06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

6. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

Það er eins með mig og háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að jeg tók ekki til máls við 2. umr., til þess að eyða ekki tímanum. með því að segja þá álit mitt. ef frv. skyldi falla.

En nú finst mjer ástæða til að benda háttv. deild á það, að um leið og hún sleppir frv. til Ed., þá á hún ekkert vald á því aftur til sín.

Jeg vildi því spyrja háttv. þm., hvort ekki fari hrollur um þá, ef á að fara að leggja út í slíkt fyrirtæki nú, á þessum háskatímum, og eiga það á hættu, að sá tekjustofn bregðist, sem talinn hefir verið einna vissastur fyrir ríkissjóð; hvort ekki sje eins gott að hafa hann vissan, eins og að gera hann óvissan. Jeg veit, að háttv. þingmenn muni kannast við, að það getur verið varasamt að finna nýjar aðferðir til að ná tekjum í ríkissjóðinn, því að hversu vel sem það er undirbúið, þá sannast það hjer: „Greindur nærri getur, en reyndur veit þó betur“. Reynslan ein getur skorið úr því, hvort ástæða sje til að samþ. þetta frv. nú, þó að þau ummæli sjeu viðhöfð, að umhyggju fyrir því að afla ríkissjóði tekna sje hjer um að ræða.

Hjer hefir maður margprófaða gamla leið. Á maður þá að fara að yfirgefa hana og taka aðra nýja leið? Yfirgefa gamla og vissa aðferð og taka aðra nýja og vafasama? Þetta vil jeg biðja þá háttv. þdm., sem samþyktu frv. við 2. umr., að leggja sjer á hjarta, áður en þeir afgreiða málið úr deildinni. Er það forsvaranlegt, nú á þessum tímum, að gera vissasta tekjustofninn að þeim óvissasta?

En ofan á þetta bætist, að málið er illa undirbúið, og jeg held, að það sje varla hægt að segja, að það sje yfirleitt ljóst, hvorki fyrir hæstv. stjórn nje fyrir háttv. deild. Mjer finst ekki auðvelt fyrir þm. að átta sig á því, fyr en fyrir liggur nákvæm áætlun um rekstrarkostnað fyrirtækisins, og nákvæmt yfirlit yfir, hvað miklar birgðir þarf að liggja með. Jeg hafði vænst þess, að nákvæmlega hefði verið til tekið, hve mikið fje ætti að verða fast í tóbaksbirgðum, en ekki að eins ágiskun. eftir því sem stjórnin hugsar sjer, 50 þús. krónur eða svo.

Mjer finst ástæða til að rannsaka vandlega líka, hvað mikið fje fyrirtækið má búast við að hafa útistandandi hjá kaupmönnum, og er þó vert að athuga það á tímum þeim, sem nú eru. Jeg hefi ekki reynslu fyrir mjer í þessu efni, en jeg hefi orð manna fyrir því, að erfitt sje að ná fje inn núna, þó að það sje hjá góðum mönnum. Jeg gæti trúað því, að það yrði svipað með landsverslunina á tóbakinu, og að hjer yrði um stórfje að ræða. Jeg hefði óskað ítarlegri greinargerðar fyrir kostnaðinum við verslunina heldur en hv. frsm. nefndarinnar (Sv. Ó.) gerði. Hann taldi það, að til þess að spara hefði nefndin lagt til, að skipaður yrði 1 forstöðumaður og 2 endurskoðunarmenn. En þó að þeir ætli að spara á þennan hátt, og þetta sje fyrirskipað, þá kæmi mjer það ekki undarlega fyrir, þó að fljótlega risi þar upp skrifstofubákn. Mjer þótti það dálítið kynlegt, er háttv. frsm. (Sv. Ó.) mintist á, að þetta gæti verið samfara landsversluninni, sem nú er. (Sv. Ó.: Mætti hugsa sjer það).

Nú, mætti hugsa það. En meðan ekki er búið að lögákveða, að landsverslunin skuli halda áfram, þá er það ekki hægt, og það verður að skoða hana út af fyrir sig.

Svo vildi jeg að eins minnast á eitt atriði, sem kom hjer fram við 1. umr. málsins, sem sje, að samhliða tóbakinu skuli líka vera selt áfengi. Það virðist eins og þeim hafi þótt tóbakið of þurt, og því hafi þurft áfengi með því. Nefndin hefir svo lagt sínar blessunarhendur yfir þessa tilhögun, og verið með því. Jeg skil ekki í því, að háttv. þm. Borgf. (P. O.) skuli láta sjer nægja, að hann hefir frjett, að þessu muni verða kipt í lag í Ed. (P. O.: Vissu). (M. P.: Engin vissa).

