07.04.1921
Efri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

6. mál, einkasala á tóbaki

Halldór Steinsson:

Jeg geri ráð fyrir, að þessu máli verði vísað til fjárhagsnefndar; en þar sem hjer er um tvö óskyld efni að ræða, einkasölu á tóbaki og áfengi, þá vil jeg vekja athygli þeirrar nefndar, sem væntanlega fjallar um málið, á því, hvort ekki muni nauðsynlegt, að hún taki það þegar til athugunar, og vinni að því að skilja þessi tvö efni að. Nú er komið fram annað frv. um einkasölu á lyfjum, og tel jeg því rjettast, að fjhn. skili áfenginu þangað, sem það á rjettilega að vera — nefnilega til lyfjanefndar.