13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

6. mál, einkasala á tóbaki

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg stend illa að vígi með að taka þátt í umræðum, af því að jeg gat ekki verið viðstaddur frá byrjun, og heyrði því ekki nema seinni hlutann af ræðu háttv. frsm. minni hl. (B. K.), og mun jeg því verða að láta mjer nægja að svara því, er jeg heyrði, og svo nefndarálitinu. Minni hlutinn telur þetta frv. algerða stefnubreytingu í skattamálum, og það alvarlega. Það sje byrjun á einokun. Það er þá einokun nokkuð víða, og mætti þar til nefna Svíþjóð, Frakkland, Spán, Austurríki, Ítalíu og fleiri lönd. Það er nú erfitt að trúa því, að þetta sje skoðun háttv. minni hl., og öllu líklegra virðist, að þetta sje ekki nema tilraun til að slá á strengi, sem illa hljóma í eyrum manna. Þessu máli hefir verið hreyft á mörgum þingmálafundum í flestum kjördæmum, og hafa ekki risið veruleg mótmæli á móti þessu, nema á örfáum stöðum. Það nær því engri átt að halda því fram, að mál þetta sje ókunnugt alþjóð, enda er það einfalt mál. Til að skýra það þarf ekki annað en spyrja kjósendur, hvort þeir vilji einkasölu á þessum vörum eða ekki. Vitaskuld er hægt að vefja þetta í þær umbúðir, að hið sanna komi ekki í ljós, heldur líti svo út sem einoka eigi alla verslun, en það hefir aldrei verið og verður aldrei minn tilgangur. Sú viðbára, að hætt sje við, að illa veljist maður til að standa fyrir versluninni, er einskisverð. Vitaskuld getur valið mistekist. Alt getur mistekist. En það fer þá að verða fátt, sem hægt er að ráðast í, ef æfinlega á að vera trygging fengin fyrirfram um að mistök sjeu útilokuð. Það er oft svo, að stórtjón getur hlotist af, ef mistök verða, en það er ekki hætt við allar framkvæmdir fyrir því. Háttv. frsm. minni hl. (B. K.) talaði um, að endurskoðun reikninga verslunarinnar myndi verða ófullnægjandi. Jeg held að jeg megi fullyrða, að þessu ákvæði sje eins fyrirkomið í lögunum um einkasölu á steinolíu, og var hann þó ráðherra, er þau voru borin fram hjer á þingi. Það er auðvitað, að stjórnin hefir heimild til að láta gagnrýnisendurskoðun á reikningumverslunarinnar fara fram þegar henni sýnist nauðsynlegt, og þarf alls ekki að taka það fram í lögum. Það er broslegt að heyra það af vörum háttv. minni hluta, að svo erfitt sje að geyma vindla og tóbak, að landsverslun muni ekki geta það. Það er broslegt fyrir þá, sem daglega ganga fram hjá fjölda búðarglugga hjer í bænum, þar sem vindlar og tóbak er í hrúgum við rúðurnar, þar sem hiti og kuldi kemst mjög vel að, en jeg veit ekki til að það skemmist. Jeg hefi sjálfur geymt tóbak, bæði vindla og reyktóbak, lengur en sex mánuði, án þess, að það hafi skemst minstu vitund. Háttv. minni hluti sagði enn fremur um steinolíulögin, að rjett væri, að tilætlunin hefði verið að reyna þau fyrst. Jeg var frsm. þeirra í Nd. á sínum tíma, og veit því vel, að tilgangur nefndarinnar þar var að fá reynslu á einkasölu á einni vörutegund, en það hefir ekki verið hægt að útvega sjer þessa reynslu, vegna styrjaldarinnar undanfarið. Það sýnist því ekkert vera á móti því að taka tóbak í staðinn og reyna það. Jeg verð að segja það, að mjer þótti það glæsilegt að geta náð um 14 milj. kr. tekjum með þessu frv., með einkasölu á tóbaki og víni, án þess, að þessar vörur hækkuðu neitt verulega í verði. Að sönnu hefir þessi hugmynd mín þegar verið skemd til muna, en þó ekki svo, að jeg vilji ekki halda frv. fram. Það er undarlegt, að ekki skuli mega leggja á spíritus hjer á landi eins og annarsstaðar, og í háttv. Nd. hefi jeg sýnt fram á, að álagning, eins og frv. gerir ráð fyrir, mundi sama og engu muna sjúklinga. Vísa jeg til þessara ummæla. Jeg segi þetta til að verja frv., en eigi til að ráðast á brtt. nefndarinnar, sem líklega væri árangurslaust, þótt jeg reyndar viti, að það eru margir, sem gjarnan vildu halda frv. fram óbreyttu.