Það er ekki vissa fyrir, hvernig fara muni um nokkurt mál í Ed., fyr en hún hefir í raun og veru lagt sinn dóm á það og afgreitt það. Fyrir mitt leyti get jeg aldrei verið viss um það, hvernig háttv. Ed. fer með málin. fyr en þau eru samþykt úr þeirri deild. Það er ekki rjett, að háttv. þm. (P. O.) samþykki frv., ef hann í raun og veru er á móti því. Eða hvar eru takmörkin. ef á að treysta slíku, þótt jafnvel menn hefðu vissu fyrir því.

Jeg trúi því ekki. fyr en jeg horfi á það, að þeir háttv. þingmenn, sem álíta það hneykslanlegt, láti frv. fara svona úr deildinni. Ef það verður samþykt, þá er því þar með slegið föstu hjer í deildinni, að vín og tóbak skuli sett á sama bekk sem munaðarvara. Hitt er annað mál, hvort aðrir taka í taumana og lagfæra það. Það er ekki þeirra dygð, sem hjer samþykkja það.

Svo er það eitt, sem ekki hefir verið minst á. Það er sá annmarki á þessari nýju leið til að afla ríkissjóði tekna, hvað mikið vald stjórninni er fengið í því efni. Það hefir ávalt verið siður að ákveða, hvað miklar tekjur ríkissjóður skyldi hafa af tollvörum.

En eins og hjer er, þá eru mjög víð takmörk frá því lægsta til þess hæsta, sem stjórnin má leggja á vöruna, og þó eru takmörkin, ef til vill, sett of þröng, því að verslun er jafnan verslun, og gengur upp og ofan. Þetta, að setja það í vald stjórnarinnar að ákveða sjálf ríkissjóðstekjur af ákveðnum vörum, er bein afleiðing af þessari aðferð að ná tekjunum. Þá vil jeg heldur, að Alþingi nái þeim með þeim hætti, að það geti sjálft skamtað ágóðann, en það er með tolli.

En ef verðið á tóbakinu á að fara eftir þörf ríkissjóðs, og stjórnin á að ráða því, hve mikil álagningin verður, þá býst jeg við, ef þröngt verður í búi, að gripið verði til heimildarinnar, og verði farið að okra á versluninni.

Það verður ekki um það deilt, hvort það muni græðast á þessari verslun, það er ekki annað hægt, þar sem einokun verður á vörunni. En hitt er álitamálið, hvort varan verður dýrari og gefi sömu tekjur í ríkissjóð, með þessari aðferð eða hinni.

Hæstv. fjrh. (M.G.) talaði um það í sambandi við dagskrána, sem hjer liggur fyrir, að ríkissjóður mundi missa tekjur, hvort sem þær væru teknar með tollum eða á þennan hátt, ef heftur væri innflutningur á þessari vöru, og því kæmi það ekki málinu við. Ríkissjóður misti tekjur sínar jafnt, hvort fyrirkomulagið sem væri. En þetta er ekki rjett, af tveim ástæðum. Það fyrra er, að það er munur út af fyrir sig, hvort ríkissjóður verslar með vöruna eða sjálf þjóðin, þegar heftur er innflutningur á henni, svo hin síðari, hin móralska hlið. Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) benti á það, að það væri eins og stjórnin hefði forgangsrjett að gjaldeyri, sem vœri fyrir hendi, og það gæti verið skaðlegt.

Ef farið er út úr gjaldeyrisskorti að hefta innflutning, og síðan verslun komið á fót með þá vöru, sem hefta ætti, og þó síðar væri takmarkaður innflutningur á henni, þá er munur á því, hvort tekjurnar nást með verslunarbraski eða tollum. Um tolla er víst, að hverju er gengið, en ef þetta yrði, þó það yrði að eins takmarkað um þriðjung, þá mundi kostnaður við verslunina sá sami, og væru því líkur til þess, að ekki yrði kipt úr innflutningnum sem annars. Yfirleitt er þetta svo bundið, ef ríkissjóður hefði einkasöluna, að hann gæti trauðla heft innflutning á vörunni.