03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

47. mál, tollalög

Magnús Jónsson:

Þess hefir stundum orðið vart, og nú síðast hjá háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að ræðum þm. er ætluð tvöföld adressa. Annars vegar til háttv. þingdeildar, en hins vegar út fyrir þingsalinn, og hver veit hvert; en sennilega á það að ná til háttv. kjósenda, sem ekki finna sama ábyrgðarþungann hvíla á sjer, þótt ríkissjóði sjeu ætlaðar rýrar tekjur eða slíkt. Jeg get vel trúað, að það mælist vel fyrir að fella tolla, en mjer finst, eins og hæstv. fjrh. (M. G.) að ekki sje hægt að taka alvarlega till. um að fella þá alveg niður, þegar ekki er um leið bent á aðra gjaldstofna. Upphæðin, sem með frv. fæst, er gífurleg, og sá liðurinn, sem helst er farið fram á að fella niður, er áreiðanlega einna vísastur, svo viss, að ef hann bregst, þá má segja, „að svo bregðist krosstrje sem önnur trje“.

Þá er talað er um tolla, kennir oft þess misskilnings hjá mönnum, að þeir halda að það sje einhver allsherjar regla, að tollur á óþarfa sje sama sem tollur eftir efnum og ástæðum, sem aðallega verði greiddur af hinum ríku, en tollar á nauðsynjum leggist aðallega á hina fátæku.

Mjer þykir gaman að því að sjá skýrslur um það, hverjir aðallega kaupa óþarfann. Jeg er viss um, að þá kæmi í ljós, að það er síður en svo, að óþarfi sje eingöngu keyptur af þeim efnaðri. Og er það ekki einmitt svo, að margir af þeim, sem orðnir eru efnaðir, eru það vegna þess, að þeir hafa ekki keypt óþarfa tollvöru, en aðrir hafa orðið fátækir, vegna þess að þeir hafa keypt of mikið af óþarfanum.

Að vera að deila um það, hvort kaffi sje ónauðsynlegt eða ekki, er í rauninni að deila um keisarans skegg. Það er vitanlegt, að menn hafa lifað án þess um margar aldir, án þess að finna íil nokkurrar vöntunar. En á síðari tímum hafa menn vanið sig á það, og það er svipað með það og tóbakið, mönnum finst þeir geti ekki verið án þess.

Nú hefir tóbakstollur verið hækkaður, enda þótt mörgum fátækling finnist hann ekki geta lifað án tóbaks. En ef það er rjettlátt, þá er ekki ranglátt að hækka kaffitollinn. En þegar svo er talað um að tvöfalda hann, þá finst mjer að segja megi „fyr má nú rota en dauðrota“. Jeg vil ekki láta kaffitollinn standa í stað, en það þarf ekki þar fyrir að hækka hann um helming. Jeg ætla samt að greiða frv. atkv. mitt til 3. umr., en get ekki greitt neinum af þeim brtt., sem fram eru komnar, atkv. mitt, af því, að þær fara ýmist fram á að hækka tollinn ekkert, eða þá að fella hann niður.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tók af mjer ómakið við að tala um sambandið milli þessa frv. og tóbakseinkasölufrv. stjórnarinnar. Jeg álít það sje erfitt að taka fulla afstöðu til þessa, meðan maður ekki veit um afdrif þess frv. í þinginu. Ef jeg vissi, að það frv. myndi falla, mundi jeg gera brtt. við þetta frv.