13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

6. mál, einkasala á tóbaki

Sigurður Eggerz:

Jeg ætla mjer ekki að þreyta háttv. deild með því að tala frekar um bannið.

Hæstv. fjrh. (M.G.) beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvað jeg vildi láta gera fyrir landbúnaðinn, úr því að jeg sæi ótal leiðir honum til hjálpar. Það kennir hjer misskilnings hjá hæstv. fjrh. (M. G.). Jeg sagði aldrei, að jeg sæi ótal leiðir honum til bjargar, en hitt sagði jeg, að eins vel mætti fram koma við hann þeirri hjálp sem fyrirhuguð væri, með frjálsri verslun eins og með einokun, því að hún hefði sjaldan orðið til allmikilla þrifa hjer á landi.

Þá mintist hæstv. fjrh. (M. G.) á steinolíulögin og afstöðu mína til þeirra. Jeg hlýt að minna hæstv. fjrh. (M. G.) á það, að þá stóð alt öðruvísi á en nú. Þá var einokun fyrir, knúin fram af nauðsyn, og í því máli varð þá að fara eftir reglunni alkunnu: „Með illu skal ilt út reka“. Það var, með öðrum orðum, neyðarúrræði á ófriðartímum, sem þar var um að ræða.

Hvað annars kostnaðinn snertir, þá er það ekki svo auðvelt, að svo stöddu máli, fyrir nefndina að leggja fram ítarlega kostnaðaráætlun, en hinsvegar er auðsætt, að ómögulegt er að reka þessa verslun, nema með talsverðu fjármagni, sem verja yrði bæði til tryggingar og rekstrar versluninni. Og þegar hægt er að afla ríkissjóði talsverðs fjár með sköttum, án þess að leggja út í nokkurn aukakostnað, þá á jeg bágt með að sjá, að nokkur ástæða sje til þess að velja þessa leið, nema það sje að eins markmiðið að þrengja þessum einokunarófögnuði upp á þjóðina.

Jeg veit, að það verður ekki hjá því komist að taka talsvert lán handa landinu, til þess að geta klofið hinar brýnustu nauðsynjar, en með það fje verður að fara mjög gætilega. Og jeg verð að telja það mjög varasamt, á svo erfiðum tímum, að ráðast, að nauðsynjalausu, í fyrirtæki eins og þetta, sem binda verður í mikið fje, og tel jeg það eitt næga ástæðu til að fella frv., þótt einokunin kæmi þar alls ekki til greina.

Þá kemur það atriði einnig til sögunnar, að herða yrði á tollgæslunni. En jeg verð að játa það, að í því efni er jeg búinn að öðlast svo mikla reynslu, að jeg þykist geta fullyrt, að langt verði þangað til tollgæsla hjer á landi kemst í það horf, að hún reynist einhlít.

Hæstv. fjrh. (M. G.) benti á það, að hægt yrði að nota varasjóð landsverslunarinnar til að reka með þessa verslun, en jeg hygg, að þessa fjár þurfi einhversstaðar frekar með.

Jeg ætla svo ekki að eyða fleiri orðum um þetta, en vil að eins bæta því við, að ef þetta frv. verður felt, og eitthvað greiðist til, þá skal ekki standa á mjer með að hækka tollinn á tóbaki, og það svo, að upp vinnist, og meira til, það, sem hjer tapast.