03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

47. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg veit, að það er vinsælla að vera á móti tollum heldur en með þeim. En samt verð jeg að játa, að jeg skil ekki þá háttv. þm., sem vilja afnema alla tolla, meðan ekki hefir verið sýnt og sannað, að hægt sje að ná nægum tekjum með beinum sköttum.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) virðist álíta, að hægt sje að fara lengra í beinum sköttum heldur en gert er með frv. stjórnarinnar. Jeg held að svo sje ekki. Við samning tekjufrv. var þeirri reglu fylgt, að fyrst væru búin til frv. um beina skatta, og síðan tollafrv. Alstaðar í beinu sköttunum var farið eins hátt og fært þótti, og þó verða tollarnir að vera svona háir, til þess að hafa upp þær tekjur, sem nauðsynlegar eru. Vjer komumst því alls ekki af án tolla.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum væri sanngjarnasta leiðin til þess að ná tekjum fyrir ríkissjóð, og sagði það beina mótsetningu við tollleiðina. Það kann að vera talsvert rjett í þessu. En hjer við er það að athuga, að niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum er að mestu leyti óframkvæmanleg. Sjálfur játaði þm. (J. B.) að hún væri lítt framkvæmanleg í stærri bæjum, en þegar svo er, þá getur varla verið auðvelt að framkvæma hana um alt landið. Þar að auk fylgja því svo miklir erfiðleikar og kostnaður, að það mundi alls ekki borga sig.

Jeg á erfitt með að taka alvarlega tillögu þessa háttv. þm. (J. B.). Hann fer fram á gífurlega niðurfærslu á tekjunum, talsvert á aðra miljón króna, en bendir ekki um leið á neina leið til þess að bæta í skarðið. Það er ekki nóg að standa upp í þingsal og segja að þetta og þetta sje órjettlátt. Ef það, þrátt fyrir órjettlætið, er óhjákvæmileg nauðsyn, þá verður fyrst að finna aðra rjettlátari leið, áður en menn fordæma. Nú er hjer einmitt að ræða um óhjákvæmilega nauðsyn fyrir ríkissjóð. Hann verður að fá þessar tekjur á einhvern hátt, og það verður að koma utan að, því að í honum sjálfum fæðist ekkert.

Jeg verð því að álíta, að till. sje annaðhvort komnar fram í gamni, eða hv. þm.(J. B.) hafi gleymt, að ríkissjóður þarf tekjur. Jeg get ekki felt mig við þann mikla mun, sem brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.) á þskj. 82 vill gera á tollinum á brendu og óbrendu kaffi. 80 aura kg. á brendu, en aðeins 30 aur. á óbrendu. Jeg sje enga ástæðu til þess að hegna fólki fyrir það að kaupa brent kaffi. Kringumstæður geta oft verið svo á heimilum, að erfitt sje að koma brenslu við.

Jeg er annars þakklátur háttv. fjhn. fyrir að hafa lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt. Sjálfum væri mjer vitanlega ljúfast að þurfa ekki að hækka tollana. En það er ekkert undanfæri, ef hægt á að vera að greiða lögboðin gjöld ríkissjóðs. Jeg tæki því þakksamlega, ef háttv. þm. gætu bent á einhverjar betri leiðir, en að vilja aðeins skera niður er óhæfa.

Jeg finn sjerstaka ástæðu til að undirstrika það, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) tóku fram um, að tekjur manna eru nú svo litlar og óvissar, að ekki má byggja of mikið á tekjuskattinum.

Jeg vona nú, að frv. verði vísað til 3. umr. Þar geta þm. síðan komið með brtt., ef þeir finna aðra hentugri gjaldstofna.