13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

6. mál, einkasala á tóbaki

Jóhannes Jóhannesson:

Það er að eins eitt atriði, sem jeg vildi minnast á, og jeg hefi ekki heyrt hreyft, það er rekstrarfje það, sem reka á þessa verslun með.

Í 3. gr. frv. stendur, að stjórninni sje heimilt að taka lán til rekstrar þessarar verslunar. Jeg þykist nú sjá, að hið íslenska ríki þurfi að taka lán til annars, ennþá nauðsynlegra en reka verslun. Jeg vil því spyrja hæstv. stjórn, hvort hún geti útvegað fje, ekki að eins til hins óumflýjanlega, heldur og til að reka þessa verslun.

Mjer finst mjög varhugavert að banna innflutning á tóbaki árið 1922, nema því að eins, að stjórnin hafi nægilegt fje til verslunarrekstrarins.

Jeg er yfirleitt mótfallinn einkasölu, því að jeg tel frjálsa verslun hið hollasta. En fjárhag ríkisins er nú svo farið, að jeg gæti gengið á svig við þessa skoðun mína, ef um fjárvon er að ræða af þessu frv. stjórnarinnar, og stjórnin treystist til þess að hafa nægilegt fje til verslunarrekstrarins. Annars tel jeg mjög varhugavert að banna öðrum innflutning á þessum vörutegundum.