06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hafði nú raunar ekki búist við því, að miklar umræður mundu hefjast um þetta mál nú. Það var svo ítarlega rætt við 2. umr.

Ekki er það undarlegt, að háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) vill afgreiða það með dagskrá. Hann vill vinna því geig á hvern þann hátt, sem verða má, og tískan að afgreiða málin þannig er lýðkær orðin.

Dagskrána rökstyður hann með því, að vegna væntanlegra innflutningshafta á óþarfa- og munaðarvöru, tjái ekki að lögbjóða einkasölu á tóbaki og áfengi, og því verði að fresta framgangi þessa frv.

Til andsvara þessu vil jeg benda á það, að þótt landsstjórnin hafi einkasölu á tóbaki og áfengi, þá er henni algerlega sjálfrátt að takmarka innflutning á þessum vörum. Og er þá ekki ósennilegt, að hún mundi fara líkt að og háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) benti á, að takmarka innlutninginn einmitt á þeim tegundum tóbaks, 1. d. vindlum og vindlingum, sem minst eru notaður og minst saknað. (B. J.: En sem mestur gróðinn er af!). Enda þótt einn háttv. þm. taki nærri sjer, að vindlar sjeu hjer bannaðir, og honum sje þar nokkur vorkunn, þá býst jeg ekki við, að gert verði svo mikið úr því, að það ráði atkvæðum.

Jeg ætla ekki að fara hjer að rifja upp gamlar væringar frá 2. umr. málsins. Þó get jeg ekki látið hjá líða að minnast á það, að við 2. umr. var vefengd áætlun mín um rekstrarkostnað tóbaksverslunarinnar, og sagt að hún væri alt of lág. Jeg ætlaði þennan kostnað 30,000 krónur. Síðan hefi jeg athugað þetta mál nánar, og hefi við þá athugun komist að þeirri niðurstöðu, að áætlun mín væri síst of lág. heldur miklu fremur of há.

Tóbaksverslunin mundi að eins verða einn liður í landsversluninni, og hann ekki mjög mikilsverður eða umsvifamikill. Jeg get því búist við, að 2. liður áætlunarinnar, 10 þús. kr. til starfsmanna, geti færst niður að miklum mun. En jeg tel það hins vegar sjálfgefið, að landsverslunin haldi áfram.

Jeg sje því enga ástæðu til þess að fresta þessu máli, eða fara að ráðum hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), þótt af góðum huga kunni að vera gefin, og vænti þess, að enginn villist á þessari dagskrá.