03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

47. mál, tollalög

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og nál. fjárhagsnefndar ber með sjer, hefir nefndin, að einum nefndarmanni undanteknum, orðið sammála um það að leggja til, að frv., eftir atvikum, næði fram að ganga. Þessi orð — eftir atvikum — bera það hinsvegar með sjer, að allir nefndarmenn hafa ekki verið allskostar ánægðir með frv. í öllum atriðum. Jeg skal geta þess, að sumir nefndarmenn voru í öndverðu andstæðir hækkuninni á kaffi og kaffibæti, eins og t. d. hv. þm. Barð. (H. K.). Það er „princip“-mál fyrir mörgum í nefndinni að hækka yfirleitt ekki toll á þeim vörutegundum, sem að einhverju leyti gætu talist nauðsynjavörur.

Annars ber að geta þess í þessu sambandi, að í skattafrv. hæstv. stjórnar kemur að nokkru leyti fram stefnubreyting. „princips“-breyting, í tolla- og skattamálunum, það að sneiða sem mest hjá óbeinum sköttum, tollum, en taka upp beina skatta, og þessi stefna er í eðli sínu hyggileg og rjettlát, og hefir fylgi mitt og fleiri manna í fjárhagsnefnd, en þó munum við enn um langan tíma verða að styðjast, að talsvert miklu leyti, við tollana jafnframt, og ráða því ýmsar ástæður. Fjárhagur og kröfur ríkissjóðs til fjárframlaga heimta mikið fje, en hinsvegar erum við svo efnalitlir, á móts við ýmsar aðrar þjóðir, að við þolum ekki og getum ekki tekið alt með beinum sköttum.

Jeg gat þess áðan, að ýmsir væru andvígir hækkun kaffitollsins (og það er jeg líka, undir venjulegum kringumstæðum), og hafa þeir fært fram fyrir máli sínu aðallega það, að kaffi væri nauðsynjavara. En kaffi er samt, að mínu áliti, ekki nauðsynjavara, nema að nokkru leiti. Það er að vísu satt, að einkum í kauptúnum þarf einhvern slíkan drykk, ekki síst þar sem fólkið lifir mestmegnis á allskonar þurmeti og fiski. En þó mun mega finna aðra drykki, sem heppilegri væru og hollari, og væri meira að segja æskilegt, að teknir væru upp í staðinn fyrir kaffi. Vil jeg þar fyrst og fremst nefna te, sem er bæði ódýrara og hollara en kaffi.

Annars er það um kaffitollinn að segja, að hann verður alls ekki eins ægilegur og andstæðingar hans vilja vera láta. Eftir upplýsingum, sem jeg hefi fengið hjá ýmsum húsmæðrum, munu úr 1 pundi af kaffi og 1/4 pundi af kaffibæti fást 130–150 bollar af kaffi, og þessvegna verður hver kaffibolli ekki tollaður með nema 14 eyris, og getur það ekki talist nein frágangssök.

En aðalástæða þess, að nefndin fellst, eftir atvikum, á þessa hækkun, er sú, að henni er það fullljóst, að þau tekjuaukafrv., sem nú liggja fyrir, geri varla betur en að vega upp á móti því, sem þeim er ætlað, eins og tímarnir eru nú, og fylsta útlit fyrir, að þau langt frá því nái áætluðum tekjum í ríkissjóð. Þessvegna er í rauninni ekki hægt, með góðri samvisku, að vera á móti því, að tekjur ríkissjóðs verði hækkaðar, eftir því sem brýn þörf er á, og á sanngjarnan hátt. Og ósanngjörn getur þessi hækkun varla talist, ekki hærri en hún er, og þegar þess er gætt, hvað hún kemur tiltölulega jafnt niður. Að vísu þóttist nefndin sjá það, að gera mætti, ef til vill, ýmsar smábreytingar á þessu frv., með því að færa til liði og breyta innbyrðis, en þó hefðu þær breytingar numið svo litlu, að ekki þótti borga sig að leggja út í þær. T. d. stakk einn nefndarmaður upp á því, að hækka toll á sódavatni um helming, en sú hækkun myndi hafa numið innan við 100 kr. árlega; enn fremur hvort ekki mætti hækka sykurtollinn, en á móti því voru eiginlega allir nefndarmenn, enda verður óhikað að telja sykur nauðsynjavöru, sem þessvegna á ekki að hækka toll á, samkvæmt því, sem jeg drap á áðan, heldur vinna að því, að sykurtollurinn verði afnuminn með öllu.

Eftir innflutningi árið 1917 mun þessi tollhækkun gefa af sjer um 240,000 kr., en þar frá má þó draga talsverða fjárupphæð, þar sem svo stendur á, að innflutningur á því ári var óvenju mikill. Þetta er nú að eins um þann lið frv., sem brtt. hafa komið fram við. Annars skal jeg ekki fara út í frv. í heild sinni. Tollhækkunina á 8? vínanda hygg jeg, að allir muni geta fallist á, sömuleiðis á tei, tegrasi, súkkulaði og kakaódufti. Að eins getur verið ágreiningur um kaffitollinn.