03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

47. mál, tollalög

Pjetur Ottesen:

Eins og hv. frsm. fjhn. (J. A. J.) tók rjettilega fram, þá hefir stjórnin með skattafrv. þeim, er hún nú hefir lagt fram, í vissum atriðum markað nýja stefnu í skattamálum. Það er mörkuð sú stefna að afla ríkissjóði, meira en nú er og verið hefir, tekna með beinum sköttum. Lög um tekjuskatt hafa að vísu verið hjer á landi í full 40 ár, en þær tekjur, sem landssjóður á þann hátt hefir fengið, hafa að eins verið óverulegur hluti landssjóðsteknanna, þangað til breyting var gerð á þeim lögum 1917, að auk þess, sem skatturinn var hækkaður, var hann einnig tekinn af tekjum af landbúnaði og sjávarútvegi.

Nú hefir stjórnin enn lagt fyrir þingið frv. um breytingu á þessum lögum, og er ætlast til, að þar sje svo um hnútana búið, að skatturinn nái til allra tekna og eigna, með þeim undantekningum, er í frv. getur. Greinilegast er þessi stefna mörkuð með frv. því um fasteignaskatt, er stjórnin flytur, og á, ef það frv. nær fram að ganga, að afnema ábúðar- og lausafjárskattinn.

Jeg er alveg samþykkur stjórninni hvað þessa stefnu snertir. En jeg get einnig tekið undir það, sem hv. frsm. (J.A. J.) sagði, að þess verði langt að bíða, eins og hjer er högum háttað, að hægt verði að ná öllum tekjum ríkissjóðs með beinum sköttum. Það er mjög líklegt, að alllengi verði enn að halda í þá tekjustofnana, sem drýgst hafa mjólkað ríkissjóðnum, tollana. En að því ber samt sem áður að vinna í framtíðinni, að sú stefna, sem hjer er á ferðinni, fái að ráða í skattamálum vorum í framtíðinni, þó að þess sje nú ekki kostur, nema að örlitlu leyti, að fella niður gömlu tekjustofnana, eins og hag ríkissjóðs er nú komið. Með hliðsjón af því, sem aukning hinna beinu skatta mundi væntanlega auka tekjurnar, þá virðist þó, að frekara en ella hefði nú verið hægt að gæta hófs í því að hlaða svo á einstaka tollstofna eða vörutegundir, og það einkum þá, er fátækasti hluti þjóðarinnar verður að nota mikið, og getur tæplega án verið. En það er síður en svo, að þessa hafi verið gætt. Áþreifanlegast virðist mjer það koma fram í 8. og 9. lið frv. þess, er hjer liggur fyrir. Þar er sem sje gert ráð fyrir því að tvöfalda kaffitollinn, hækka hann úr 30 aurum á tvípundinu upp í 60 aura, og eru þau rök færð fyrir þessu í aths. við frv., að þessi tollur hafi enn ekkert verið hækkaður síðan fyrir styrjöldina. En það er alls ekkert einsdæmi með þessa vörutegund, því að það eru fleiri vörutegundir, eins og t. d. sykur, sem enn hefir ekki verið hækkaður tollur á. En á það ber að líta, að einmitt þessar vörutegundir, kaffi og sykur, eru áður þrauttollaðar, og virðist mjer alls ekki fært að hlaða meiru í þá tollstofna en nú hvílir á þeim.

Jeg hefi því leyft mjer að koma fram með brtt. á þskj. 82. Mönnum þykir ef til vill undarlegt, að jeg skuli ekki hafa komið með brtt. við 9. lið, sem er um toll á brendu kaffi, en jeg sje enga ástæðu til að hlífa þeim mönnum við tollhækkun, sem ekki nenna að hafa fyrir því að brenna kaffið sjálfir.

