03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

47. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Jeg gerði grein fyrir því áðan, hvernig á því stæði, að kaffi væri orðin almenn neysluvara hjer og víðar. Mjólk er orðin svo dýr, að almenningi er ókleift að kaupa hana, og auk þess fæst hún ekki tímum saman á hverju ári, nema að litlu leyti. Allir þeir, sem eitthvað hafa dvalið hjer í Reykjavík og víðar við sjávarsíðuna, vita að þetta er rjett. Öllum þorra almennings er kaffið þess vegna nauðsynlegt, og þá sjerstaklega þeim, sem fátækastir eru.

Það var ekki rjett hjá háttv. frsm. (J. A. J.), að jeg hefði sagt að kaffið væri að útrýma mjólkinni. Erfiður búskapur og lítið graslendi í nánd við Reykjavík hafa gert það að verkum, að hjer hefir ekki fengist nóg mjólk eða nægilega ódýr. Kaffið hefir því ekki útrýmt mjólkinni, heldur að eins komið í hennar stað hjá fjölda manna. Þetta vita allir, háttv. frsm. (J. A. J.) líka, og þess vegna er óþarfi að ræða það frekar.

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) og aðrir háttv. deildarmenn hafa ekki viljað taka brtt. mína alvarlega. Þeir hafa ekki skilið, að nokkur vildi lækka eða afnema tolla, nema bæta við öðrum nýjum, eða hækka enn meir þá, sem fyrir eru. Jeg get ekki að því gert, þó að skilningur þeirra sje ekki þroskaðri en þetta, en hitt get jeg fullvissað þá um, að brtt. er borin fram í fullri alvöru. Jeg bjóst að vísu ekki við, að hún næði fram að ganga, jeg gat, því miður, ekki borið það traust til háttv. þm., en till. er fram komin sem aðvörun. Hún á að vera hinu háa Alþingi bending um það, að til eru menn, sem líta svo á, að tollarnir eigi að hverfa úr sögunni, og þeim mönnum fjölgar óðum. Það get jeg fullvissað hæstv. fjrh. (M. G.) og aðra um.

Háttv. þm„ sem hafa talað á móti till. minni, hafa verið svo rígbundnir við tollana, að þeir hafa ekki skilið, hvers vegna jeg benti ekki á aðrar leiðir, benti ekki á að hækka aðra tolla. Þó að þeim auðnist ef til vill ekki að skilja það, ætla jeg að segja þeim, að maður, sem er á móti tollum, bendir ekki á tollhækkun til þess að afla landinu tekna. En jeg get bent á aðrar leiðir. Hið háa Alþingi getur hækkað tekjuskattinn á háum tekjum, og fengið þar fyllilega í það skarð, sem till. mín heggur í tekjur ríkissjóðs. Sá skattur er rjettlátur, ef skynsamlega er að farið, þó að hann sje það ekki í frv. stjórnarinnar.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Jeg geri mjer ekki von um, að till. mín nái fram að ganga, en hinum tilgangi sínum getur hún náð, að vera aðvörun, að benda háttv. þm. á, að tollarnir eru á fallanda fæti.