa nú, og ekki síst þegar á það er litið, að vilji mikils meiri hl. þessarar háttv. deildar stefnir að því að banna algerlega innflutning á einstökum óþörfum vörutegundum, til gjaldeyrissparnaðar í landinu. Ef horfið yrði að því ráði að reka tóbaksverslun sem gróðafyrirtæki fyrir ríkissjóð, þá get jeg ekki betur sjeð en að þetta myndi rekast hvað á annað, því að ef banna á innflutning á nokkrum vörum, til að spara erlendan gjaldeyri, væri fyrst og fremst sjálfsagt að banna innflutning á vindlum og vindlingum, sem óþarfa vöru, og mundi þá ágóði verslunarinnar rýrna að miklum mun. En ef á hinn bóginn á að gera þetta að gróðafyrirtæki, er hætt við að hugsað yrði minna um gjaldeyrissparnaðinn heldur en að afla ríkissjóði tekna. En það er þó þungamiðja þessa gjaldeyrismáls, að landið reyni að tryggja sig sem best út á við.

Það vakir þess vegna fyrir mjer, hvað sem menn annars kunna að segja um þetta mál, að eins og sakir standa, sje það í alla staði óviðeigandi, að frv. þetta nái fram að ganga, að þessu sinni. Vil jeg því afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því, að svo verður að líta á, að ef horfið yrði að því ráði að banna innflutning til landsins á einhverjum óþörfum vörutegundum, sakir gjaldeyrisskorts, þá átti slíkt innflutningsbann ekki síst að ná til sumra tóbaksvara, en af því lciddi, að litil von yrði um teljandi tekjur af einkasölu tóbaks í næstu framtíð, þá telur deildin rjettara að fresta framkvæmdum þessa máls og tekur fyrir nœsta mál á dagskrá.“

Leyfi jeg mjer svo að afhenda hæstv. forseta þessa rökstuddu dagskrá og vænti að hann beri hana upp til atkv. á sínum tíma.