En hvað viðvíkur sjálfum kaffitollinum, þá ber á það að líta, að í öngþveiti því, sem þingið hefir verið í undanfarin ár, um að afla landssjóði tekna, þá hefir aldrei þótt gerlegt að ráðast í að hækka tollinn á kaffi, því af öllum nauðsynjavörum, sem til landsins flytjast, hefir kaffið borið hæstan toll. Jeg segi, að kaffið sje nauðsynjavara, þótt engan veginn sje þar með sagt, að ekki sje hægt að nota þá vöru óhóflega, en það er ekkert einstakt um þessa vörutegund. Það er álit alls almennings, styðst við reynsluna, og að því er jeg best veit, einnig álit margra lækna, að fólk, einkum við sjávarsíðuna, sem bæði á erfitt eða ómögulegt með að afla sjer mjólkur, og á einnig þröngt í búi með feitmeti, sje nauðsyn á að hafa kaffi til drykkjar. Það er heldur ekki hægt að benda á, hvað ætti að koma í staðinn. hv. frsm. (J. A. J.) benti á te, sem væri ágætur drykkur. Jeg efast ekki um, að þetta sje sannfæring hv. frsm. (J. A. J.), en nú er það svo, að þótt te, um marga ára skeið, hafi verið á boðstólum jafnframt kaffinu, þá hefir það fengið mjög litla útbreiðslu. Auk þess er vafasamt, hvort te sje nokkuð ódýrara. Og nú er það enn fremur svo, að það er oftast fátækara fólkið, sem fer á mis við það að geta veitt sjer mjólk, feitmeti og aðrar nauðsynjavörur. Þessvegna verður naumast móti því mælt, að hjer er ráðist á garðinn, þar sem hann er lægstur, að rjúka nú í að tvöfalda þennan geysiháa toll, og er það einhver mesti ógreiði, sem hægt er að gera þessu fólki nú á tímum, og má beinlínis kalla það harðýðgi gagnvart því, eins og nú standa sakir.

Mig furðar á því, að hv. fjhn. skuli hafa getað fallist á þessa till. stjórnarinnar, því þótt það hafi ekki staðið eins ljóslifandi fyrir hæstv. stjórn eins og fyrir mjer og mörgum fleiri, hvað þessi hækkun kemur hart niður á fátækari hluta þjóðarinnar, þá undrar mig, að 7 manna nefnd skyldi geta lagst á sömu sveif í þessu máli og hæstv. stjórn. Vitanlega er hægt að segja, að nauðsyn beri að afla ríkissjóði tekna. Þetta er hverju orði sannara, en frá mínu sjónarmiði er það svo ófær leið að hækka kaffitollinn, að jeg hefi ekki viljað með brtt. minni fara neinn meðalveg. Kaffitollurinn er, eins og jeg hefi áður tekið fram, þegar svo hár, að ekki er á það bætandi. Og tekjuaukanum má eins ná á annan hátt, þótt kaffitollurinn stæði í stað, eins og brtt. mín fer fram á. Jeg hefi að vísu ekki enn bent á neinn tekjuauka, er koma ætti í stað þessarar hækkunar, enda varla hægt að ætlast til þess, að mjer ynnist tími til þess, þar sem að eins eru tveir dagar síðan málið kom úr nefnd. En það er ekki þar með sagt, að jeg geti ekki bent á tekjuauka, sem hagfeldari er almenningi, en gefur ekki minni tekjur en þessi hækkun mundi nema, og verði brtt. mín samþ. mun jeg sýna lit á því. Jeg vænti þess að hv. deildarmenn athugi þetta mál vandlega. áður en þeir samþ. þessa hækkun.

Hv. frsm. (J. A. J.) gat þess að lokum, að tollurinn væri ekki svo tilfinnanlegur, og að hann hefði talað við nokkrar kunningjakonur sínar hjer í bæ, sem hefðu fært sjer heim sanninn um þetta, með því að jafna hækkuninni niður á hvern kaffibolla, og yrði þá útkoman sú, sem hann nefndi. Þetta er að vísu lofsverð viðleitni til að styðja þann málstað, en jeg held nú samt, að þessi kaffibollareikningur verði ekki þungur á metunum.