03.03.1921
Neðri deild: 13. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

47. mál, tollalög

Pjetur Ottesen:

Því var skotið að mjer áðan, að ekki væri vert að teygja umræður lengi úr þessu, því að háttv. þm. mundi vera farið að langa í kaffi, eftir alt þetta kaffital. Jeg vil ekki hindra það, að hv. þm. geti fullnægt þessari löngun sinni, og ætla þess vegna að eins að skjóta örfáum orðum að háttv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.). Hann talaði um kaffið og áhrif þess af miklum lærdómi og sjálfsreynslu, og gat þess jafnframt, til þess að byggja ekki eingöngu á sjálfum sjer, að læknar ráðlegðu sjúklingum sínum stundum að drekka ekki kaffi. Nú vil jeg spyrja háttv. þm (E. Þ.) hvort honum sje ekki kunugt um, að læknar, undir vissum kringumstæðum, ráðleggja mönnum að neyta ekki kjöts, fisks, rúgbrauðs og ýmsra annara fæðutegunda? En jeg geri ráð fyrir, að háttv. 1. þm. G.K. (E. Þ.) álíti þó vörur þessar engu að síður nauðsynjavörur.