02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

6. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi litlu að bæta við nál. á þskj. 416. Mál þetta hefir orðið fyrir dálítið óvæntri meðferð í háttv. Ed., og get jeg eigi fallist á, að sú breyting, sem það hefir þar tekið, sje til bóta, og það því síður, þar sem tvísýna er á, að fyrirhuguð breyting á einkasölu áfengis nái fram að ganga í Ed. En meðan svo er, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir þeim tekjuauka, sem upphaflega var ætlast til, að frv. þetta gæfi. Fjhn. vill þó, að frv. nái fram að ganga óbreytt. Er þar nálægt 200 þús. kr. tekjuauki trygður með þannig löguðu skattgjaldi, að gjaldendur verða einna minst varir við, að greitt hafi verið.

Þegar frv. var afgreitt hjeðan til háttv. Ed., voru margir, sem æsktu einmitt þeirra breytinga, sem frv. varð þar fyrir. Býst jeg því við, að þeir muni ennþá fúsari að greiða atkvæði sín nú. Tel jeg svo eigi þörf á að fjölyrða meira um þetta mál, því að það hefir verið rætt hjer allrækilega áður, og mjer liggur við að segja: meira en þörf var á.