07.04.1921
Efri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

6. mál, einkasala á tóbaki

Sigurður Eggerz:

Það er alls ekki ætlan mín að halda langa ræðu að þessu sinni. Frv. þetta kom fram í Nd. frá hæstv. stjórn, og er kryddað bæði einokun og brennivíni. Jeg hefi þegar áður lýst afstöðu minni til þessarar einokunarstefnu stjórnarinnar, þá er kornfrv. hennar var til umræðu hjer í háttv. deild, og þarf því ekki að fara frekar inn á það almenna atriði nú.

Jeg skal þó taka það fram, að jeg tel ekki neina vissu fengna fyrir því, að ríkissjóður fái meira í sinn hlut með þessu lagi heldur en með tollunum, sem mætti enda hækka. Það er engum efa bundið, að af þessu hlyti að leiða talsverðan kostnað til húsagerðar, því að eins og kunnugt er, verða vindlar og vindlingar að geymast í jöfnum hita, því þeir þola ekki raka, og yrði því að vanda vel til þeirra húsakynna, sem þeir ættu að geymast í. Þá gæti og vel svo farið, að valið á þeim manni, sem gera ætti innkaupin á vörum þessum, tækist ekki sem best, og myndi það ekki auka hagnaðarvon ríkissjóðs. — Hygg jeg yfirleitt, að slíkar tekjur muni, er til lengdar lætur, reynast óvissari en þær, er fengist geta með tollunum. Auk þess vita allir, að fjárhag landsins er þann veg farið nú, að síst virðist ástæða að stofna til slíks kostnaðar, úr því að oss rekur enginn nauður til. Tel jeg víst, að því fje, sem verja yrði til stofnunar slíkrar verslunar, yrði betur varið á annan hátt.

En svo er líka önnur hlið á þessu máli, sem jeg tel ekki varða minstu, en það er bannhlið málsins.

Jeg verð að segja það, að mjer þætti það engin furða, þótt bannmenn yrðu ekkert hrifnir af því að vita af víninu í þessum fjelagsskap, enda ljeti það að líkindum. Mjer finst eðlilegast, þar sem áfengi er jafnan skoðað sem lyf og talið til lyfja, að það fylgdi frv. því, til einkasölu á lyfjum, sem fram er komið, en kæmi ekki til greina hjer.

Jeg er í engum efa um, að það er hreinasti óþarfi, hve mikið fer af áfengi til iðnaðar. Það er líka auðsjeð á því, hve miklar tekjur eru áætlaðar í frv. af þessari verslun, að það er beint gert ráð fyrir, að traðkað verði bannlögunum í þessu efni — en allir ættu að sjá, hve slíkt er óviðeigandi.

Jeg þarf svo ekki að lýsa afstöðu minni til þessa máls frekar að sinni. Jeg er eindregið á móti því; í fyrsta lagi af því, að það er einn angi einokunarstefnunnar, og í öðru lagi af því, að það særir mig sem bannmann að sjá þessar aðfarir stjórnarinnar.

Það var annars dálítið skringileg sjón, sem jeg sá í dag í anddyri alþingishússins sjálfs. Það var fullur maður, sem var að staupa sig þar í makindum. Jeg varð í fyrstu dálítið hissa á þessu hátíðahaldi, en datt svo í hug, að maðurinn væri líklega bara að drekka minni stjórnarinnar og þessa frv. hennar.